Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getur þú sagt mér um Felix Mendelssohn?

Árni Heimir Ingólfsson

Felix Mendelssohn (1809-47) var eitt mesta undrabarn tónlistarsögunnar. Hann samdi ótrúlegt magn tónverka á unga aldri, sextán ára hafði hann til dæmis samið fjórtán sinfóníur fyrir strengi og eina fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit. Mendelssohn var af einni auðugustu gyðingaætt Berlínar. Moses afi hans var meðal virtustu heimspekinga upplýsingaaldarinnar, langafinn í hina ættina var féhirðir Friðriks mikla og átti feikileg auðæfi sem fjölskyldan naut góðs af. Upp úr aldamótunum 1800 fengu gyðingar smám saman meira svigrúm í samfélaginu en þó lét faðir Mendelssohns skíra börn sín á barnsaldri til að þau gætu notið fullra borgaralegra réttinda. Rétt eins og Mozart hlaut Felix Mendelssohn besta tónlistaruppeldi sem völ var á og ekkert var til sparað. Á tólf ára afmælisdegi piltsins voru spilarar úr hirðhljómsveitinni í Berlín fengnir til að flytja nýja óperu hans í íburðarmiklum heimkynnum fjölskyldunnar.

Felix Mendelssohn tólf ára gamall (1821). Á tólf ára afmælisdegi Mendelssohns fluttu spilarar úr hirðhljómsveit Berlínar nýja óperu eftir hann. Mynd eftir Carl Begas (1794-1854).

Tvö æskuverk Mendelssohns þykja enn meðal merkustu tónsmíða hans. Strengjaoktett (1825) samdi hann sextán ára gamall og ári síðar hljómsveitarforleik að Draumi á Jónsmessunótt (1826), innblásinn af leikriti Shakespeares. Forleikurinn sýnir óvenjulegt ímyndunarafl og fullt vald á litbrigðum hljómsveitarinnar. Hann hefst á því að blásarar leika fjóra dulúðuga hljóma sem opna ævintýraheim þar sem allt getur gerst í næturhúmi skógarins. Hraðfleygir strengjatónar minna á flöktandi vængi álfa og skógardísa, ljóðrænt stef dregur upp mynd af þeim ástföngnu unglingum sem leikritið fjallar um. Mendelssohn tekst jafnvel að lýsa því í tónum þegar vefarinn Spóli fær á sig asnahöfuð – glannalegt stökk niður á við í fiðlum minnir á asna sem rymur. Annars sverja léttstígir tónar forleiksins sig í ætt við dansandi ljósálfa og sama gildir um fleiri tónverk Mendelssohns í sama stíl, til dæmis í Rondo capriccioso fyrir píanó, og lokaþátt fiðlukonsertsins í e-moll (1844).

Fyrstu sinfóníu sína fyrir fullskipaða hljómsveit samdi Mendelssohn fimmtán ára gamall en fjórar bættust við á fullorðinsárum hans. Þær komu allar út á prenti en þó ekki í þeirri röð sem þær urðu til. Tvær sinfóníur voru innblásnar af ferðalögum hans á framandi slóðir, „ítalska“ sinfónían nr. 4 (1833) og „skoska“ sinfónían nr. 3 (1842). Tvær sinfóníur Mendelssohns hafa trúarlegt ívaf þótt með ólíkum hætti sé. „Siðbótarsinfónían“ nr. 5 (1832) var samin í tilefni þess að 300 ár voru liðin frá því að Ágsborgarjátningin, trúarjátning lúthersku kirkjunnar, hlaut samþykki; í lokaþættinum hljómar lútherska sálmalagið Ein‘ feste Burg ist unser Gott (Vor Guð er borg á bjargi traust). Sinfónía nr. 2, Lobgesang (Lofsöngur, 1840), er eitt af mörgum tónverkum 19. aldar sem hafa Níundu sinfóníu Beethovens að fyrirmynd. Fyrstu þrír þættirnir eru fyrir hljómsveit eingöngu en lokakaflinn er risastór – lengri en allir hinir til samans – og fyrir einsöngvara og kór.

