Á íslensku er stundum talað um sauðfé í stað fjár eða kinda en einnig er til sauðnaut. Spurningin mín er því: Hvað merkir forskeytið "sauð" og enn fremur hver er upprunaleg merking orðsins "sauður".Orðin fé, sauður og sauðfé eru öll gömul í málinu en kind hafði til forna aðra merkingu, það er ‘ætt, kyn’. Ásgeir Blöndal Magnússon telur í Íslenskri orðsifjabók (1989:461) að kind í nútímamerkingu sé stytting úr sauðkind, það er ‘sauðarkyn’. Orðið sauður ‘sauðkind, geltur hrútur, ásauður’ er samgermanskt þótt merkingin sé ekki alls staðar hin sama. Ef aftur er litið í Íslenska orðsifjabók (1989:799) má lesa að í færeysku er til orðið seyður, í nýnorsku saud, í sænskum mállýskum sau (kvk.), sö og såd (kk.) öll í sömu merkingu og í íslensku. Í gotnesku (austur-germönsku máli) merkir sauþs ‘fórn’ og er giskað á að átt sé við soðið kindakjöt. Í fornensku var til orðið séað ‘brunnur’, í miðlágþýsku sôt ‘uppspretta, brunnur’. Bæði þessi síðastnefndu tungumál teljast til vestur-germanskra mála. Ásgeir getur þess að germanski stofninn *sauþi- (* merkir að myndin er endurgerð, kemur hvergi fyrir sem slík) merki ‘dýr til soðningar’ en af honum eru hinar myndirnar dregnar. Sauð- í til dæmis sauðkind er ekki forliður heldur fyrri liður stofnsamsetningar (þf.et.). Sama er að segja um sauð- í sauðnaut. Orðið virðist koma fram í upphafi 20. aldar ef flett er í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Í tímaritinu Dýravinurinn er þetta dæmi 1905:
Moskusnaut. [ [...]] Latneska nafnið á dýrinu er ovibos og þýðir sauðnaut.Sama dæmi er hið elsta á Tímarit.is. Bjarni Sæmundsson skrifaði í rit sitt Spendýrin, sem gefið var út 1932:
Sauðnaut er þýðing á latn. heitinu Ovibos, en réttara væri nautsauður, eða heldur moskussauður [ [...]] því að dýrið er fremur sauður en naut.Sauðnaut hefur fest sig í sessi og er hið almenna heiti þótt orðin moskusnaut og moskusuxi sjáist einnig. Heimildi:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Bjarni Sæmundsson. 1932. Spendýrin (Mammalia Islandiæ). Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar, Reykjavík.
- Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
- Timarit.is.