Hvað merkir orðið soga í t.d. Sogavegur, Sogablettur, Sogið o.s.frv.?Sog er skylt sagnorðinu sjúga og fleiri orðum af þeim toga, til dæmis soga (sogast upp), súgur (dragsúgur), suga (blóðsuga). Í náttúrunni geta orð af þessu tagi bæði vísað til vinds og vatns. Í örnefnum vísa þau til vætu eða tilfærslu á vatni. Stundum merkir það mikinn vatnsstraum, eins og í tilfelli Sogsins sem fellur úr Þingvallavatni, en virðist einnig notað um staðari mýrlendi. Á Reykjanesskaga heita Sog og Sogalækur við Trölladyngju og Grænudyngju, þar virðist Sog notað um söfnunarsvæði vatns áður en það myndar vatnsfall. Sogin í Reykjavík, sem Sogamýri er kennd við, eru af svipuðum toga en með afar litlu afrennsli. Svæðið var þurrkað upp á fyrri hluta 20. aldar með framræslu og í kjölfarið fór svæðið að byggjast upp af smáskikum sem kallaðir voru Sogablettir og Sogamýrarblettir. Nafn Sogavegar í Reykjavík er dregið af þessu svæði en áður fyrr náði hann allt vestur að Háteigsvegi. Örnefni með Sog- finnast víða um land. Mynd:
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 21.9.2018).