Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er hlaupið rangsælis á hlaupabrautum?

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

Einfalda svarið við þeirri spurningu er að reglur Alþjóðafrjálsíþrótta-sambandsins kveða á um að svo eigi að gera. Áður en sú regla var sett voru hlaup ýmist hlaupin rangsælis eða réttsælis. Regla 163.1 segir að í göngu og hlaupum þar sem að minnsta kosti er beygt einu sinni skuli vinstri höndin vera innar. Hins vegar eru uppi ýmsar kenningar um hvers vegna þessi regla var sett og hér á eftir er farið yfir þær helstu, án þess að höfundur þessa svars taki endilega afstöðu til kenninganna:

  1. Flestir eru rétthentir og réttfættir og auðveldara er fyrir þá að hlaupa rangsælis (með vinstri fótinn fyrir innan í beygjunum). Hægri fóturinn er sterkari á þessum einstaklingum og skrefið sem tekið er með þeim fæti því stundum örlítið lengra. Ytri fóturinn í beygjunni þarf að fara lengri leið og því er hentugra að það sé sá sterkari. Fleiri hafa hægri fótinn sterkari heldur en þann vinstri og því hafi verið valið að hlaupa rangsælis. Rannsóknir hafa auk þess sýnt að sé bundið fyrir augun á fólki leitar það til vinstri þegar það gengur (sennilega vegna þess að hægri fóturinn er sterkari) og því getur verið að það sé fólki eðlilegra að beygja til vinstri. Sem gagnrýni á þessa kenningu má benda á að flestar keppnir á hringbraut fara fram rangsælis hvort sem um er að ræða hesta, hunda eða jafnvel bíla og í þeim tilfellum er önnur hlið líkamans ekki sterkari en hin (en reyndar hefur verið bent á að í NASCAR-aksturskeppninni sitji bílstjórar vinstra megin og því sé auðveldara að sjá innri brún akstursbrautarinnar sé beygt til vinstri).
  2. Jörðin snýst rangsælis og með því að hlaupa með snúningi jarðarinnar hlaupa menn hraðar heldur en ef hlaupið er gegn snúningi jarðarinnar. Þannig hafi löngun manna í betri tíma valdið því að hlaupið var í þessa átt. Á suðurhveli jarðar eru snúningkraftar jarðarinnar í hina áttina enda hafa ekki mörg heimsmet verið sett í keppni þar (þó eftirminnilegt sé heimsmet Almaz Ayana í 10.000 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016). Á móti má benda á að mun meiri hefð er fyrir keppni í hlaupum í Evrópu og Norður-Ameríku og þar er keppni vinsælust og flestir að fylgjast með. Þess vegna eru flest mótin þar og því ekki skrítið að flest heimsmetin séu sett þar líka.
  3. Margir Vesturlandabúar lesa frá vinstri til hægri og því þykir eðlilegra að fylgjast með hlaupum sem fara frá vinstri til hægri (rangsælis). Þannig er hlaupið rangsælis áhorfendanna vegna. Lesendum er eftirlátið að meta trúverðugleika þessarar skýringar.

Langlíklegast er að hefðir ráði því að reglan var sett þannig að hlaupið skuli rangsælis. Sumir vilja meina að alveg frá tímum hringleikahúsa Rómverja hafi kappakstur á vögnum verið rangsælis. Einnig er líklegt að Alþjóða frjálsíþróttasambandið hafi litið til annarra greina þegar ákveðið var að hlaupið skyldi rangsælis. Að lokum má svo benda á að til að staðla hlaupakeppnisgreinar þurfti að ákveða hlaupaáttina. Hugsanlega hefur tilviljun ein ráðið því að ákveðið var að hlaupið skyldi rangsælis en ekki réttsælis.

