Geti þið sagt mér allt um kóala, svo sem verndun og útrýmingarhættu, einnig fæðu og æviskeið?Kóalabirnir eða pokabirnir (Phascolarctos cinereus) eru pokadýr (marsupia) af pokabjarnaætt (Phascolarctidae) og eina núlifandi tegund ættar sinnar. Kóalabirnir lifa villtir í ilmviðaskógum (eucalyptus) í austur- og suðausturhluta Ástralíu. Lauf ilmviðarins eru helsta uppistaða í fæðu þeirra. Þegar hefur verið fjallað almennt um kóalabirni á Vísindavefnum í svari sama höfundar við spurningunni Getið þið sagt mér allt um kóalabirni? Hér verður sjónum því frekar beint að stöðu stofnsins og verndun dýranna. Elstu steingerðu leifar kóalabjarna eru um 25 milljón ára gamlar. Um árþúsundir hafa þeir átt sinn sess í menningu og sagnaheimi frumbyggja Ástralíu en kóalabirnir voru einnig hluti af fæðu frumbyggjanna. Fyrstu rituðu heimildir um kóalabirni eru skráðar af John nokkrum Price sem gegndi starfi aðstoðarmanns John Hunters (1737-1821) landstjóra Nýju Suður-Wales. Price rakst á þessi bangsalegu dýr í leiðangri sínum til Bláfjalla (e. Blue Mountains) í janúar 1798. Þessar upplýsingar úr dagbók hans urðu hins vegar ekki opinberar fyrr en hundrað árum síðar í riti sem nefnist Historical Records of Australia. Aðrir fylgdu þó fljótt í kjölfar Price og vitneskjan um tilvist kóalabjarna barst út. Skömmu eftir aldamótin 1800 voru fyrstu lifandi kóalabirnirnir fluttir til Englands að undirlagi náttúrufræðingsins Joseph Banks. Dýrin voru höfð til sýnis og vöktu mikla athygli enda fallegar og óvenju „krúttlegar“ skepnur. Málarinn John Lewin (1770 –1819) málaði þrjú vatnslitaverk af kóalabjörnunum og birtist eitt þeirra síðar í riti franska náttúrufræðingsins George Cuvier (1769-1832) sem fyrst var gefið út árið 1827 og einnig í fleiri evrópskum ritum um náttúrufræði. Fyrsta ítarlega vísindalega lýsingin á kóalabjörnum var gerð af skoska grasafræðingnum Robert Brown (1773–1858) árið 1814. Talið er að þegar Evrópumenn komu til Ástralíu hafi kóalabirnir skipt milljónum. Fljótt eftir að þeir „uppgötvuðust“ fengu skinnkaupmenn áhuga á feldi þeirra og þegar leið á 19. öldina jókst veiðiálag verulega. Undir lok aldarinnar var gripið til aðgerða og árið 1890 var sett veiðibann í öllum ríkjum nema Queenslandi þar veiðar voru leyfðar til 1927. Samkvæmt válista alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) er staða kóalabjarna talin viðkvæm (e. vulnerable). Sérfræðingar eru þó ekki sammála um hver heildarstofnstærðin er. Árið 2012 var gefið út að stofninn væri einhvers staðar á bilinu 347–518 þúsund dýr en þetta hefur verið dregið í efa og því jafnvel verið haldið fram að stofninn sé innan við 100 þúsund dýr. Eins og þessar tölur sýna er töluverð óvissa um fjölda kóalabjarna. Staða tegundarinnar er líka nokkuð misjöfn eftir svæðum í Ástralíu. Í ríkjunum Queensland og Nýja Suður-Wales hefur stofninum hnignað mikið undanfarna áratugi, eða allt að 40%, en engin merkjanleg hnignun er á svæðum í Viktoríu og Suður-Ástralíu. Vísindamenn hafa miklar áhyggjur af framtíðarhorfum kóalabjarna vegna hlýnunar, aukinna þurrka og skógarelda í austurhluta Ástralíu. Aukin tíðni slíkra atburða hefur óneitanlega afar neikvæð áhrif á búsvæði tegundarinnar. Búsvæði kóalabjarna hefur minnkað á síðastliðnum áratugum og þar sem búsvæði skarast við athafnasvæði manna hafa afföll vegna árása hunda og árekstra við bíla valdið tjóni á staðbundnum stofnum. Ýmislegt er þó gert til að vernda tegundina. Búsvæði kólalabjarna er að mestu verndað og telja verndarsvæði eða þjóðgarðar þar sem dýrin er að finna nokkra tugi. Þá er stunduð markviss ræktun og dýr flutt á milli svæða til þess að sporna gegn innræktun og auka erfðafjölbreytileika staðbundinna stofna. Heimildir og mynd:
- Woinarski, J. & Burbidge, A.A. (2016). Phascolarctos cinereus. The IUCN Red List of Threatened Species 2016: e.T16892A21960344. (Skoðað 12. 1. 2018).
- History of Koalas | Australian Koala Foundation. (Skoðað 12. 1. 2018)
- Moyal, A. (2008). Koala - A Historical Biography. Collingwood: CSIRO Publishing.
- Örnólfur Thorlacius (2000). Skrítnustu spendýrin. Um nefdýr og pokadýr. Náttúrufræðingurinn, 70(1), bls. 41-54.
- Kort: Koala Range.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 15. 1. 2018).
- Koala climbing tree.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 15. 1. 2018).
- State Library of New South Wales. (Sótt 15. 1. 2018).