Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða skordýr á Íslandi henta vel í matseld?

Birgir Örn Smárason

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Sameinuðu þjóðirnar hvetja fólk til að auka neyslu á skordýrum. Hvaða skordýr á Íslandi henta vel í matseld? Er eitthvað sem ber að varast?

Skordýr sem fæða handa mönnum komust almennilega á dagskrá í hinum vestræna heimi eftir útgáfu skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), Edible Insects: Future prospects of food and feed security, árið 2013. Skýrslan hefur vakið gríðarlega athygli og með henni komust skordýr til fóður- og fæðuframleiðslu inn í meginstraum vísinda og fjölmiðlaumfjöllunar. Í skýrslunni er bent á að skordýr hafi verið hluti af næringaruppsprettu mannkyns um langa hríð. Í dag er talið að skordýr séu hluti af fæðu tveggja milljarða manna. En í flestum þjóðfélögum hins vestræna og norðlæga heims ríkir hins vegar andúð á neyslu þeirra, og jafnvel tilvist.

Þótt skordýr séu ekki vinsæll eða útbreiddur matur í hinum vestræna heimi er talið að þau séu hluti af fæðu tveggja milljarða manna.

Mikið hefur verið rætt um þá staðreynd að fólksfjöldi á jörðinni muni vera orðinn allt að 9 milljarðar árið 2050. Til þess að fæða þennan mikla fjölda fólks er talið að núverandi matvælaframleiðsla þurfi að tvöfaldast sem er erfitt að sjá fyrir því þrýstingur á náttúruauðlindir er mikill fyrir. Landsvæði eru af skornum skammti, ofveiði í höfum er algeng og loftslagsbreytingar munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu í heiminum. Við þurfum að finna nýjar leiðir til næringaröflunar. Skýrsla FAO bendir einmitt á að ræktun skordýra stendur annarri kjötframleiðslu framar hvað varðar áhrif á umhverfi og auðlindir, þó ýmislegt sé enn órannsakað þar. Ræktun skordýra þarfnast almennt minna landsvæðis, minna af vatni og orku, og ef fæða skordýranna er lífrænn úrgangur eða hliðarstraumar annarrar matvælaframleiðslu sem annars ekki nýtist, er losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars, töluvert minni.

Óvíst er þó hvernig margir Vesturlandabúar munu bregðast við þessari þróun, en ljóst er að einhvers staðar verður að byrja. Skordýr er hægt að nota sem uppsprettu næringar fyrir ræktun á hefðbundnara prótíni eins og fiski, eða sem innihaldsefni í önnur matvæli eins og brauð, súpur, pestó og fleira. En það er í sjálfu sér ekki undarlegt að skordýraát eða ræktun sé lítil á norðurslóðum. Þar eru skordýr ekki á ferli stóran hluta ársins og tiltölulega fáar tegundir þrífast þar almennt, miðað við suðrænni slóðir. Í augum landbúnaðarþjóða eru skordýr frekar talin vágestur heldur en auðlind.

Á Íslandi eru nokkrar tegundir sem nýta mætti með margvíslegum hætti. Bestu kostirnir til ræktunar eru til dæmis fiskifluga (Calliphora uralensis), og húsflugan (Musca domestica). Sú síðarnefnda hefur verið töluvert mikið rannsökuð erlendis til ræktunar í stórum stíl og þykir henta ágætlega vegna vaxtarhraða og næringarinnihalds. Húsflugan getur verpt um 100 eggjum í einu í ýmiskonar lífrænan úrgang. Eggin klekjast samdægurs og lirfurnar þroskast á um tveimur vikum við góð skilyrði. Ókosturinn við þessar tvær tegundir er hins vegar sá að flugurnar geta báðar dreift sjúkdómum og bakteríum. Því ber helst að varast smithættu ef halda skal slík dýr til ræktunar. Almennt ætti hins vegar notkun lirfanna í matvæli að vera hættulaus, en ávallt skal gæta varúðar og fá slíkt staðfest hjá sérfræðingum.

