Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum miðvikudaginn 18. júlí er liður í því að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Hinn 1. desember 2018 verða hundrað ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki.
Hefð er fyrir því að Alþingi minnist merkra tímamóta í sögu landsins með því að funda á Þingvöllum. Fimm sinnum áður hefur þingið haldið hátíðarfund á þessum „helgasta stað þjóðarinnar“ frá því að endurreist Alþingi kom saman í fyrsta sinn í Reykjavík árið 1845. Í fyrsta sinn var það gert á Alþingishátíðinni 1930 sem haldin var til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá því að þing var stofnað á Þingvöllum. Annað skiptið var á lýðveldishátíðinni 1944, þriðja árið 1974 í tilefni af ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar, fjórða árið 1994 þegar hálf öld var liðin frá lýðveldisstofnun og það fimmta á kristnihátíðinni aldamótaárið 2000 en þá voru þúsund ár liðin frá því að kristni var lögtekin í landinu.
Hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum þann 18. júlí 2018 er liður í því að minnast 100 ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.
En af hverju 18. júlí?
Í lok júnímánaðar 1918 komu til Reykjavíkur fjórir Danir til að semja við Íslendinga um nýtt fyrirkomulag á sambandi Íslands og Danmerkur. Þeir voru fulltrúar Danmerkur í sambandslaganefndinni sem svo hefur alltaf verið kölluð. Nokkru áður hafði Alþingi kosið fjóra þingmenn til að sitja í nefndinni af Íslands hálfu.
Danirnir voru engir aukvisar. Þekktastur var Jens Christian Christensen, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Vinstriflokksins (Venstre), stærsta flokksins á danska þinginu í þá daga, og einn mikilhæfasti stjórnmálaleiðtogi Danmerkur á 20. öld. Aðrir voru Frederik J. Borgbjerg, þingmaður jafnaðarmanna og ritstjóri helsta dagblaðs dönsku verkalýðshreyfingarinnar, Social-Demokraten, Christopher Hage viðskiptaráðherra og Erik Arup, nafnkunnur sagnfræðingur og prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.
Fulltrúar Íslands í sambandslaganefndinni voru alþingismennirnir Bjarni Jónsson frá Vogi, dósent í latínu og grísku við Háskóla Íslands og einn skeleggasti sjálfstæðissinni þjóðarinnar, Einar Arnórsson, lögfræðiprófessor og fyrrverandi ráðherra Íslands, Jóhannes Jóhannesson, bæjarfógeti í Reykjavík (áður á Seyðisfirði) og Þorsteinn M. Jónsson, kennari og skólastjóri við barnaskólann á Borgarfirði eystra.
Fulltrúar Íslands í sambandslaganefndinni; Bjarni Jónsson frá Vogi, Einar Arnórsson, Jóhannes Jóhannesson og Þorsteinn M. Jónsson.
Fyrsti formlegi fundur sambandslaganefndarinnar var haldinn í Alþingishúsinu við Austurvöll mánudaginn 1. júlí. Í fyrstu gekk hvorki né rak og um tíma óttuðust menn að viðræðurnar færu út um þúfur. En þriðjudaginn 9. júlí var ákveðið að setja á fót fjögurra manna undirnefnd og reyna til þrautar að samræma sjónarmið nefndarmanna. Þá fór loks að rofa til. Í undirnefndinni sátu Hage, Arup, Bjarni frá Vogi og Einar Arnórsson.
Viku síðar var orðið ljóst að nást myndi samkomulag um sambandslagafrumvarp. Klukkan tvö síðdegis fimmtudaginn 18. júlí kom sambandslaganefndin saman í ellefta og síðasta sinn í Alþingishúsinu til að undirrita frumvarpið. Á lokuðum fundi kvöldið áður hafði Alþingi lagt blessun sína yfir samkomulagið en tveir þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, Benedikt Sveinsson og Magnús Torfason. Auk fulltrúanna átta í sambandslaganefndinni undirrituðu frumvarpið allir þrír ráðherrar ríkisstjórnar Íslands, Jón Magnússon forsætisráðherra, Sigurður Eggerz fjármálaráðherra og Sigurður Jónsson frá Ystafelli atvinnumálaráðherra. Þessum síðasta fundi sambandslaganefndarinnar var slitið þegar klukkan átti eftir tíu mínútur í þrjú.
Fullveldi Íslands fagnað við Stjórnarráðið 1. desember 1918.
Þetta er ástæða þess að alþingismenn koma saman til hátíðarfundar á Þingvöllum 18. júlí 2018 – þá verða hundrað ár liðin frá því að sambandslagafrumvarpið var undirritað í Alþingishúsinu við Austurvöll.
Í viðræðunum höfðu Danirnir fallist á nær allar kröfur Íslendinga. Mest var um vert að þeir reyndust reiðubúnir að viðurkenna Ísland sem fullvalda ríki. Frumvarpið var síðan afgreitt sem lög frá Alþingi á aukaþingi (sambandslagaþinginu) í september. Í þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi þann 19. október voru sambandslögin samþykkt með 92,6% greiddra atkvæða. En þátttaka var lítil, einungis 43,8%. Í nóvemberlok voru lögin samþykkt á danska þinginu og loks staðfest af Kristjáni tíunda konungi. Og sunnudaginn 1. desember 1918, klukkan tólf á hádegi, var íslenski ríkisfáninn dreginn að hún í fyrsta sinn á stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu í Reykjavík – Ísland var frjálst og fullvalda ríki.
Heimildir og myndir:
Einar Arnórsson, „Alþingi árið 1918“, Skírnir 104 (1930), 323–364.
Gísli Jónsson, 1918. Fullveldi Íslands 50 ára 1. desember 1918, Reykjavík 1968.
Gunnar Þór Bjarnason. „Af hverju heldur Alþingi hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí í sumar?“ Vísindavefurinn, 18. júlí 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76110.
Gunnar Þór Bjarnason. (2018, 18. júlí). Af hverju heldur Alþingi hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí í sumar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76110
Gunnar Þór Bjarnason. „Af hverju heldur Alþingi hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí í sumar?“ Vísindavefurinn. 18. júl. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76110>.