- Alþingi fer með löggjafarvaldið, ásamt forseta Íslands (2. grein).
- Alþingi fer með fjárstjórnarvald (40. og 41. grein).
- Alþingi ræður skipun ríkisstjórnarinnar (1. grein).
- Alþingi veitir framkvæmdarvaldinu aðhald (39., 43. og 54. grein).
Fjárstjórnarvald Alþingis leiðir af því að samkvæmt stjórnarskrá er stjórnvöldum óheimilt að innheimta skatta, taka lán eða selja eignir ríkisins án þess að fyrir því séu heimildir í lögum. Þá er ríkinu jafnframt óheimilt að greiða gjald af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum en Alþingi er skylt að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir hvert nýtt fjárhagsár. Um þetta má lesa nánar í svari við spurningunni Hvað eru fjárlög? Af svokallaðri þingræðisreglu leiðir að eitt af hlutverkum Alþingis er að ráða skipun ríkisstjórnarinnar, sem sækir umboð sitt til Alþingis. Þetta þýðir að ríkisstjórn landsins getur aðeins setið svo lengi sem meirihluti þingmanna styður, eða að minnsta kosti þolir, ráðherra í embætti en Alþingi getur jafnframt samþykkt vantraust á ríkisstjórnina í heild eða einstaka ráðherra. Hlutverk Alþingis er enn fremur að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, bæði ríkisstjórninni og allri stjórnsýslunni. Fyrirspurnir til ráðherra þjóna þessum tilgangi en þær geta verið bæði undirbúnar, hvort sem farið er fram á skriflegt eða munnlegt svar, eða óundirbúnar. Óundirbúinn fyrirspurnatími er reglulega á dagskrá þingfunda. Ráðherrar gefa þinginu einnig skýrslur um opinber málefni, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingsins. Alþingismenn geta jafnframt kvatt sér hljóðs um störf þingsins og farið fram á sérstakar umræður utan dagskrár en þá eru rædd mál sem þykja svo brýn að umræðan má ekki bíða. Á vegum Alþingis starfa tvær stofnanir sem eiga veigamikinn þátt í eftirliti þingsins með framkvæmdarvaldinu. Annars vegar er það Ríkisendurskoðun sem annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila sem kostaðir eru af eða reknir á ábyrgð ríkissjóðs. Stofnunin getur einnig gert stjórnsýsluúttektir og hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Hins vegar er það embætti Umboðsmanns Alþingis sem hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og á að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir umkvörtun eða að eigin frumkvæði. Nánar má lesa um embættið í svari við spurningunni Hvernig hljóðar starfslýsing umboðsmanns Alþingis? Að auki getur Alþingi komið á fót rannsóknarnefndum til að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í tilteknum málum. Sem dæmi má nefna rannsóknarnefndina sem skipuð var til að kanna aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008. Heimildir og mynd:
- Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. (Skoðað 7.10.2014).
- Alþingi - Um hlutverk Alþingis. (Skoðað 8.10.2014).
- Mynd: Alþingi - Wikimedia Commons. (Sótt 19.9.2014).