Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Gátu karlar verið völvur á víkingaöld?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Öll spurningin hljóðaði svona:
Gátu karlar verið völvur á víkingaöld? Ef ekki, af hverju? Kveðja, Arnar Ási og félagar hans í 5. bekk Vatnsendaskóla.

Samkvæmt íslenskum miðaldabókmenntum var fólk talið fjölkunnugt, byggi það yfir þekkingu sem var ofar almennum skilningi, eða meintri kunnáttu til að hafa áhrif á náttúruöfl og -anda. Fjölkynngin var af ólíkum toga og meðal annars var talið að fjölkunnugt fólk af báðum kynjum gæti framið seið. Þótt menn séu ekki sammála um nákvæma virkni seiðsins, er líklegt að hann hafi í grundvallaratriðum gengið út á að koma á sambandi við eða seiða til sín hjálparanda, auk þess sem talið var að hinn fjölkunnugi gæti sjálfur farið sálförum. Með aðstoð hjálparandanna var álitið að iðkendur seiðs væru færir um að hafa bein áhrif á líf annars fólks og gætu valdið því skaða, veikindum, tekið frá eða veitt því afl, vitað örlög þess eða séð fyrir óorðna hluti, svo eitthvað sé nefnt. Þá áttu menn að geta haft áhrif á náttúruna sjálfa, kallað fram þoku og eflt eða lægt niður vinda. Í langflestum tilvikum voru þeir sem frömdu seið konur og í Ynglinga sögu segir að gyðjunum hafi verið kennd sú íþrótt, á meðan „eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara“ (Ynglinga saga, bls. 19).

Í langflestum tilvikum voru þeir sem frömdu seið konur og í Ynglinga sögu segir að gyðjunum hafi verið kennd sú íþrótt, á meðan „eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara“. Myndskreyting eftir Gerhard Munthe fyrir Ynglinga sögu í Heimskringlu frá árinu 1899.

Í fyrirspurninni er spurt um völur (eintala völva) á víkingaöld sérstaklega.[1] Þær heimildir sem varðveittar eru og greina frá völum voru þó skrifaðar nokkru síðar, flestar á 13. og 14. öld, þótt þær kunni að greina frá atburðum liðinna alda. Ein þeirra er Þiðreks saga af Bern, þar sem segir:

Hér eftir safnast saman með Hertnið konungi mikill herr. Ok hans kona Ostasia ferr út ok hrærði sinn gand. Þat köllum vér, at hún færi at seiða, svá sem gert var í forneskju, at fjölkunnugar konur, þær er vér köllum völur, skyldu seiða honum seið. (Þiðreks saga af Bern, bls. 477)

Í einhverjum tilvikum var seiður efldur eða framinn í þeim tilgangi að kalla fram sérlega spádómsanda og meðal seiðkvenna voru konur sem virðast eingöngu hafa fengist við spádóma. Líklega voru það fyrst og fremst slíkar spákonur sem voru kallaðar völur og eru þær kenndar við staf sinn, eins konar töfra- eða seiðstaf sem nefndist völur (samanber ávalur stafur).

Um völur er víða getið og í nokkrum textum kemur fram að þær hafi ferðast á milli bæja og spáð fyrir heimafólki á hverjum stað. Í sögunum eru völurnar ávallt kvenkyns og í Norna-Gests þætti segir að um Noreg hafi farið völur sem kallaðar voru spákonur. Í þessum texta, að minnsta kosti, merkir völva það sama og spákona.

