Í nýlegu svari á Vísindavefnum Hvaða aðilar stýra gengi íslensku krónunnar? kemur m.a. fram að gengi krónunnar ráðist á millibankamarkaði með gjaldeyri þar sem: "[t]ilboð[..] eru birt á sameiginlegum gagnaveitum þar sem aðeins viðskiptavakar og Seðlabankinn sjá tilboðin." Hvaða völd og skyldur hefur Seðlabankinn við eftirlit á þessum markaði? Hvernig er t.d. tryggt að viðskiptavakar hafi ekki samráð og hvernig er komið í veg fyrir innherjaviðskipti.Hér er seinni hluta spurningarinnar svarað. Hægt er að lesa svar við fyrri hluta spurningarinnar hér. Markmið með sérstökum millibankarkaði með gjaldeyri er að búa til sem bestar aðstæður til að leiða saman kaupendur og seljendur að gjaldeyri á sem skilvirkastan og gagnsæjastan hátt. Mikilvægt er að á markaðinum séu aðilar sem geta gefið tvíhliða verð í háar fjárhæðir því að öðrum kosti yrðu sveiflur í genginu meiri en nú er. Geta viðskiptavakanna til að stunda umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti felst í því að þeir búa yfir stórum viðskiptavinahópum sem skilar sér í gjaldeyrisflæði til og frá bankanum. Þegar gjaldeyrisójafnvægi myndast innan hvers viðskiptavaka þá hafa þeir möguleika á að leita út á millibankamarkaðinn, til að kaupa eða selja gjaldeyri. Millibankamarkaðurinn er vettvangur fyrir aðila sem á annað borð eru með leyfi til gjaldeyrisviðskipta og eru sammála um að eiga viðskipti samkvæmt fyrirfram gefnum skilyrðum. Ef ekki væri fyrir skipulegan millibankamarkað þá yrði erfiðara fyrir þessa aðila að eiga viðskipti og verðlagning á gjaldeyri væri ógegnsærri en nú er. Lagaleg skilgreining á innherja í gjaldeyrisviðskiptum er ekki til staðar, líkt og er raunin um verðbréfaviðskipti. Hins vegar ber hverjum viðskiptavaka að gæta þess að hagsmunaárekstrar skapist ekki hjá þeim starfsmönnum sínum sem sinna gjaldeyrisviðskiptum á millibankamarkaði fyrir þeirra hönd og skal hver viðskiptavaki setja sér starfs- og siðareglur fyrir millibankamarkað með gjaldeyri, samanber nánar 1. mgr. 12. gr. reglna nr. 1098/2008. Þá er bankaráðsmönnum, seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra, nefndarmönnum í peningastefnunefnd og öðrum starfsmönnum Seðlabankans óheimilt, samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, að nýta sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir komast yfir vegna starfs síns í bankanum, í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum. Undir það gætu fallið stöðutökur á gjaldeyrismarkaði. Í lokin má benda á að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, samanber lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Myndir:
- Free vector graphic: Scale, Money, Tax, Tax Collector - Free Image on Pixabay - 2522379. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 29.10.2016).