Þvergöngur Merkúríusar
Merkúríus og Venus eru einu reikistjörnurnar í sólkerfinu sem eru nær sólinni en jörðin og því þær einu sem geta gengið fyrir sólina frá jörðu séð. Merkúríus getur aðeins gengið fyrir sólina ef hann er í innri samstöðu við sólina, það er milli jarðar og sólar, auk þess að skera á sama tíma brautarflöt jarðar (sólbauginn). Eins og sakir standa getur þetta eingöngu gerst í kringum 8. maí og 10. nóvember ár hvert. Sé Merkúríus milli jarðar og sólar á þeim tíma sést þverganga. Sporbraut Merkúríusar um sólina er mjög miðskökk. Það þýðir að fjarlægð reikistjörnunnar frá sólinni breytist úr 46 milljónum km við sólnánd upp í 70 milljónir km við sólfirrð. Fyrir vikið er brautarhraði Merkúríusar 50% meiri við sólnánd en sólfirrð (59,0 km/s á móti 38,9 km). Að auki hallar sporbraut Merkúríusar um 7 gráður miðað við jörðina. Allt hefur þetta áhrif á tíðni og eiginleika þverganga Merkúríusar. Við þvergöngu í nóvember er Merkúríus í sólnánd og skífa hans þá aðeins 10 bogasekúndur á breidd og þekur þá aðeins 0,5% af skífu sólar. Við þvergöngur í maí, þegar Merkúríus er í sólfirrð, er skífan hins vegar 12 bogasekúndur í þvermál og hylur þá aðeins 0,6% af skífu sólar. Hins vegar eru nóvember-þvergöngur næstum tvöfalt algengari en maí-þvergöngur. Ástæðan er brautarhraði Merkúríusar. Þegar Merkúríus er í sólfirrð ferðast hann hægar og eru þá minni líkur á að hann skeri hnútpunktinn á þeim tímapunkti. Nóvember-þvergöngur verða með 7, 13 eða 33 ára millibili en maí-þvergöngur á 13 eða 33 ára millibili. Þvergöngur Merkúríusar eru mun algengari en þvergöngur Venusar vegna þess að braut Venusar er miklu stærri en braut Merkúríusar. Milli áranna 1601 og 2300 gengur Merkúríus 94 sinnum um sólina, þar af eru maí-þvergöngurnar 31 talsins en nóvember-þvergöngurnar 63. Á hverri öld eru því 13 til 14 þvergöngur Merkúríusar sjáanlegar frá jörðinni. Hinn 7. nóvember árið 1631 fylgdist franski stjörnufræðingurinn Pierre Gassendi fyrstur manna með Merkúríusi ganga fyrir sólina.Spurningu Elísar er hér svarað að hluta. Hægt er að lesa meira um þvergöngu Merkúríusar á Stjörnufræðivefnum en þetta svar er stytt útgáfa af þeirri umfjöllun og birt með góðfúslegu leyfi. Myndin er fengin af sama vef.