Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það hefur lengi verið ágreiningur meðal dýra- og flokkunarfræðinga um hvernig eigi að flokka naggrísi. Almennt ríkir sátt um að naggrísir séu flokkaðir í naggrísaætt (Caviidae) og því næst í tvær undirættir, eiginlega naggrísi (Caviinae) og mörur (Dolichotinae). Eiginlegir naggrísir greinast síðan í 4 ættkvíslir, naggrísi (Cavia), klettanaggrísi (Kerodon) og Galea og Microcavia ættkvíslirnar, sem ekki verður fjallað nánar um hér.
Klettanaggrís (Kerodon rupestris).
Menn greinir mjög á um hversu margar tegundir eru innan Cavia ættkvíslarinnar. Í þeim heimildum sem hér er stuðst við eru þær sagðar vera fimm; villinaggrísinn (Cavia aperea), andesfjalla-naggrísinn (Cavia tschudii) og tamdi naggrísinn (Cavia porcellus), en nánar verður fjallað um þessar tegundir hér á eftir. Auk þess eru bjart-naggrísinn (Cavia fulgida), sem finnst í austanverðri Brasilíu, og stóri naggrísinn (Cavia magna), sem lifir í suðausturhluta Brasilíu og suður til Urugvay, taldir til ættkvíslarinnar Cavia. Innan Galea ættkvíslarinnar eru tegundirnar þrjár, en aðeins ein tegund tilheyrir (Kerodon rupestris) ættkvísl klettanaggrísa (Kerodon).
Allar tegundir naggrísaættarinnar finnast villtar víðsvegar í Suður-Ameríku að syðsta hluta álfunnar undanskildum. Naggrísir eru meðalstór nagdýr sem sækja fæðu sína einungis í jurtaríkið. Þeir gera sér oft bústaði neðanjarðar eða nýta sér holur sem önnur dýr hafa gert. Naggrísir halda oftast til í litlum hópum, 5-10 saman. Þeir eru næturdýr og halda til í fylgsnum sínum yfir daginn. Oft má sjá áberandi slóða við fylgsnin því þeir fara alltaf sömu leið í bústað sinn hvort sem þeir rölta þangað í rólegheitum eða eru á harðahlaupum undan rándýri.
Kunnasta tegund naggrísa er að öllum líkindum villinaggrísinn (Cavia aperea). Hann er þéttvaxinn og frekar klunnalegur með stutta fætur þó afturlappir séu nokkuð lengri en framfæturnir. Útbreiðsla hans er mun meiri en annarra tegunda ættarinnar og nær frá norðurhluta Argentínu yfir sunnanverða Brasilíu, vestur yfir Perú og norður til Venesúela og Gvæjana. Villinaggrís gýtur oft tvisvar á ári og þá einum til fjórum ungum í hvert sinn. Meðgöngutíminn er um tveir mánuðir og ná ungarnir kynþroska 55 til 70 daga gamlir.
Villinaggrís (Cavia aperea).
Önnur kunn tegund naggrísa er andesfjalla-naggrísinn (Cavia tschudii) sem ólíkt öðrum tegundum ættarinnar lifir hátt til fjalla, allt upp í 4000 metra hæð. Feldur hans er mun þykkari en feldur annarra naggrísa. Flestir dýrafræðingar telja að hann sé hinn villti forfaðir tömdu naggrísanna sem finnast nú víðs vegar um heiminn, en Inkar nýttu andesfjalla-naggrísinn mjög vegna hlýs feldarins. Sennilega hefur hann borist þaðan til gamla heimsins með Spánverjum og með tímanum hefur orðið til ný tegund sem nefnist á fræðimáli Cavia porcellus. Auk þess að vera vinsælt gæludýr er tamdi naggrísinn mikið notaður við tilraunir á rannsóknastofum.
Naggrísir hafa lengi verið ræktaðir af mönnum. Þegar Spánverjar komu til Perú á 16. öld tóku þeir eftir því að Inkar ræktuðu naggrísi bæði vegna feldarins og kjötsins, og sennilega hafa menn gert það síðan þeir tóku fasta búsetu á þessum svæðum fyrir um 3000 árum. Víða í Perú, Ekvador og Venesúela eru naggrísir enn þann dag í dag hafðir sem húsdýr.
Eins og áður sagði er aðeins ein tegund sem innan ættkvíslar klettanaggrísa, Kerodon rupestris. Klettanagrísi er helst að finna á þurru og stórgrýttu landi á hæðum og í fjallshlíðum. Þeir eru ekki eins þrekmikill og tegundir af naggrísaættkvíslinni og minna mjög á mörur (Dolichotinae). Þeir eru mun liðugri og snarpari í háttum en naggrísir, skjótast um á milli steina og geta stokkið furðu hátt. Þeir klifra upp í tré til að safna safaríkum sprotum og láta sig oft detta úr talsverðri hæð þar sem þeir virðast ekki nenna að klifra aftur niður.
Kvendýrin klettanaggrísa gera sér bæli í gjótum til að ala unga sína sem oftast eru tveir talsins. Þær gjóta oftast tvisvar á ári og eru ungarnir ótrúlega bráðþroska, en þeir eru farnir að hlaupa um nokkurra klukkustunda gamlir. Útbreiðsla klettanaggrísa er bundin við austurströnd Brasilíu.
Upplýsingar um skyld efni má finna í eftirfarandi svörum eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Hverjar eru allar tegundir naggrísa?“ Vísindavefurinn, 30. desember 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5527.
Jón Már Halldórsson. (2005, 30. desember). Hverjar eru allar tegundir naggrísa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5527
Jón Már Halldórsson. „Hverjar eru allar tegundir naggrísa?“ Vísindavefurinn. 30. des. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5527>.