Mynd:

Höfundur

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

prófessor í íþróttafræðum við HÍ

Útgáfudagur

28.9.2017

Spyrjandi

Jóhann Sveinsson

Tilvísun

Sigurbjörn Árni Arngrímsson. „Af hverju er hlaupið rangsælis á hlaupabrautum?“ Vísindavefurinn, 28. september 2017, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74224.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson. (2017, 28. september). Af hverju er hlaupið rangsælis á hlaupabrautum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74224

Sigurbjörn Árni Arngrímsson. „Af hverju er hlaupið rangsælis á hlaupabrautum?“ Vísindavefurinn. 28. sep. 2017. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74224>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er hlaupið rangsælis á hlaupabrautum?
Einfalda svarið við þeirri spurningu er að reglur Alþjóðafrjálsíþrótta-sambandsins kveða á um að svo eigi að gera. Áður en sú regla var sett voru hlaup ýmist hlaupin rangsælis eða réttsælis. Regla 163.1 segir að í göngu og hlaupum þar sem að minnsta kosti er beygt einu sinni skuli vinstri höndin vera innar. Hins vegar eru uppi ýmsar kenningar um hvers vegna þessi regla var sett og hér á eftir er farið yfir þær helstu, án þess að höfundur þessa svars taki endilega afstöðu til kenninganna:

  1. Flestir eru rétthentir og réttfættir og auðveldara er fyrir þá að hlaupa rangsælis (með vinstri fótinn fyrir innan í beygjunum). Hægri fóturinn er sterkari á þessum einstaklingum og skrefið sem tekið er með þeim fæti því stundum örlítið lengra. Ytri fóturinn í beygjunni þarf að fara lengri leið og því er hentugra að það sé sá sterkari. Fleiri hafa hægri fótinn sterkari heldur en þann vinstri og því hafi verið valið að hlaupa rangsælis. Rannsóknir hafa auk þess sýnt að sé bundið fyrir augun á fólki leitar það til vinstri þegar það gengur (sennilega vegna þess að hægri fóturinn er sterkari) og því getur verið að það sé fólki eðlilegra að beygja til vinstri. Sem gagnrýni á þessa kenningu má benda á að flestar keppnir á hringbraut fara fram rangsælis hvort sem um er að ræða hesta, hunda eða jafnvel bíla og í þeim tilfellum er önnur hlið líkamans ekki sterkari en hin (en reyndar hefur verið bent á að í NASCAR-aksturskeppninni sitji bílstjórar vinstra megin og því sé auðveldara að sjá innri brún akstursbrautarinnar sé beygt til vinstri).
  2. Jörðin snýst rangsælis og með því að hlaupa með snúningi jarðarinnar hlaupa menn hraðar heldur en ef hlaupið er gegn snúningi jarðarinnar. Þannig hafi löngun manna í betri tíma valdið því að hlaupið var í þessa átt. Á suðurhveli jarðar eru snúningkraftar jarðarinnar í hina áttina enda hafa ekki mörg heimsmet verið sett í keppni þar (þó eftirminnilegt sé heimsmet Almaz Ayana í 10.000 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016). Á móti má benda á að mun meiri hefð er fyrir keppni í hlaupum í Evrópu og Norður-Ameríku og þar er keppni vinsælust og flestir að fylgjast með. Þess vegna eru flest mótin þar og því ekki skrítið að flest heimsmetin séu sett þar líka.
  3. Margir Vesturlandabúar lesa frá vinstri til hægri og því þykir eðlilegra að fylgjast með hlaupum sem fara frá vinstri til hægri (rangsælis). Þannig er hlaupið rangsælis áhorfendanna vegna. Lesendum er eftirlátið að meta trúverðugleika þessarar skýringar.

Langlíklegast er að hefðir ráði því að reglan var sett þannig að hlaupið skuli rangsælis. Sumir vilja meina að alveg frá tímum hringleikahúsa Rómverja hafi kappakstur á vögnum verið rangsælis. Einnig er líklegt að Alþjóða frjálsíþróttasambandið hafi litið til annarra greina þegar ákveðið var að hlaupið skyldi rangsælis. Að lokum má svo benda á að til að staðla hlaupakeppnisgreinar þurfti að ákveða hlaupaáttina. Hugsanlega hefur tilviljun ein ráðið því að ákveðið var að hlaupið skyldi rangsælis en ekki réttsælis.

Mynd:

...