Húsflugan (Musca domestica) hefur verið töluvert mikið rannsökuð erlendis til ræktunar í stórum stíl og þykir henta ágætlega vegna vaxtarhraða og næringarinnihalds.

Sú tegund sem hvað mest hefur verið rannsökuð á undanförnum árum í Evrópu og Norður-Ameríku til ræktunar í fóður og matvæli er hin svokallaða svarta hermannafluga (Hermetia illucens). Þessi fluga, eða lirfa flugunnar öllu heldur, hefur gríðarlegan vaxtarhraða, getur nýtt margvíslegt hráefni til vaxtar og hefur heppilegt næringarinnihald. Flugan sjálf neytir ekki matar og er hún því ekki smitberi, sem er stór kostur. Þessi tegund þrífst eingöngu við hátt hita- og rakastig og mundi því ekki þrífast í íslenskri náttúru, en gæti verið heppileg til ræktunar innanhúss. Þetta er sú tegund sem hefur verið mest rannsökuð á Íslandi hvað varðar ræktun á skordýrum í fóður eða matvæli.

Rannsóknir og eldi í stórum stíl á skordýrum hefur tekið mjög miklum framförum á undanförnum árum í Evrópu og Norður-Ameríku. Ýmislegt hefur þó staðið í vegi fyrir vexti geirans og skordýraafurðir er hvergi að finna í verslunum í flestum löndum Evrópu. Hér á Íslandi hefur áhugi á skordýraræktun í matvæli eða fóður almennt ekki verið mikill, en þó er frá einhverju að segja. Eins og er hefur eitt fyrirtæki verið stofnað hér á landi í þeim tilgangi að rækta skordýr, aðallega sem hráefni í fóður. Víur var stofnað af tveimur frumkvöðlum sem höfðu það að markmiði að nýta úrgang og aukaafurðir úr fiskvinnslum á Vestfjörðum til þess að ala lirfur svörtu hermannaflugunnar og selja sem prótínríkt mjöl í fóður fyrir eldisfisk eða önnur dýr. Fyrirtækið var starfandi í nokkur ár en hætti starfsemi vegna allmargra þátta, meðal annars vegna óhentugs laga- og reglugerðaumhverfis. Öll þeirra reynslusaga er rakin í góðri skýrslu sem finna má í heimildaskránni hér að neðan. Annað íslenskt fyrirtæki, Crowbar Protein, var einnig stofnað af tveimur frumkvöðlum árið 2014. Þeir þróuðu prótínstykki, Jungle Bar, úr bandarísku krybbumjöli sem kom í íslenskar verslanir ári seinna. Jungle Bar stoppaði hins vegar stutt í verslunum og var tekið úr hillum nokkrum dögum seinna vegna innleiðingar nýfæðisreglugerðar Evrópusambandsins, sem var reyndar tekin í notkun í ESB 1997, en á Íslandi á sama tíma og Jungle Bar var að ryðja sér til rúms, af einhverjum ástæðum.

Lirfur svörtu hermannaflugunnar (Hermetia illucens).

Matís hefur stundað rannsóknir á skordýrum í fóður eða fæðu frá árinu 2012. Fyrirtækið flutti inn svörtu hermannafluguna og gerði allnokkrar tilraunir á mismunandi æti fyrir lirfuna, kannaði vaxtarhraða og næringarinnihald. Niðurstöður leiddu í ljós að hægt er að hafa mikil áhrif á næringarinnihald lirfanna með mismunandi æti ásamt því að lirfan er gríðarlega öflug í niðurbroti úrgangs og umbreytir hún ætinu í hágæða prótín og fitu. Hún hentar því vel sem hráefni í fóður fyrir dýr og í matseld. Matís hefur síðan þá tekið þátt í og leitt nokkur norræn og evrópsk rannsóknarverkefni með það að markmiði að þróa og prófa skordýr sem hráefni í fóður fyrir eldisfisk og í matvæli.