Í einu frægasta fornkvæði okkar, Völuspá, er sagt frá völunni Heiði sem situr úti (það er iðkar svokallaða „útisetu“), flytur spádóm og þiggur laun fyrir. Það er einmitt algengt að völur starfi í þágu annarra og yfirleitt er þeim borgað fyrir kunnáttu sína og þær upplýsingar sem þær veita. Annað frægt dæmi er sagan af Þorbjörgu lítilvölu sem frá segir í Eiríks sögu rauða, en hér er einnig á ferðinni völva sem ferðast um og spáir fyrir um forlög og árferði. Augljóst er að Þorbjörg þarf að setja sig í samband við „náttúrur“, það er hjálparanda, til að öðlast þekkinguna, og til að undirbúa sig fyrir seiðinn fær hún í lið mér sér konur sem slá um hana hring á meðan ein þeirra, Guðríður Þorbjarnardóttir, kveður Varðlok(k)ur, sem er þá líklega töfraþula sem notuð var til að laða eða lokka að verndaranda, en þó hugsanlega einnig hjálparanda.

Í einu frægasta fornkvæði okkar, Völuspá, er sagt frá völunni Heiði sem situr úti, flytur spádóm og þiggur laun fyrir. Á myndinni heldur Óðinn á armbandi og hallar sér fram á spjót sitt á meðan hann ráðfærir sig við völuna. Myndin er eftir Lorenz Frølich og birtist árið 1895 í Den ældre Eddas Gudesange.

Hugmyndir um fjölkynngi (eða galdur í víðara samhengi) geta verið mismunandi frá einum tíma til annars og milli menningarsvæða. Þótt sums staðar séu hlutverk karla og kvenna með líkum hætti er greinilegt að sum tegund fjölkynngi tengist öðru kyninu frekar en hinu, eins og í tilviki seiðsins. Bent hefur verið á að kvenleg tenging seiðs liggi í líkindum hans við spuna, þar sem kúnstin fólst í að draga til sín (koma á tengingu við) og/eða senda út hjálparanda (samanber gand, sendingar), gjörning sem var líkt við að spinna þráð (samanber að seiða að sér gand). Seiðurinn var því, líkt og spuninn, kvenleg iðja, sem þótti ekki hæfa karlmönnum.

Annað sem gæti skipt máli í þessu samhengi er að hjálparandinn átti að hafa veitt hinum fjölkunnuga vitneskju í gegnum líkama hans eða huga, en með því var sá fjölkunnugi talinn beygja sig undir vilja andans, eða taka hann inn. Þetta sé í grundvallaratriðum ókarlmannlegt enda hafi fjölkunnugir karlmenn frekar leitast við að beygja hjálparanda undir sinn eigin vilja en að lúta honum; hér geti með öðrum orðum legið ein ástæðan fyrir því hvers vegna seiðurinn þótti ekki sæma karlmönnum.

Það er því ljóst að í þeim tilvikum þar sem karlmenn stunduðu kvenlega fjölkynngi, gátu þeir fengið það orð á sig að vera kvenlegir (ragir/argir) eða jafnvel samkynhneigðir. Í slíkum tilvikum er vegið að karlmennsku þeirra og að jafnaði þótti það ekki sæma hetjum að beita fjölkynngi eða nýta sér hana. Í hernaðarsamfélagi, þar sem karlmannleg hreysti var æðst allra mannkosta, þótti lítill heiður að því að leggja stund á forboðna þekkingarleit eða bera sig eftir þekkingu af því tagi. Með slíku gátu menn kastað rýrð á heiður sinn.

Þótt völur séu samkvæmt því sem að ofan greinir spákonur er ekki þar með sagt að karlmenn hafi ekki haft spádómsgáfu og séð fyrir um óorðna hluti, eða jafnvel framið seið. Í miðaldabókmenntum okkar eru þeir þó ýmist kenndir við seiðinn og kallaðir seiðmenn eða seiðkarlar, jafnvel seiðskrattar eða þá að þeir eru sagðir forsjálir eða framsýnir. En þótt ýmsar sögur greini frá því að karlmenn hafi getað rýnt inn í framtíðina, líkt og völurnar, virðast þeir hvergi vera kenndir við spástaf eða völ, líkt og þær og hvergi kemur fram að þeir hafi flakkað á milli bæja og þegið laun fyrir þjónustu sína.

Á þessari mynd má sjá völu í anda norrænna fornbókmennta, en myndin er úr tónlistarmyndbandi frá árinu 2015.

