Byggir þingræðisreglan um að ráðherra þurfi stuðning meirihluta Alþingis til þess að starfa sem ráðherra á einhverjum lögum?Þingræðisreglan svokallaða felur í sér að meirihluti Alþingis þurfi að styðja eða að minnsta kosti sætta sig við ráðherra í embætti. Reglan er stjórnskipunarvenja sem hefur stoð í 1. gr. stjórnarskrárinnar, en í þeirri grein segir:
Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.Þó að reglan komi ekki orðrétt fram í ákvæðinu hefur hún lengi verið talin ótvíræð og ítrekað staðfest í framkvæmd. Í desember 2005 vann sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar skýrslu um þróun hennar að beiðni nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Í skýrslunni segir:
Hugmyndir hafa komið fram um að nefna þingræðisregluna skýrum orðum í stjórnarskránni, m.a. í stjórnarskrárfrumvarpi Gunnars Thoroddsens 1983 en í núverandi stjórnarskrá leikur vafi á því hvort orðalagið "þingbundin stjórn" feli þingræðisregluna í sér. [?] Ólafur Jóhannesson bendir réttilega á að orðalagið "þingbundin" lögfesti ekki þingræðisregluna á Íslandi. Þá vaknar engu að síður sú spurning hvaða stjórnskipunarreglu höfundar stjórnarskrárinnar hafi ætlað sér að innleiða með þessu ákvæði. Hvergi í umræðum á Alþingi er að finna viðhlítandi skýringu á þessu orðalagi að öðru leyti en því að í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að þessi grein geri "enga efnisbreytingu á þeirri skipan, sem nú er, svo langt sem hún nær." (Alþ. tíð. A, 1919: 104.)Að lokum má geta þess að forsætisnefnd Alþingis ákvað á síðari hluta ársins 2005 að láta rita sögu þingræðis á Íslandi í tilefni af aldarafmæli þess. Þingræðisreglan varð virk í íslenskri stjórnskipun þegar Hannes Hafstein alþingismaður var skipaður í embætti ráðherra Íslands 1904. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hvað gerist ef Alþingi setur lög sem stangast á við Stjórnarskrána? eftir Sigurð Guðmundsson.
- Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum? eftir Árna Helgason.
- Björg Thorarensen o.fl., Um lög og rétt, Codex Rvk. 2006, bls. 30.
- Alþ. tíð. A, 1919: 104.