Felix Mendelssohn, mynd frá 1847 eftir Wilhelm Hensel (1794-1861). Hensel var kvæntur Fanny, systur Mendelssohn.

Viðamestu verk Mendelssohns eru tvær óratoríur fyrir einsöngvara, kór og hljómsveit. Paulus (Páll postuli) var samin á árunum 1832-36 og frumflutt á tónlistarhátíð í Düsseldorf af miklum mannfjölda, 350 manna kór og nærri 200 manna hljómsveit. Verkið fjallar um trúskipti Sáls frá Tarsus, sem eftir ofsóknir gegn kristnum mönnum fékk vitrun að ofan og tók kristna trú. Slíkt yrkisefni hlaut að standa Mendelssohn nærri enda var hann í raun í sömu sporum, hafði sagt skilið við trú forfeðranna og predikaði guðspjallið gegnum tónlist. Kórarnir hafa barokkblæ – ýmist flóknir fjölradda þættir eða einfaldar útsetningar sálmalaga – en í aríunum kveður við tjáningarríkan tón 19. aldar. Paulus var fljótlega þýdd á ensku og naut vinsælda beggja vegna Ermasunds. Önnur óratoría Mendelssohns, Elias (1846), var fyrst flutt á enskri kórahátíð í Birmingham og var það vel við hæfi því að tónlistin er meira í ætt við Händel en Bach, og í verkinu eru engin sálmalög.

Óratoríur Mendelssohns eru dæmi um það hvernig trúarleg tónlist fékk nýtt hlutverk í tónlistarlífi 19. aldar. Ítök kirkjunnar fóru dvínandi en á móti kom að tónleikahallir Evrópu höfðu fengið á sig helgiblæ og orðið eins konar musteri listarinnar. Því færðist í vöxt að tónskáld semdu trúarleg verk sem þó voru ætluð til flutnings í tónleikasal. Óratoríur áttu miklum vinsældum að fagna enda voru slík verk þess megnug að sameina borgarastéttina í listrænni upplifun. Í henni gátu broddborgarar tjáð samhug sinn bæði hvað snerti trú og þjóðerni, hvort sem þeir stóðu sem áhugasöngvarar á kórpöllum eða sátu þöglir úti í sal. Þetta átti einnig við um viðamikil kórverk af öðrum toga, til dæmis Þýska sálumessu eftir Johannes Brahms sem er ekki heldur kirkjutónsmíð.

Mendelssohn var hæfileikamaður á nær öllum sviðum tónlistarinnar. Hann var framúrskarandi hljómsveitarstjóri og stýrði Gewandhaus-hljómsveitinni í Leipzig um tólf ára skeið. Þá stofnaði hann árið 1843 tónlistarháskólann í Leipzig sem brátt var talinn einn sá fremsti í Evrópu. Aftur á móti var Mendelssohn lítill byltingarmaður. Verk hans bera að sumu leyti klassískt yfirbragð og hann hafði ekki sömu þörf og þeir Schumann og Chopin til að tjá sterkar persónulegar tilfinningar í tónlistinni. Af heimildum verður ekki annað séð en að hann hafi lifað í góðri sátt við sjálfan sig, hann þjáðist hvorki af geðsveiflum ná ástarsorg, lést hvorki úr tæringu né sárasótt. Af öllum tónskáldum „rómantísku kynslóðarinnar“ á nafngiftin rómantíker síst við Mendelssohn.

Vinnuherbergi Mendelssohns í Leipzig.

