- Flestir eru rétthentir og réttfættir og auðveldara er fyrir þá að hlaupa rangsælis (með vinstri fótinn fyrir innan í beygjunum). Hægri fóturinn er sterkari á þessum einstaklingum og skrefið sem tekið er með þeim fæti því stundum örlítið lengra. Ytri fóturinn í beygjunni þarf að fara lengri leið og því er hentugra að það sé sá sterkari. Fleiri hafa hægri fótinn sterkari heldur en þann vinstri og því hafi verið valið að hlaupa rangsælis. Rannsóknir hafa auk þess sýnt að sé bundið fyrir augun á fólki leitar það til vinstri þegar það gengur (sennilega vegna þess að hægri fóturinn er sterkari) og því getur verið að það sé fólki eðlilegra að beygja til vinstri. Sem gagnrýni á þessa kenningu má benda á að flestar keppnir á hringbraut fara fram rangsælis hvort sem um er að ræða hesta, hunda eða jafnvel bíla og í þeim tilfellum er önnur hlið líkamans ekki sterkari en hin (en reyndar hefur verið bent á að í NASCAR-aksturskeppninni sitji bílstjórar vinstra megin og því sé auðveldara að sjá innri brún akstursbrautarinnar sé beygt til vinstri).
- Jörðin snýst rangsælis og með því að hlaupa með snúningi jarðarinnar hlaupa menn hraðar heldur en ef hlaupið er gegn snúningi jarðarinnar. Þannig hafi löngun manna í betri tíma valdið því að hlaupið var í þessa átt. Á suðurhveli jarðar eru snúningkraftar jarðarinnar í hina áttina enda hafa ekki mörg heimsmet verið sett í keppni þar (þó eftirminnilegt sé heimsmet Almaz Ayana í 10.000 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016). Á móti má benda á að mun meiri hefð er fyrir keppni í hlaupum í Evrópu og Norður-Ameríku og þar er keppni vinsælust og flestir að fylgjast með. Þess vegna eru flest mótin þar og því ekki skrítið að flest heimsmetin séu sett þar líka.
- Margir Vesturlandabúar lesa frá vinstri til hægri og því þykir eðlilegra að fylgjast með hlaupum sem fara frá vinstri til hægri (rangsælis). Þannig er hlaupið rangsælis áhorfendanna vegna. Lesendum er eftirlátið að meta trúverðugleika þessarar skýringar.
- Free photo: Race, Track And Field, Running - Free Image on Pixabay - 801940. (Sótt 18.09.2017).