Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrir nokkru svaraði ég fyrirspurn um hvað orðasambandið að böggull fylgi skammrifi merkti. Athugull lesandi hafði samband við Vísindavefinn og benti á að skýring mín á skammrifi væri röng. Ég mun því fara yfir málið aftur, byrja á því að skoða elstu heimildir og rekja síðan merkingarlýsinguna eins og hún birtist í orðabókum og öðrum heimildum.
Orðið skammrif er gamalt í málinu. Í fornmálsorðabók Johans Fritzners frá 1896 er frá flettunni skammrif vísað í orðið skammrifsstykki og er skýringin ‘Stykke Kjød af den Del, som omslutter de korte Ribben (costæ spuriæ)’. Dæmi er tekið úr Flateyjarbók: „þar var eitt fornt skammrifstykki á diski hvárum ok forn ostr til gnættar“ (1896:282).
Í orðabók Eiríks Jónssonar yfir forna málið, sem gefin var út 1863, stendur við skammrif ‘Brysted af et slagtet Kreatur (især Far) tilligemed Bovene; skammrifja-mikill (om Mand) ‘bred over Brysted)’ (1863:475).
Mynd af rifbeinum úr bók sem prentuð var í Marburg 1541. Bókin er útlegging á líffærafræði ítalska læknisins og líkskurðarmannsins Mondino dei Luzzi (d. 1326).
Í orðabók Richard Cleasby’s og Guðbrands Vigfússonar frá 1874, sem kom út í annarri útgáfu 1957 og endurprentuð var 1969, stendur undir flettunni skam-rif ‘n.pl. the short ribs, the lower part of the breasts, the brisket’. Undir flettunni nefnir hann einnig orðið skamrifja-mikill ‘stout, fat’ og vísar í Grettis sögu (1969: 537).
Nú færi ég mig aðeins nær nútímanum. Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal samdi íslenska orðabók með latneskum skýringum í lok 18. aldar. Bókin kom ekki út fyrr en eftir dauða hans og þá með viðbættum dönskum skýringum eftir danska málfræðinginn Rasmus Kristian Rask 1814. Skýringin við flettuna skammrif er ‘n.pl. costæ spuriæ, de uægte Ribben; vulgo [í máli almennings, viðbót GKv] sternum cum radiis, Brystet af et Kreatur, tilligemed Bovene’ (1814:II 255).
Mynd af rifbeinum og innri líffærum í bók frá síðari hluta 19. aldar.
Í orðabók Jóns Þorkelssonar frá lokum 19. aldar stendur við flettuna skammrif ‘Hals, Bryst, Bove og de kortere Ribben af et slagtet Kreatur’ (1894–97:596–597) og er vísað i bókina Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen.
Næsta orðabókin í röðinni er Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar Blöndals. Þar segir um skammrif: ‘1. et af de korte Ribben i en Faareside. 2. pl. Hals, Bryst, Bove og de kortere Ribben af et slagtet Kreatur’ (1920–1924: 712).
Loks er ég komin að Íslenskri orðabók handa skólum og almenningi frá 1963 sem lengstum var kennd við Menningarsjóð eða ritstjórann Árna Böðvarsson. Þar er skýringin við skammrif ‘1. stutt rifbein í kind; 2. framhluti kindarskrokks’. Í annarri útgáfu 1983 er skýringunni lítillega breytt: ‘stutt rifbein í kind (e-t af fjórum fremstu rifjunum); 2. framhluti kindarskrokks’ (1983:848). Í þriðju útgáfu 2002 í ritstjórn Marðar Árnasonar var skýringunni ekkert breytt.
Ef flett er í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans sést að elsta heimild er frá 1656. Dæmasafnið nær frá 1540 og því skiljanlega engin fornmálsdæmi þar að finna. Skýringar fylgja ekki ritmálsheimildunum en oft er þar eitthvað að finna sem leiðir menn lengra. Til dæmis þessi setning; „sá hlutinn nefndist skammrif (steilur á Suðurlandi)“. Heimildin er úr ritinu Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Bókin kom fyrst út 1934 en Jónas lifði ekki að sjá bókina á prenti. Hann lést 1918. Jónas lýsir meðal annars ítarlega slátrun og skrifar:
Bógarnir voru teknir frá; krofið var tekið sundur fyrir aftan bógana, svo að nokkur rif hvoru megin fylgdu afturhlutanum. Svo var svírinn, hryggurinn aftur að herðakambi, stuttu rifin fremstu og bringan í einu; sá hlutinn nefndist skammrif (steilur á Suðurlandi). (1961:90)
Neðanmáls stendur: „krof: þegar skammrif voru af tekin“. Þessi lýsing Jónasar á við skýringu 2. í yngri orðabókunum. Höfundar voru fæddir í sveit og ólust þar upp framan af ævi og hafa án efa oft heyrt orðið skammrif.
