Gjóskan sem myndast við eldgos er mismunandi að kornastærð. Súr og ísúr kvika tvístrast nær alltaf í gjósku við eldgos á meðan basísk kvika myndar sjaldan mikla gjósku. Ef vatn kemst að gosrásinni, eins og við gos undir jökli eða í vatni, myndast alltaf gjóska hvort sem kvikan er súr eða basísk. Þegar fer saman til dæmis ísúr kvika og samspil við vatn getur myndast fíngerð gjóska því tvístrunin er svo mikil. Kvikan er meira en 800°C heit og jökulbráðin er nálægt 0°C, eða bræðslumarki vatns. Stærstu gjóskukornin falla úr mekkinum næst eldstöðinni en þau fíngerðustu geta til dæmis borist frá Íslandi yfir Atlantshafið og allt til Evrópu.
Í Eyjafjallagosinu 2010 voru ísúru gjóskukornin óvenju lítil. Í gjóskusýni, sem var safnað á Mýrdalssandi um 60 km austan við gosrásina í Eyjafjallajökli, var um 70% kornanna minni en 60 míkrómetrar í þvermál sem svarar um það bil til einnar hársbreiddar. Svo fíngerð gjóska getur verið fleiri daga á lofti við rétt veðurskilyrði og truflað flugumferð. Um 20% gjóskukornanna var minni en 10 míkrómetrar í þvermál.[1] Svo lítil korn, sem eru hnífskörp, geta valdið alvarlegum öndunarfærasjúkdómum.Rannsóknir hafa sýnt að gjóskan sem myndast við sundrun kviku í jöklum, er með minna af sýru- og málmsöltum á yfirborði sínum en gjóska sem myndast við sundrun kviku í andrúmslofti.[2] Dæmi um gos í jöklum er til dæmis Gjálpargosið 1996; fyrstu dagar Eyjafjallajökulsgossins 2010 og Grímsvatnagosið 2011 en dæmi um sundrun í andrúmslofti er til dæmis Heklugosin 1970, 1991 og 2000.[3]
Tilvísanir:- ^ Gislason S. R., T. Hassenkam, S. Nedel, N. Bovet, E. S. Eiriksdottir, H. A. Alfredsson, C. P. Hem, Z. I. Balogh, K. Dideriksen, N. Oskarsson, B. Sigfusson, G. Larsen, and S. L. S. Stipp (2011). Characterization of Eyjafjallajökull volcanic ash particles and a protocol for rapid risk assessment. PNAS 108, 7307-7312. Gislason S.R., H.A. Alfredsson, E.S. Eiriksdottir, T. Hassenkam, S.L.S. Stipp (2011). Volcanic ash from the 2010 Eyjafjallajökull eruption. Applied Geochemistry 26, S188-S190.
- ^ Frogner P., Gislason S.R. and Oskarsson N. (2001). Fertilizing potential of volcanic ash in ocean surface water. Geology 29, 487-490. Gíslason S. R., Snorrason Á., Kristmannsdóttir H. K., Sveinbjörnsdóttir Á. E., Torsander P., Ólafsson J., Castet S. and Durpé B., (2002). Effects of volcanic eruptions on the CO2 content of the atmosphere and the oceans: the 1996 eruption and flood within the Vatnajökull Glacier, Iceland. Chemical Geology 190, 181-205. Jones M.T. and Gislason S.R. (2008). Rapid releases of metal salts and nutrients following the deposition of volcanic ash into aqueous environments. Geochimica et Cosmochimica Acta, 72 (15), 3661-3680. Gislason S. R., T. Hassenkam, S. Nedel, N. Bovet, E. S. Eiriksdottir, H. A. Alfredsson, C. P. Hem, Z. I. Balogh, K. Dideriksen, N. Oskarsson, B. Sigfusson, G. Larsen, and S. L. S. Stipp (2011). Characterization of Eyjafjallajökull volcanic ash particles and a protocol for rapid risk assessment. PNAS 108, 7307-7312. Olsson J., S.L.S. Stipp, K.N. Dalby, S.R. Gislason (2013). Rapid release of metal salts and nutrients from the 2011 Grimsvötn, Iceland volcanic ash. Geochimica et Cosmochimica Acta 123, 134–149.
- ^ Óskarsson N. (1980) The interaction between volcanic gases and tephra: fluorine adhering to tephra of the 1970 Hekla eruption. J. Volcanol. Geotherm. Res. 8, 251–266. Frogner P., Gislason S.R. and Oskarsson N. (2001). Fertilizing potential of volcanic ash in ocean surface water. Geology 29, 487-490. Flaathen T.K. and Gislason S.R. (2007). The effect of volcanic eruptions on the chemistry of surface waters: The 1991 and 2000 eruptions of Mt. Hekla, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 164, 293-316.
- © Ómar Óskarsson. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi Ómars.