Hvað varðar reglugerðaumhverfi skordýraræktunar og notkunar þeirra, þá er það enn nokkuð óljóst og ruglingslegt í Evrópu. Ein ástæða þess að Víur, og reyndar einnig Crowbar Protein, hættu starfsemi er vegna óhagstæðra eða óljósra reglugerða. Ýmislegt hefur þó skýrst á síðustu árum. Nú er svo komið að átta skordýrategundir eru leyfðar sem fóðurhráefni fyrir eldisfisk, og unnið er að því að leyfa þær einnig í fóður fyrir svín og alifugla. Almennt eru ræktuð skordýr ekki leyfð sem matvæli í Evrópu en þó eru nokkrar undantekningar á. Til dæmis hafa Finnar ákveðið að leyfa skordýr í matvæli og önnur lönd eins og Belgía einnig, í einhverjum mæli. Það eru hins vegar reglurnar sem ákvarða hvaða hráefni má nota til að ala skordýralirfurnar á, sem helst standa í vegi fyrir frekari uppgangi geirans og takmarka hversu umhverfisvænn og skilvirkur hann gæti orðið. Eins og stendur má eingöngu ala skordýr á plöntuafurðum, en allar dýraafurðir eru bannaðar auk ýmissa annarra mögulegra fóðurhráefna, svo sem lífræns úrgangs.

Hér sést á hverju má ala skordýr og í hvað má nota þau.

Ræktun skordýra varðar nefnilega einnig fæðuöryggi heimsins. Sérstaklega þarf að skoða þróun á nýju hráefni sem unnið er úr skordýrum sem hægt væri að nýta með sjálfbærum hætti til að bregðast við auknum prótínskorti í Evrópu. Sojamjöl, sem er að mestu framleitt í Suður-Ameríku er orðið mjög eftirsótt, til dæmis í Kína og víðar. Evrópa notar soja í stórum stíl án þess að hafa nokkra stjórn á þessari auðlind. Því er lögð áhersla á það í Evrópu að finna prótínauðlindir sem hægt er að nýta heima fyrir – og vera ekki jafn háð framleiðendum í fjarlægum löndum og nú er. Skordýraraeldi er mun líklegra til að hafa áhrif á fæðu manna, af stærðargráðu sem hefur einhverja hagfræðilega eða umhverfislega þýðingu, ef það byggir ekki á fóðri sem annars gæti nýst í öðru dýraeldi. Það er lykilatriði að hanna hagkvæma ferla til að rækta mikið af skordýrum á hráefnisstraumum sem ella færu í súginn. Það skiptir því máli hvað skordýrin éta. Meiri nýsköpun og rannsóknir þarf á þessu sviði svo þannig geti orðið.

Að lokum ber að nefna að ræktun og sala skordýra til manneldis er ekki leyfð hér á landi eins og mál standa. Þeim fyrirtækjum sem hafa reynt fyrir sér í ræktun eða sölu á skordýraafurðum hefur gengið treglega að fá skýr svör frá yfirvöldum um hvað nákvæmlega má gera og hvort eða hvenær reglugerðir verða innleiddar sem leyfa notkun skordýra í matvæli eða fóður fyrir dýr. Það er hins vegar ekkert sem bannar að halda skordýr heima hjá sér. Í því felast ýmis tækifæri; hægt er að ala skordýrin á lífrænum úrgangi sem til fellur á heimilinu og fá í staðinn hollt hráefni sem hentar vel beint á pönnuna eða malað niður í til dæmis bakstur. Til eru margskonar tæki og tól sem auðvelda slíkt dýrahald, eins og til dæmis „The Hive“ sem lesa má um á vef LIVIN farms.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Birgir Örn Smárason

sérfræðingur hjá Matís

Útgáfudagur

8.5.2019

Spyrjandi

Marta Magnúsdóttir

Tilvísun

Birgir Örn Smárason. „Hvaða skordýr á Íslandi henta vel í matseld?“ Vísindavefurinn, 8. maí 2019, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76203.