Orðspor Mendelssohns fór ört dvínandi að honum látnum en það hafði lítið með tónlistina sjálfa að gera. Haustið 1850 birtist í tónlistartímariti pistill sem litaði viðhorf fjölmargra Þjóðverja til tónsmíða hans um langt skeið. Greinin Das Judenthum in der Musik (Gyðingdómurinn í tónlist) var birt undir dulnefninu „K. Freigedank“ eða „Fríhyggja“. Höfundur fullyrti að gyðingar gætu aldrei náð fullkomnu valdi á listinni eins og sannir Þjóðverjar, því að þeir væru rótlausir í eðli sínu og hefðu enga hæfileika til frumsköpunar, gætu aðeins apað það eftir sem aðrir hefðu gert. Hann kveðst harma það að gyðingar hafi náð undirtökum í þýsku tónlistarlífi og gerspillt því, og tiltekur sérstaklega Mendelssohn sem hafi þrátt fyrir allar gáfur sínar aldrei náð að fanga „dýpt, hjarta og sál“ þýsku þjóðarinnar í list sinni. Mendelssohn var látinn þegar hér var komið sögu og gat því ekki brugðist til varnar. Gyðingaóvild litaði viðhorf til hans í auknum mæli allt fram á valdatíma nasista á 20. öld. Mendelssohn var þyrnir í augum þeirra; þeir fjarlægðu styttur sem reistar höfðu verið honum til heiðurs og lögðu blátt bann við því að tónlist hans væri flutt opinberlega.

Það var ekki fyrr en löngu eftir að greinin um gyðingdóminn birtist á prenti að nafn höfundarins varð lýðunum ljóst. Hann var Richard Wagner, eitt dáðasta tónskáld álfunnar á seinni hluta 19. aldar. En sagan á til sína kaldhæðni, eins og dæmið af Wagner og Mendelssohn er til marks um. Við kirkjubrúðkaup kristinna manna hefur í meira en öld tíðkast að leika tvo brúðarmarsa, annan þegar brúðurin gengur inn kirkjugólfið og hinn þegar hjónin ganga úr kirkju. Sá fyrri er úr óperunni Lohengrin eftir Wagner, sá síðar úr leikhústónlistinni við Draum á Jónsmessunótt eftir Mendelssohn. Varla hefði slíkt samneyti verið „Herr Freigedank“ að skapi.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

6.8.2019

Síðast uppfært

9.8.2019

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvað getur þú sagt mér um Felix Mendelssohn?“ Vísindavefurinn, 6. ágúst 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74982.

Árni Heimir Ingólfsson. (2019, 6. ágúst). Hvað getur þú sagt mér um Felix Mendelssohn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74982

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvað getur þú sagt mér um Felix Mendelssohn?“ Vísindavefurinn. 6. ágú. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74982>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um Felix Mendelssohn?
Felix Mendelssohn (1809-47) var eitt mesta undrabarn tónlistarsögunnar. Hann samdi ótrúlegt magn tónverka á unga aldri, sextán ára hafði hann til dæmis samið fjórtán sinfóníur fyrir strengi og eina fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit. Mendelssohn var af einni auðugustu gyðingaætt Berlínar. Moses afi hans var meðal virtustu heimspekinga upplýsingaaldarinnar, langafinn í hina ættina var féhirðir Friðriks mikla og átti feikileg auðæfi sem fjölskyldan naut góðs af. Upp úr aldamótunum 1800 fengu gyðingar smám saman meira svigrúm í samfélaginu en þó lét faðir Mendelssohns skíra börn sín á barnsaldri til að þau gætu notið fullra borgaralegra réttinda. Rétt eins og Mozart hlaut Felix Mendelssohn besta tónlistaruppeldi sem völ var á og ekkert var til sparað. Á tólf ára afmælisdegi piltsins voru spilarar úr hirðhljómsveitinni í Berlín fengnir til að flytja nýja óperu hans í íburðarmiklum heimkynnum fjölskyldunnar.

Felix Mendelssohn tólf ára gamall (1821). Á tólf ára afmælisdegi Mendelssohns fluttu spilarar úr hirðhljómsveit Berlínar nýja óperu eftir hann. Mynd eftir Carl Begas (1794-1854).

