Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi.Í lögunum er einnig fjallað um starfssvið umboðsmanns Alþingis (3. gr.), hvernig mál geta komið til kasta embættisins (annars vegar með kvörtun, sbr. 4. og 6. gr., og hins vegar að frumkvæði embættisins sjálfs, sbr. 5. gr.), hvaða heimildir umboðsmaður hefur til rannsóknar máls (7. gr.) og hvernig málum getur lokið eftir að þau koma til kasta umboðsmanns (10., 11. og 2. mgr. 12. gr.)
Álit umboðsmanns og frekari upplýsingar um embættið er að finna á heimasíðu embættisins Umboðsmaður Alþingis.