Ávallt ber að hafa í huga, að þótt bókmenntirnar geti að vísu veitt okkur innsýn í horfna heima, eru þær engu að síður bókmenntir. Erfitt getur verið fyrir nútímalesendur að átta sig á sannleiksgildi þeirra og að hve miklu leyti höfundar sagnanna gripu til staðlaðra frásagnarminna eða jafnvel skáldskapar. Heimildunum ber, með öðrum orðum, að taka með fyrirvara.

Tilvísun:
  1. ^ Að fornu beygðist orðið völva í aukaföllum et. völu og völur í nf.flt., en í nútímamáli er yfirleitt talað um völvu í aukaföllum og völvur í nf.flt. Einnig er til orðið vala sem beygist þá í aukaföllum et. völu (og völur í nf.flt.).

Heimildir:

  • Dillmann, François-Xavier. 1992. Seiður og shamanismi í Íslendingasögum. Skáldskaparmál 2: 20–33.
  • DuBois, Thomas A. 1999. Nordic religions in the viking age. Philadelphia: University of Pennsylvania press.
  • Eiríks saga rauða. 1985. Íslenzk fornrit IV. Útg. Ólafur Halldórsson. Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag.
  • Heide, Eldar. 2006. Gand, seid og åndevind. Bergen. Universitetet i Bergen.
  • Strömbäck, Dag. 1935. Sejd: textstudier i nordisk religionshistoria. Stockholm: Geber. Einnig til ný útg. frá 2000.
  • Tolley, Clive. 2009. Shamanism in Norse Myth and Magic I–II. FFC 296–297. Helsinki: Academia Scientiarum Fennica.
  • Þiðreks saga af Bern II. 1954. Útg. Guðni Jónsson. Reykjavík: Íslendingasagnaútgáfan.

Myndir:

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

16.10.2017

Spyrjandi

Arnar Ási og félagar í 5. bekk í Vatnsendaskóla, Margrét Jóhannsdóttir

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Gátu karlar verið völvur á víkingaöld?“ Vísindavefurinn, 16. október 2017, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74451.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2017, 16. október). Gátu karlar verið völvur á víkingaöld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74451

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Gátu karlar verið völvur á víkingaöld?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2017. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74451>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Gátu karlar verið völvur á víkingaöld?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Gátu karlar verið völvur á víkingaöld? Ef ekki, af hverju? Kveðja, Arnar Ási og félagar hans í 5. bekk Vatnsendaskóla.

Samkvæmt íslenskum miðaldabókmenntum var fólk talið fjölkunnugt, byggi það yfir þekkingu sem var ofar almennum skilningi, eða meintri kunnáttu til að hafa áhrif á náttúruöfl og -anda. Fjölkynngin var af ólíkum toga og meðal annars var talið að fjölkunnugt fólk af báðum kynjum gæti framið seið. Þótt menn séu ekki sammála um nákvæma virkni seiðsins, er líklegt að hann hafi í grundvallaratriðum gengið út á að koma á sambandi við eða seiða til sín hjálparanda, auk þess sem talið var að hinn fjölkunnugi gæti sjálfur farið sálförum. Með aðstoð hjálparandanna var álitið að iðkendur seiðs væru færir um að hafa bein áhrif á líf annars fólks og gætu valdið því skaða, veikindum, tekið frá eða veitt því afl, vitað örlög þess eða séð fyrir óorðna hluti, svo eitthvað sé nefnt. Þá áttu menn að geta haft áhrif á náttúruna sjálfa, kallað fram þoku og eflt eða lægt niður vinda. Í langflestum tilvikum voru þeir sem frömdu seið konur og í Ynglinga sögu segir að gyðjunum hafi verið kennd sú íþrótt, á meðan „eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara“ (Ynglinga saga, bls. 19).

Í langflestum tilvikum voru þeir sem frömdu seið konur og í Ynglinga sögu segir að gyðjunum hafi verið kennd sú íþrótt, á meðan „eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara“. Myndskreyting eftir Gerhard Munthe fyrir Ynglinga sögu í Heimskringlu frá árinu 1899.

