Á líka að skrifa Sól og Tungl með stórum staf þegar rætt er um okkar sól og okkar tungl? – samanber svar við spurningunni Á að skrifa Jörð eða jörð?Orðið tungl er notað um fylgihnött jarðarinnar en einnig almennt um fylgihnetti reikistjarna, til dæmis Mars hefur tvö tungl. Orðið sól er einnig bæði notað um okkar sól og um aðrar sólstjörnur í alheiminum.

Teikning af tunglinu okkar úr bókinni Sidereus nuncius frá árinu 1610. Bókina skrifaði Galíleó Galíleí (1564-1642) en hann var fyrstur manna til að beina sjónauka til himins. Galíleó sá meðal annars bletti á sólinni og uppgötvaði fjögur tungl Júpíters.
Athugið. Íslensk heiti himintungla í okkar sólkerfi eru rituð með litlum upphafsstaf: sól, sunna, jörð, tungl og máni. Jörðin er þó stundum rituð með stórum upphafsstaf í upptalningu á reikistjörnum: Merkúr, Venus, Jörð, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus. Pólstjarnan er sérheiti en getur einnig verið samnafn í merkingunni ‘stjarnan sem sést yfir norðurpólnum’. [...]Samkvæmt þessu á ætíð að rita orðin sól og tungl með litlum staf. Heimildir:
- Hvað eru margar sólir í Vetrarbrautinni? eftir Sævar Helga Bragason. (Skoðað 12.10.2017)
- Hvað eru mörg tungl í sólkerfinu okkar? eftir Sævar Helga Bragason. (Skoðað 12.10.2017)
- Íslensk málnefnd. 2016. Ritreglur. Ritreglur ÍM.
- Stafsetningarorðabókin (2. útg. 2016, ritstj. Jóhannes B. Sigtryggsson). Sjá Málið.
- File:Sidereus Nuncius half moon.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 13.10.2017).