Síðasta safnið sem ég mun vitna til hér er Íðorðabanki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (sjá til dæmis málið.is). Þar kemur fram:
skammrif hk [Læknisfræði] [skilgreining] Fimm neðstu rifin (rif 8-12), þau sem tengjast bringubeini óbeint. [latína]costae spuriae [VIII-XII], [enska] false ribs
Íðorðabankinn er unninn í samvinnu við sérfræðinga í ákveðnum fræðigeinum. Ef farið er inn í Íðorðabankann af slóðinni arnastofnun.is kemur einnig fram tilvísun til Líforðasafns. Þar er gefið samheitið spalarrif og enska heitið ‘asternal rib’.
Á Vísindavefnum má finna grein um rifbeinin, meðal annars skammrif, eftir Þuríði Þorbjarnardóttur sem lesandinn sem benti Vísindavefnum á misræmið taldi RÉTTA (hans ritháttur). Þar stendur meðal annars:
Næstu þrjú rifjapörin eru kölluð skammrif (e. false ribs). Þau eru örlítið styttri en heilrifin og tengjast hryggnum að aftan.
Ekki er þetta alveg í samræmi við orðssafnið í læknisfræði eftir því sem ég best fæ séð en er reyndar hvorki læknir né líffræðingur. Á langri ævi hef ég lært að fella ekki dóma um að eitt sé „rétt“ og annað „rangt“ í notkun orðaforðans sem ég vann við í 40 ár. Mismunandi orðanotkun er vel þekkt, bæði í almennum orðaforða og fræðilegum. Orðabókahöfundarnir á 18. öld og fram á þá 20. ólust upp í sveit og lýsa því sem þeir þekktu. Líffræðingar og læknar lýsa á annan hátt og allt er í besta lagi meðan ekki veldur alvarlegum misskilningi. Ég datt og brotnaði fyrir nokkrum árum og var mér þá sagt að tvö af „fölsku rifbeinunum“ væru brotin. Í raun var mér alveg sama hvort rifbeinin væru sönn eða fölsk og sagði öllum sem heyra vildu að ég væri rifbeinsbrotin.
Beinagrind af kind (Ovis aries).
Ekki má gleyma orðasambandinu sem óskað var skýringar á. Orðið skammrif er notað í tveimur orðasamböndum, það eru komin/farin skammrifin úr deginum ‘það er tekið að líða á daginn’ og þar fylgir böggull skammrifi ‘galli fylgir kostum, ókostur er á einhverju’. Í síðara sambandinu merkir böggull ‘byrði, ábaggi’.
Ég læt nægja að vitna hér í Merg málsins eftir Jón Friðjónsson prófessor. Merkinguna segir hann vera ‘hængur er á e-u (góðu), annmarki fylgir kostum; e-ð gott hefur sínar neikvæðu hliðar’. Segir Jón að líkingin sé dregin af slátrun sauðfjár. „Efsti hluti bógs (‘bægill, böggull’) gat fylgt skammrifjum (‘bringa, hryggur og fjögur fremstu rifin’) ef klaufalega var farið að við slátrun.“ (2006:128) Vísar hann í rit Halldórs Halldórssonar prófessors um íslensk orðatiltæki. Jón telur að skammrif í orðatiltækinu vísi til einhvers góðs, en böggull standi hins vegar fyrir eitthvað neikvætt.
Myndir:
Guðrún Kvaran. „Hver er rétta skýringin á orðinu skammrif?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74709.
Guðrún Kvaran. (2017, 7. nóvember). Hver er rétta skýringin á orðinu skammrif? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74709
Guðrún Kvaran. „Hver er rétta skýringin á orðinu skammrif?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74709>.