- Almyrkvi verður þegar tunglið hylur alla sólarskífuna svo sólkórónan birtist. Almyrkvi sést aðeins frá mjög takmörkuðu svæði á Jörðinni, þeim stöðum sem slóð myrkvans liggur yfir. Almyrkvi sást seinast frá Íslandi 30. júní árið 1954.
- Hringmyrkvi verður þegar sólin og tunglið liggja nákvæmlega í beinni línu en sýndarstærð tunglsins er minni en sólar. Sólin birtist þá sem bjartur hringur í kringum dimma skífu tunglsins. Hringmyrkvi sást seinast frá Íslandi 31. maí 2003 en næst árið 2048.
- Deildarmyrkvi verður þegar sólin og tunglið eru ekki alveg í beinni línu og tunglið hylur sólina aðeins að hluta. Deildarmyrkvar sjást frá mun stærra svæði á Jörðinni en almyrkvar og hringmyrkvar.
- Blandaður myrkvi er sólmyrkvi sem er bæði hringmyrkvi og almyrkvi, eftir því hvar á myrkvaferlinum athugandi er. Sumstaðar sést almyrkvi en annars staðar hringmyrkvi. Blandaðir myrkvar eru tiltölulega sjaldgæfir.
- Stjörnufræðivefurinn/Hermann Hafsteinsson. (Sótt 17. 3. 2015).
Þetta svar er brot af lengri umfjöllun um sólmyrkva á Stjörnufræðivefnum og birt með góðfúslegu leyfi. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér umfjöllunina í heild sinni.