Birgir Örn Smárason. (2019, 8. maí). Hvaða skordýr á Íslandi henta vel í matseld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76203

Birgir Örn Smárason. „Hvaða skordýr á Íslandi henta vel í matseld?“ Vísindavefurinn. 8. maí. 2019. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76203>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða skordýr á Íslandi henta vel í matseld?
Í heild hljóðaði spurningin svona:

Sameinuðu þjóðirnar hvetja fólk til að auka neyslu á skordýrum. Hvaða skordýr á Íslandi henta vel í matseld? Er eitthvað sem ber að varast?

Skordýr sem fæða handa mönnum komust almennilega á dagskrá í hinum vestræna heimi eftir útgáfu skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), Edible Insects: Future prospects of food and feed security, árið 2013. Skýrslan hefur vakið gríðarlega athygli og með henni komust skordýr til fóður- og fæðuframleiðslu inn í meginstraum vísinda og fjölmiðlaumfjöllunar. Í skýrslunni er bent á að skordýr hafi verið hluti af næringaruppsprettu mannkyns um langa hríð. Í dag er talið að skordýr séu hluti af fæðu tveggja milljarða manna. En í flestum þjóðfélögum hins vestræna og norðlæga heims ríkir hins vegar andúð á neyslu þeirra, og jafnvel tilvist.

Þótt skordýr séu ekki vinsæll eða útbreiddur matur í hinum vestræna heimi er talið að þau séu hluti af fæðu tveggja milljarða manna.

Mikið hefur verið rætt um þá staðreynd að fólksfjöldi á jörðinni muni vera orðinn allt að 9 milljarðar árið 2050. Til þess að fæða þennan mikla fjölda fólks er talið að núverandi matvælaframleiðsla þurfi að tvöfaldast sem er erfitt að sjá fyrir því þrýstingur á náttúruauðlindir er mikill fyrir. Landsvæði eru af skornum skammti, ofveiði í höfum er algeng og loftslagsbreytingar munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu í heiminum. Við þurfum að finna nýjar leiðir til næringaröflunar. Skýrsla FAO bendir einmitt á að ræktun skordýra stendur annarri kjötframleiðslu framar hvað varðar áhrif á umhverfi og auðlindir, þó ýmislegt sé enn órannsakað þar. Ræktun skordýra þarfnast almennt minna landsvæðis, minna af vatni og orku, og ef fæða skordýranna er lífrænn úrgangur eða hliðarstraumar annarrar matvælaframleiðslu sem annars ekki nýtist, er losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars, töluvert minni.

Óvíst er þó hvernig margir Vesturlandabúar munu bregðast við þessari þróun, en ljóst er að einhvers staðar verður að byrja. Skordýr er hægt að nota sem uppsprettu næringar fyrir ræktun á hefðbundnara prótíni eins og fiski, eða sem innihaldsefni í önnur matvæli eins og brauð, súpur, pestó og fleira. En það er í sjálfu sér ekki undarlegt að skordýraát eða ræktun sé lítil á norðurslóðum. Þar eru skordýr ekki á ferli stóran hluta ársins og tiltölulega fáar tegundir þrífast þar almennt, miðað við suðrænni slóðir. Í augum landbúnaðarþjóða eru skordýr frekar talin vágestur heldur en auðlind.

Á Íslandi eru nokkrar tegundir sem nýta mætti með margvíslegum hætti. Bestu kostirnir til ræktunar eru til dæmis fiskifluga (Calliphora uralensis), og húsflugan (Musca domestica). Sú síðarnefnda hefur verið töluvert mikið rannsökuð erlendis til ræktunar í stórum stíl og þykir henta ágætlega vegna vaxtarhraða og næringarinnihalds. Húsflugan getur verpt um 100 eggjum í einu í ýmiskonar lífrænan úrgang. Eggin klekjast samdægurs og lirfurnar þroskast á um tveimur vikum við góð skilyrði. Ókosturinn við þessar tvær tegundir er hins vegar sá að flugurnar geta báðar dreift sjúkdómum og bakteríum. Því ber helst að varast smithættu ef halda skal slík dýr til ræktunar. Almennt ætti hins vegar notkun lirfanna í matvæli að vera hættulaus, en ávallt skal gæta varúðar og fá slíkt staðfest hjá sérfræðingum.