Tvö æskuverk Mendelssohns þykja enn meðal merkustu tónsmíða hans. Strengjaoktett (1825) samdi hann sextán ára gamall og ári síðar hljómsveitarforleik að Draumi á Jónsmessunótt (1826), innblásinn af leikriti Shakespeares. Forleikurinn sýnir óvenjulegt ímyndunarafl og fullt vald á litbrigðum hljómsveitarinnar. Hann hefst á því að blásarar leika fjóra dulúðuga hljóma sem opna ævintýraheim þar sem allt getur gerst í næturhúmi skógarins. Hraðfleygir strengjatónar minna á flöktandi vængi álfa og skógardísa, ljóðrænt stef dregur upp mynd af þeim ástföngnu unglingum sem leikritið fjallar um. Mendelssohn tekst jafnvel að lýsa því í tónum þegar vefarinn Spóli fær á sig asnahöfuð – glannalegt stökk niður á við í fiðlum minnir á asna sem rymur. Annars sverja léttstígir tónar forleiksins sig í ætt við dansandi ljósálfa og sama gildir um fleiri tónverk Mendelssohns í sama stíl, til dæmis í Rondo capriccioso fyrir píanó, og lokaþátt fiðlukonsertsins í e-moll (1844).

Fyrstu sinfóníu sína fyrir fullskipaða hljómsveit samdi Mendelssohn fimmtán ára gamall en fjórar bættust við á fullorðinsárum hans. Þær komu allar út á prenti en þó ekki í þeirri röð sem þær urðu til. Tvær sinfóníur voru innblásnar af ferðalögum hans á framandi slóðir, „ítalska“ sinfónían nr. 4 (1833) og „skoska“ sinfónían nr. 3 (1842). Tvær sinfóníur Mendelssohns hafa trúarlegt ívaf þótt með ólíkum hætti sé. „Siðbótarsinfónían“ nr. 5 (1832) var samin í tilefni þess að 300 ár voru liðin frá því að Ágsborgarjátningin, trúarjátning lúthersku kirkjunnar, hlaut samþykki; í lokaþættinum hljómar lútherska sálmalagið Ein‘ feste Burg ist unser Gott (Vor Guð er borg á bjargi traust). Sinfónía nr. 2, Lobgesang (Lofsöngur, 1840), er eitt af mörgum tónverkum 19. aldar sem hafa Níundu sinfóníu Beethovens að fyrirmynd. Fyrstu þrír þættirnir eru fyrir hljómsveit eingöngu en lokakaflinn er risastór – lengri en allir hinir til samans – og fyrir einsöngvara og kór.

Felix Mendelssohn, mynd frá 1847 eftir Wilhelm Hensel (1794-1861). Hensel var kvæntur Fanny, systur Mendelssohn.

Viðamestu verk Mendelssohns eru tvær óratoríur fyrir einsöngvara, kór og hljómsveit. Paulus (Páll postuli) var samin á árunum 1832-36 og frumflutt á tónlistarhátíð í Düsseldorf af miklum mannfjölda, 350 manna kór og nærri 200 manna hljómsveit. Verkið fjallar um trúskipti Sáls frá Tarsus, sem eftir ofsóknir gegn kristnum mönnum fékk vitrun að ofan og tók kristna trú. Slíkt yrkisefni hlaut að standa Mendelssohn nærri enda var hann í raun í sömu sporum, hafði sagt skilið við trú forfeðranna og predikaði guðspjallið gegnum tónlist. Kórarnir hafa barokkblæ – ýmist flóknir fjölradda þættir eða einfaldar útsetningar sálmalaga – en í aríunum kveður við tjáningarríkan tón 19. aldar. Paulus var fljótlega þýdd á ensku og naut vinsælda beggja vegna Ermasunds. Önnur óratoría Mendelssohns, Elias (1846), var fyrst flutt á enskri kórahátíð í Birmingham og var það vel við hæfi því að tónlistin er meira í ætt við Händel en Bach, og í verkinu eru engin sálmalög.