Í fyrirspurninni er spurt um völur (eintala völva) á víkingaöld sérstaklega.[1] Þær heimildir sem varðveittar eru og greina frá völum voru þó skrifaðar nokkru síðar, flestar á 13. og 14. öld, þótt þær kunni að greina frá atburðum liðinna alda. Ein þeirra er Þiðreks saga af Bern, þar sem segir:

Hér eftir safnast saman með Hertnið konungi mikill herr. Ok hans kona Ostasia ferr út ok hrærði sinn gand. Þat köllum vér, at hún færi at seiða, svá sem gert var í forneskju, at fjölkunnugar konur, þær er vér köllum völur, skyldu seiða honum seið. (Þiðreks saga af Bern, bls. 477)

Í einhverjum tilvikum var seiður efldur eða framinn í þeim tilgangi að kalla fram sérlega spádómsanda og meðal seiðkvenna voru konur sem virðast eingöngu hafa fengist við spádóma. Líklega voru það fyrst og fremst slíkar spákonur sem voru kallaðar völur og eru þær kenndar við staf sinn, eins konar töfra- eða seiðstaf sem nefndist völur (samanber ávalur stafur).

Um völur er víða getið og í nokkrum textum kemur fram að þær hafi ferðast á milli bæja og spáð fyrir heimafólki á hverjum stað. Í sögunum eru völurnar ávallt kvenkyns og í Norna-Gests þætti segir að um Noreg hafi farið völur sem kallaðar voru spákonur. Í þessum texta, að minnsta kosti, merkir völva það sama og spákona.

Í einu frægasta fornkvæði okkar, Völuspá, er sagt frá völunni Heiði sem situr úti (það er iðkar svokallaða „útisetu“), flytur spádóm og þiggur laun fyrir. Það er einmitt algengt að völur starfi í þágu annarra og yfirleitt er þeim borgað fyrir kunnáttu sína og þær upplýsingar sem þær veita. Annað frægt dæmi er sagan af Þorbjörgu lítilvölu sem frá segir í Eiríks sögu rauða, en hér er einnig á ferðinni völva sem ferðast um og spáir fyrir um forlög og árferði. Augljóst er að Þorbjörg þarf að setja sig í samband við „náttúrur“, það er hjálparanda, til að öðlast þekkinguna, og til að undirbúa sig fyrir seiðinn fær hún í lið mér sér konur sem slá um hana hring á meðan ein þeirra, Guðríður Þorbjarnardóttir, kveður Varðlok(k)ur, sem er þá líklega töfraþula sem notuð var til að laða eða lokka að verndaranda, en þó hugsanlega einnig hjálparanda.

Í einu frægasta fornkvæði okkar, Völuspá, er sagt frá völunni Heiði sem situr úti, flytur spádóm og þiggur laun fyrir. Á myndinni heldur Óðinn á armbandi og hallar sér fram á spjót sitt á meðan hann ráðfærir sig við völuna. Myndin er eftir Lorenz Frølich og birtist árið 1895 í Den ældre Eddas Gudesange.

Hugmyndir um fjölkynngi (eða galdur í víðara samhengi) geta verið mismunandi frá einum tíma til annars og milli menningarsvæða. Þótt sums staðar séu hlutverk karla og kvenna með líkum hætti er greinilegt að sum tegund fjölkynngi tengist öðru kyninu frekar en hinu, eins og í tilviki seiðsins. Bent hefur verið á að kvenleg tenging seiðs liggi í líkindum hans við spuna, þar sem kúnstin fólst í að draga til sín (koma á tengingu við) og/eða senda út hjálparanda (samanber gand, sendingar), gjörning sem var líkt við að spinna þráð (samanber að seiða að sér gand). Seiðurinn var því, líkt og spuninn, kvenleg iðja, sem þótti ekki hæfa karlmönnum.