Húsflugan (Musca domestica) hefur verið töluvert mikið rannsökuð erlendis til ræktunar í stórum stíl og þykir henta ágætlega vegna vaxtarhraða og næringarinnihalds.

Sú tegund sem hvað mest hefur verið rannsökuð á undanförnum árum í Evrópu og Norður-Ameríku til ræktunar í fóður og matvæli er hin svokallaða svarta hermannafluga (Hermetia illucens). Þessi fluga, eða lirfa flugunnar öllu heldur, hefur gríðarlegan vaxtarhraða, getur nýtt margvíslegt hráefni til vaxtar og hefur heppilegt næringarinnihald. Flugan sjálf neytir ekki matar og er hún því ekki smitberi, sem er stór kostur. Þessi tegund þrífst eingöngu við hátt hita- og rakastig og mundi því ekki þrífast í íslenskri náttúru, en gæti verið heppileg til ræktunar innanhúss. Þetta er sú tegund sem hefur verið mest rannsökuð á Íslandi hvað varðar ræktun á skordýrum í fóður eða matvæli.

Rannsóknir og eldi í stórum stíl á skordýrum hefur tekið mjög miklum framförum á undanförnum árum í Evrópu og Norður-Ameríku. Ýmislegt hefur þó staðið í vegi fyrir vexti geirans og skordýraafurðir er hvergi að finna í verslunum í flestum löndum Evrópu. Hér á Íslandi hefur áhugi á skordýraræktun í matvæli eða fóður almennt ekki verið mikill, en þó er frá einhverju að segja. Eins og er hefur eitt fyrirtæki verið stofnað hér á landi í þeim tilgangi að rækta skordýr, aðallega sem hráefni í fóður. Víur var stofnað af tveimur frumkvöðlum sem höfðu það að markmiði að nýta úrgang og aukaafurðir úr fiskvinnslum á Vestfjörðum til þess að ala lirfur svörtu hermannaflugunnar og selja sem prótínríkt mjöl í fóður fyrir eldisfisk eða önnur dýr. Fyrirtækið var starfandi í nokkur ár en hætti starfsemi vegna allmargra þátta, meðal annars vegna óhentugs laga- og reglugerðaumhverfis. Öll þeirra reynslusaga er rakin í góðri skýrslu sem finna má í heimildaskránni hér að neðan. Annað íslenskt fyrirtæki, Crowbar Protein, var einnig stofnað af tveimur frumkvöðlum árið 2014. Þeir þróuðu prótínstykki, Jungle Bar, úr bandarísku krybbumjöli sem kom í íslenskar verslanir ári seinna. Jungle Bar stoppaði hins vegar stutt í verslunum og var tekið úr hillum nokkrum dögum seinna vegna innleiðingar nýfæðisreglugerðar Evrópusambandsins, sem var reyndar tekin í notkun í ESB 1997, en á Íslandi á sama tíma og Jungle Bar var að ryðja sér til rúms, af einhverjum ástæðum.

Lirfur svörtu hermannaflugunnar (Hermetia illucens).

Matís hefur stundað rannsóknir á skordýrum í fóður eða fæðu frá árinu 2012. Fyrirtækið flutti inn svörtu hermannafluguna og gerði allnokkrar tilraunir á mismunandi æti fyrir lirfuna, kannaði vaxtarhraða og næringarinnihald. Niðurstöður leiddu í ljós að hægt er að hafa mikil áhrif á næringarinnihald lirfanna með mismunandi æti ásamt því að lirfan er gríðarlega öflug í niðurbroti úrgangs og umbreytir hún ætinu í hágæða prótín og fitu. Hún hentar því vel sem hráefni í fóður fyrir dýr og í matseld. Matís hefur síðan þá tekið þátt í og leitt nokkur norræn og evrópsk rannsóknarverkefni með það að markmiði að þróa og prófa skordýr sem hráefni í fóður fyrir eldisfisk og í matvæli.

