Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í hugum flestra sem búa á Íslandi eru naggrísir hugguleg gæludýr. Margir íbúar Perú og annarra landa í Suður-Ameríku líta hins vegar fyrst og fremst á naggrísi sem fæðutegund.
Naggrísir eru ræktaðir til matar í Perú og víðar.
Naggrísir eiga uppruna sinn í Andesfjöllum í Suður-Ameríku. Þeir eru meðalstór nagdýr og sækja fæðu sína einvörðungu í jurtaríkið. Naggrísir gera sér oft bústaði neðanjarðar eða nýta sér holur sem önnur dýr hafa gert. Þeir halda oftast til í litlum hópum, 5-10 saman. Nánar má lesa um naggrísi í svari við spurningunni Hverjar eru allar tegundir naggrísa?
Naggrísir eru flokkaðir í naggrísaætt (Caviidae), undirættina eiginlegir naggrísir (Caviinae) og ættkvíslina naggrísir (Cavia) en fræðimenn greinir á um hversu margar tegundir teljast til ættkvíslarinnar. Naggrísir lifa villtir í náttúrunni að undanskilinni tegundinni Cavia porcellus sem er ræktuð og sú tegund naggrísa sem menn nýta.
Engar öruggar heimildir eru fyrir því hvenær menn fóru að halda naggrísi en sagan er löng, nær jafnvel aftur til 5.000 f.Kr. Naggrísir í Suður-Ameríku hafa fyrst og fremst verið ræktaðir til matar en einnig vegna feldarins og til að nota við ýmsar helgiathafnir.
Cuy, grillaður naggrís, réttur frá Ekvador.
Fyrr á tímum voru naggrísir fyrst og fremst borðaðir af íbúum Andesfjalla en neysla á naggrísakjöti hefur breiðst út og aukist verulega síðustu áratugi, líka í borgum. Neysla á naggrísum telst nú vera almenn í Perú og er áætlað að hún nemi allt að 65 milljónum naggrísa á ári. Hún er svo samtvinnuð menningu Perúmanna að mynd í dómkirkjunni í borginni Cusco sýnir Jesú og lærisveinana snæða naggrísi í síðustu kvöldmáltíðinni. Sögulega gengur það vitaskuld ekki upp því þessi fræga máltíð á að hafa átt sér stað í Austurlöndum nær þar sem enga naggrísi var að finna á þeim tíma.
Í samanburði við ræktun á stærri og hefðbundnari húsdýrum, svo sem geitum, svínum og sauðfé, er ræktun á naggrísum að flestu leyti hagkvæmari. Þeir þurfa minna pláss, vaxa hratt, fjölga sér ört og auðvelt er að rækta þá í þéttbýli. Þá er kjötið af þeim mjög næringarríkt og inniheldur lítið af fitu og kólesteróli. Naggrísakjöt minnir mjög á kanínukjöt eða dekkri hluta kjúklingakjöts. Naggrísir eru matreiddir á ýmsan máta, bakaðir í ofni, ýmist heilir eða í bitum, grillaðir, settir í pottrétti eða súpu svo dæmi séu nefnd.
Í síðustu kvöldmáltíðinnni, eftir Marcos Zapata (um 1710-1773) sem er að finna í dómkirkjunni í Cuzco í Perú, er boðið upp á naggrísakjöt.
Naggrísir eru borðaðir víðar en í Perú, svo sem á ákveðnum svæðum í Bólivíu, Ekvador, Kólumbíu, Síle og Argentínu. Innflytjendur í Bandaríkjunum frá þessum svæðum rækta og selja naggrísi víða í borgum Bandaríkjanna og hægt er að fá rétti úr naggrísakjöti á ýmsum suður-amerískum veitingastöðum, meðal annars í New York. Ef eitthvað er þá hafa vinsældir naggrísakjöts aukist á undanförnum árum.
Heimildir:
Jón Már Halldórsson. „Eru naggrísir ennþá borðaðir í Perú?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2017, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74554.
Jón Már Halldórsson. (2017, 23. nóvember). Eru naggrísir ennþá borðaðir í Perú? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74554
Jón Már Halldórsson. „Eru naggrísir ennþá borðaðir í Perú?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2017. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74554>.