Annað sem gæti skipt máli í þessu samhengi er að hjálparandinn átti að hafa veitt hinum fjölkunnuga vitneskju í gegnum líkama hans eða huga, en með því var sá fjölkunnugi talinn beygja sig undir vilja andans, eða taka hann inn. Þetta sé í grundvallaratriðum ókarlmannlegt enda hafi fjölkunnugir karlmenn frekar leitast við að beygja hjálparanda undir sinn eigin vilja en að lúta honum; hér geti með öðrum orðum legið ein ástæðan fyrir því hvers vegna seiðurinn þótti ekki sæma karlmönnum.

Það er því ljóst að í þeim tilvikum þar sem karlmenn stunduðu kvenlega fjölkynngi, gátu þeir fengið það orð á sig að vera kvenlegir (ragir/argir) eða jafnvel samkynhneigðir. Í slíkum tilvikum er vegið að karlmennsku þeirra og að jafnaði þótti það ekki sæma hetjum að beita fjölkynngi eða nýta sér hana. Í hernaðarsamfélagi, þar sem karlmannleg hreysti var æðst allra mannkosta, þótti lítill heiður að því að leggja stund á forboðna þekkingarleit eða bera sig eftir þekkingu af því tagi. Með slíku gátu menn kastað rýrð á heiður sinn.

Þótt völur séu samkvæmt því sem að ofan greinir spákonur er ekki þar með sagt að karlmenn hafi ekki haft spádómsgáfu og séð fyrir um óorðna hluti, eða jafnvel framið seið. Í miðaldabókmenntum okkar eru þeir þó ýmist kenndir við seiðinn og kallaðir seiðmenn eða seiðkarlar, jafnvel seiðskrattar eða þá að þeir eru sagðir forsjálir eða framsýnir. En þótt ýmsar sögur greini frá því að karlmenn hafi getað rýnt inn í framtíðina, líkt og völurnar, virðast þeir hvergi vera kenndir við spástaf eða völ, líkt og þær og hvergi kemur fram að þeir hafi flakkað á milli bæja og þegið laun fyrir þjónustu sína.

Á þessari mynd má sjá völu í anda norrænna fornbókmennta, en myndin er úr tónlistarmyndbandi frá árinu 2015.

Ávallt ber að hafa í huga, að þótt bókmenntirnar geti að vísu veitt okkur innsýn í horfna heima, eru þær engu að síður bókmenntir. Erfitt getur verið fyrir nútímalesendur að átta sig á sannleiksgildi þeirra og að hve miklu leyti höfundar sagnanna gripu til staðlaðra frásagnarminna eða jafnvel skáldskapar. Heimildunum ber, með öðrum orðum, að taka með fyrirvara.

Tilvísun:
  1. ^ Að fornu beygðist orðið völva í aukaföllum et. völu og völur í nf.flt., en í nútímamáli er yfirleitt talað um völvu í aukaföllum og völvur í nf.flt. Einnig er til orðið vala sem beygist þá í aukaföllum et. völu (og völur í nf.flt.).

Heimildir:

  • Dillmann, François-Xavier. 1992. Seiður og shamanismi í Íslendingasögum. Skáldskaparmál 2: 20–33.
  • DuBois, Thomas A. 1999. Nordic religions in the viking age. Philadelphia: University of Pennsylvania press.
  • Eiríks saga rauða. 1985. Íslenzk fornrit IV. Útg. Ólafur Halldórsson. Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag.
  • Heide, Eldar. 2006. Gand, seid og åndevind. Bergen. Universitetet i Bergen.
  • Strömbäck, Dag. 1935. Sejd: textstudier i nordisk religionshistoria. Stockholm: Geber. Einnig til ný útg. frá 2000.
  • Tolley, Clive. 2009. Shamanism in Norse Myth and Magic I–II. FFC 296–297. Helsinki: Academia Scientiarum Fennica.
  • Þiðreks saga af Bern II. 1954. Útg. Guðni Jónsson. Reykjavík: Íslendingasagnaútgáfan.

Myndir:

...