Á miðöldum var til hugtakið ergi sem hafði mjög neikvæða skírskotun. Í því fólst að karlmennska manna var dregin í efa og þeir taldir hegða sér kvenlega, vera ragir eða blauðir. Ýmislegt gat falist í ergi, til dæmis hugleysi (sem einnig er nefnd ragmennska). Eitt af því var að hafa verið „sorðinn“ eða „stroðinn“ af öðrum karlmanni. Ásakanir um slíkt nefndust fullréttisorð og samkvæmt íslenskum lögum mátti vega menn til hefnda fyrir slíkt. Margt fleira gat kallað á ásakanir um ergi, svo sem skeggleysi eða barnleysi. Níð af þessu tagi var iðulega sett fram í orðum, en einnig þekktist að það væri sett fram með myndrænum hætti og var þá kallað tréníð. Dæmi um slíkt er í Bjarnar sögu Hítdælakappa, sem mun vera rituð á 13. öld:
Þess er nú við getið að sá hlutur fannst í hafnarmarki Þórðar, er þvígið [því-gi-að = ekki þeim mun] vinveittlegra þótti. Það voru karlar tveir og hafði annar hött bláan á höfði. Þeir stóðu lútir og horfði annar eftir öðrum. Það þótti illur fundur og mæltu menn, eða hvorskis hlutur væri góður, þeirra er þar stóðu, og enn verri þess er fyrir stóð.Í þessu fólust greinilega aðdróttanir um kynlíf tveggja karlmanna og er til marks um neikvæða ímynd þess á ritunartíma sögunnar. Þó er gerður greinarmunur á því að vera „virkur“ og „óvirkur“ þátttakandi í verknaðinum og verra að vera óvirkur, þar sem slíkt athæfi hefur þótt kvenlegt, það er ergi. Rétt er að taka fram að allt níð af þessu tagi snýst um kynlíf en ekki ást. Hið sama á við um skriftaboð kirkjunnar þar sem kynlíf milli karlmanna var skilgreint sem syndsamlegt, ásamt framhjáhaldi, kynlífi með dýrum og sjálfsfróun. Ekkert bann var hins vegar lagt við kynlífi með aðilum sem nú teldust undir lögaldri og er það til marks um hvernig viðmið um rétt og rangt athæfi geta breyst. Hvorki í skriftaboðum né níði var gert ráð fyrir að til væri sérstakur hópur „samkynhneigðra“ heldur var líklega talið að allir gætu drýgt þessa „synd“. Í skriftaboðum Þorláks helga frá 1179 virtist hún ekki litin sérstaklega alvarlegum augum. Samt sem áður var kynlíf karla ótvíræð synd, eins og raunar sjálfsfróun og framhjáhald. Niðurstaðan er sú að samkynhneigð sem hugtak eða stofnun var ekki til á árunum 800 til 1100. Kynferðisleg spenna og þrá milli karlmanna hefur líklega alltaf verið til en er skilgreind á mismunandi hátt á hverjum tíma. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju er orðið „fags“ notað yfir sígarettur í Bretlandi en um homma í Bandaríkjunum? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Hvers vegna eru sumir strákar miklu kvenlegri en aðrir? eftir Þorgerði Þorvaldsdóttur.
- Ef ég er ekki sammála sjónarmiðum samkynhneigðra er þá hægt að segja að ég sé fordómafullur? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Ef samkynhneigður maður í sambandi með öðrum karlmanni breytir um kyn, hættir þá hinn aðilinn að vera hommi? eftir Þorgerði Þorvaldsdóttur.
- Eru til dæmi um samkynhneigð þroskaheftra? Gera þeir sér þá grein fyrir því sjálfir? eftir Rannveigu Traustadóttur.
- Geta dýr verið samkynhneigð, eins og fólk? eftir Jón Má Halldórsson.
- Hvaðan kemur orðtakið „að koma út úr skápnum“? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Hver er réttarstaða samkynhneigðra í staðfestri samvist eða sambúð og í hverju er hún frábrugðin réttarstöðu gagnkynhneigðra? eftir Frey Björnsson.
- Hvers vegna er fólk samkynhneigt? Er það aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum? eftir Þorgerði Þorvaldsdóttur.
- Hvers vegna mega samkynhneigðir karlmenn ekki gefa blóð? eftir Ulriku Anderson.
- Mega samkynhneigðir á Íslandi ekki ættleiða börn? eftir Árna Helgason.
- Mynda hommar og lesbíur alltaf kjarna á milli sín því þau eru minnihlutahópar? eftir Rannveigu Traustadóttur.
- Auður G. Magnúsdóttir, Frillor och fruar: Politik och samlevnad på Island 1120-1400, Gautaborg, 2001.
- Ármann Jakobsson, „Ekki kosta munur. Kynjasaga frá 13. öld“, Skírnir, 174 (2000), 21-48.
- John Boswell, Christianity, social tolerance, and homosexuality: Gay people in western Europe from the beginning of the Christian era to the fourteenth century, Chicago, 1980.
- John Boswell, Same-sex unions in pre-modern Europe, New York, 1994.
- Judith Butler, Gender trouble: Feminism and the subversion of identity, London & New York, 1990.
- Allen Frantzen, Before the closet: Same-sex love from Beowulf to Angels in America, Chicago, 1998.
- Kari Ellen Gade, „Homosexuality and rape of males in Old Norse law and literature“, Scandinavian Studies, 58 (1986), 124-41.
- Eve Kosofsky Sedgwick, Epistemology of closet, London, 1994.
- Preben Meulengracht Sörensen, Norrønt nid: Forestillingen om den umandige mand i de islandske sagaer, Odense, 1980.
- Richard Zeikowitz, Homoeroticism and chivalry: Discourses in male same-sex desire in the 14th century, Basingstoke & New York, 2003.
- Þrymskviða. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.