Hvað varðar reglugerðaumhverfi skordýraræktunar og notkunar þeirra, þá er það enn nokkuð óljóst og ruglingslegt í Evrópu. Ein ástæða þess að Víur, og reyndar einnig Crowbar Protein, hættu starfsemi er vegna óhagstæðra eða óljósra reglugerða. Ýmislegt hefur þó skýrst á síðustu árum. Nú er svo komið að átta skordýrategundir eru leyfðar sem fóðurhráefni fyrir eldisfisk, og unnið er að því að leyfa þær einnig í fóður fyrir svín og alifugla. Almennt eru ræktuð skordýr ekki leyfð sem matvæli í Evrópu en þó eru nokkrar undantekningar á. Til dæmis hafa Finnar ákveðið að leyfa skordýr í matvæli og önnur lönd eins og Belgía einnig, í einhverjum mæli. Það eru hins vegar reglurnar sem ákvarða hvaða hráefni má nota til að ala skordýralirfurnar á, sem helst standa í vegi fyrir frekari uppgangi geirans og takmarka hversu umhverfisvænn og skilvirkur hann gæti orðið. Eins og stendur má eingöngu ala skordýr á plöntuafurðum, en allar dýraafurðir eru bannaðar auk ýmissa annarra mögulegra fóðurhráefna, svo sem lífræns úrgangs.

Hér sést á hverju má ala skordýr og í hvað má nota þau.

Ræktun skordýra varðar nefnilega einnig fæðuöryggi heimsins. Sérstaklega þarf að skoða þróun á nýju hráefni sem unnið er úr skordýrum sem hægt væri að nýta með sjálfbærum hætti til að bregðast við auknum prótínskorti í Evrópu. Sojamjöl, sem er að mestu framleitt í Suður-Ameríku er orðið mjög eftirsótt, til dæmis í Kína og víðar. Evrópa notar soja í stórum stíl án þess að hafa nokkra stjórn á þessari auðlind. Því er lögð áhersla á það í Evrópu að finna prótínauðlindir sem hægt er að nýta heima fyrir – og vera ekki jafn háð framleiðendum í fjarlægum löndum og nú er. Skordýraraeldi er mun líklegra til að hafa áhrif á fæðu manna, af stærðargráðu sem hefur einhverja hagfræðilega eða umhverfislega þýðingu, ef það byggir ekki á fóðri sem annars gæti nýst í öðru dýraeldi. Það er lykilatriði að hanna hagkvæma ferla til að rækta mikið af skordýrum á hráefnisstraumum sem ella færu í súginn. Það skiptir því máli hvað skordýrin éta. Meiri nýsköpun og rannsóknir þarf á þessu sviði svo þannig geti orðið.

Að lokum ber að nefna að ræktun og sala skordýra til manneldis er ekki leyfð hér á landi eins og mál standa. Þeim fyrirtækjum sem hafa reynt fyrir sér í ræktun eða sölu á skordýraafurðum hefur gengið treglega að fá skýr svör frá yfirvöldum um hvað nákvæmlega má gera og hvort eða hvenær reglugerðir verða innleiddar sem leyfa notkun skordýra í matvæli eða fóður fyrir dýr. Það er hins vegar ekkert sem bannar að halda skordýr heima hjá sér. Í því felast ýmis tækifæri; hægt er að ala skordýrin á lífrænum úrgangi sem til fellur á heimilinu og fá í staðinn hollt hráefni sem hentar vel beint á pönnuna eða malað niður í til dæmis bakstur. Til eru margskonar tæki og tól sem auðvelda slíkt dýrahald, eins og til dæmis „The Hive“ sem lesa má um á vef LIVIN farms.

Heimildir og myndir:

...