Óratoríur Mendelssohns eru dæmi um það hvernig trúarleg tónlist fékk nýtt hlutverk í tónlistarlífi 19. aldar. Ítök kirkjunnar fóru dvínandi en á móti kom að tónleikahallir Evrópu höfðu fengið á sig helgiblæ og orðið eins konar musteri listarinnar. Því færðist í vöxt að tónskáld semdu trúarleg verk sem þó voru ætluð til flutnings í tónleikasal. Óratoríur áttu miklum vinsældum að fagna enda voru slík verk þess megnug að sameina borgarastéttina í listrænni upplifun. Í henni gátu broddborgarar tjáð samhug sinn bæði hvað snerti trú og þjóðerni, hvort sem þeir stóðu sem áhugasöngvarar á kórpöllum eða sátu þöglir úti í sal. Þetta átti einnig við um viðamikil kórverk af öðrum toga, til dæmis Þýska sálumessu eftir Johannes Brahms sem er ekki heldur kirkjutónsmíð.

Mendelssohn var hæfileikamaður á nær öllum sviðum tónlistarinnar. Hann var framúrskarandi hljómsveitarstjóri og stýrði Gewandhaus-hljómsveitinni í Leipzig um tólf ára skeið. Þá stofnaði hann árið 1843 tónlistarháskólann í Leipzig sem brátt var talinn einn sá fremsti í Evrópu. Aftur á móti var Mendelssohn lítill byltingarmaður. Verk hans bera að sumu leyti klassískt yfirbragð og hann hafði ekki sömu þörf og þeir Schumann og Chopin til að tjá sterkar persónulegar tilfinningar í tónlistinni. Af heimildum verður ekki annað séð en að hann hafi lifað í góðri sátt við sjálfan sig, hann þjáðist hvorki af geðsveiflum ná ástarsorg, lést hvorki úr tæringu né sárasótt. Af öllum tónskáldum „rómantísku kynslóðarinnar“ á nafngiftin rómantíker síst við Mendelssohn.

Vinnuherbergi Mendelssohns í Leipzig.

Orðspor Mendelssohns fór ört dvínandi að honum látnum en það hafði lítið með tónlistina sjálfa að gera. Haustið 1850 birtist í tónlistartímariti pistill sem litaði viðhorf fjölmargra Þjóðverja til tónsmíða hans um langt skeið. Greinin Das Judenthum in der Musik (Gyðingdómurinn í tónlist) var birt undir dulnefninu „K. Freigedank“ eða „Fríhyggja“. Höfundur fullyrti að gyðingar gætu aldrei náð fullkomnu valdi á listinni eins og sannir Þjóðverjar, því að þeir væru rótlausir í eðli sínu og hefðu enga hæfileika til frumsköpunar, gætu aðeins apað það eftir sem aðrir hefðu gert. Hann kveðst harma það að gyðingar hafi náð undirtökum í þýsku tónlistarlífi og gerspillt því, og tiltekur sérstaklega Mendelssohn sem hafi þrátt fyrir allar gáfur sínar aldrei náð að fanga „dýpt, hjarta og sál“ þýsku þjóðarinnar í list sinni. Mendelssohn var látinn þegar hér var komið sögu og gat því ekki brugðist til varnar. Gyðingaóvild litaði viðhorf til hans í auknum mæli allt fram á valdatíma nasista á 20. öld. Mendelssohn var þyrnir í augum þeirra; þeir fjarlægðu styttur sem reistar höfðu verið honum til heiðurs og lögðu blátt bann við því að tónlist hans væri flutt opinberlega.

Það var ekki fyrr en löngu eftir að greinin um gyðingdóminn birtist á prenti að nafn höfundarins varð lýðunum ljóst. Hann var Richard Wagner, eitt dáðasta tónskáld álfunnar á seinni hluta 19. aldar. En sagan á til sína kaldhæðni, eins og dæmið af Wagner og Mendelssohn er til marks um. Við kirkjubrúðkaup kristinna manna hefur í meira en öld tíðkast að leika tvo brúðarmarsa, annan þegar brúðurin gengur inn kirkjugólfið og hinn þegar hjónin ganga úr kirkju. Sá fyrri er úr óperunni Lohengrin eftir Wagner, sá síðar úr leikhústónlistinni við Draum á Jónsmessunótt eftir Mendelssohn. Varla hefði slíkt samneyti verið „Herr Freigedank“ að skapi.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

...