Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Geir Gunnlaugsson er prófessor í hnattrænni heilsu við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Rannsóknaráherslur hans falla undir fræðasvið barnalækninga, lýðheilsu og hnattrænnar heilsu. Viðfangsefni rannsókna hans eru meðal annars brjóstagjöf, barnadauði, ofbeldi gegn börnum, mislingar, kólera, ebóla og heilbrigðisþjónusta á Íslandi, Gíneu-Bissá og Malaví.
Doktorsritgerð Geirs fjallaði um byrjun brjóstagjafar mæðra í Gíneu-Bissá og áhrif hennar á lifun og heilsu barna. Á Íslandi hefur hann ásamt íslenskum og erlendum samstarfsaðilum rannsakað áhrif þess að mæður hafi börn sín eingöngu á brjósti í sex mánuði í samræmi við alþjóðlegar ráðleggingar borið saman við að byrja með ábót við 3-4 mánaða aldur samhliða brjóstagjöf. Hann er einnig þátttakandi í íslenskri rannsókn um næringu, þroska og vöxt barna hér á landi.
Geir Gunnaugsson er prófessor í hnattrænni heilsu. Myndin er tekin í skólastofu í Bissá, höfuðborg Gíneu-Bissá, sumarið 2017.
Geir hefur rannsakað birtingarmyndir ofbeldis gegn börnum á Íslandi og tekur þátt í rannsókn á þeim sið að senda börn í sveit. Hann hefur í kjölfar bankahrunsins skoðað áhrif efnahagslegrar kreppu á heilsu barna og heilbrigðisþjónustu við þau hér á landi. Nú er nýlokið söfnun gagna í rannsókn á áhrifum birtu á tíðablæðingar íslenskra kvenna sem hann hefur unnið í samstarfi við íslenska og bandaríska fræðimenn.
Geir hefur stundað margvíslegar rannsóknir í Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku. Auk rannsókna um brjóstagjöf hefur hann skoðað samband malaríusýkinga og bóluefnis gegn mislingum, og smitun barna með rótaveiru. Geir hefur rannsakað áhrifaþætti fyrir kólerusmit eins og jarðarfarasiði og dauðsföll vegna þess en nú ýmsa þætti nýliðins ebólufaraldurs í Vestur-Afríku í Gíneu-Bissá og viðbúnað við honum hér á landi og viðhorf almennings til hans. Hann er einnig í samstarfi við bissá-gíneanska fræðimenn að vinna að rannsókn á heilsu og líðan ungmenna í landinu í samvinnu við Rannsóknir og greiningu við Háskólann í Reykjavík.
Geir hefur í rúma þrjá áratugi unnið að verkefnum í Afríku sunnan Sahara og þá sérstaklega í Gíneu-Bissá og Malaví. Hann hefur búið og starfað sem læknir í Gíneu-Bissá um átta ára skeið og er kjörræðismaður landsins á Íslandi. Hann var ráðgjafi í rúman áratug fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands vegna heilbrigðisverkefnis hennar í Apaflóa við Malavívatnið í suðurhluta Malaví. Geir situr nú sem annar tveggja fulltrúa háskólasamfélagsins í nefnd utanríkisráðuneytisins um þróunarsamvinnu.
Geir er fæddur árið 1951. Hann lauk læknanámi við Háskóla Íslands árið 1978 og stundaði framhaldsnám í barnalækningum við Karolinska Institutet í Stokkhólmi þar sem hann lauk doktorsprófi 1993 og meistaranámi í lýðheilsuvísindum 1997. Hann var forstöðumaður Miðstöðvar heilsuverndar barna í Reykjavík 2000-2009 og prófessor við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík 2007-2010. Hann var landlæknir 2010-2014 en er nú prófessor og vinnur við að byggja upp nám í hnattrænni heilsu við Háskóla Íslands.
Mynd
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Geir Gunnlaugsson rannsakað?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2018, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75927.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 22. júní). Hvað hefur vísindamaðurinn Geir Gunnlaugsson rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75927
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Geir Gunnlaugsson rannsakað?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2018. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75927>.