Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Tilkoma ritvélarinnar, líkt og margra annarra uppfinninga, átti sér langa sögu og því hefur til dæmis verið haldið fram að einhvers konar ritvél hafi verið fundin upp 52 sinnum! Eitt helsta markmið ritvélarinnar var að gera fólki kleift að skrifa hraðar en mögulegt var með pennan einan að vopni.
Árið 1714 fékk enski uppfinningamaðurinn Henry Mill (um það bil 1683–1771) einkaleyfi á „vél til að skrifa upp bókstafi“. Svo virðist sem Mill hafi búið til slíka vél þótt lítið meira sé vitað um hana. Það var hins vegar á 19. öld sem hreyfing fór að komast á hlutina. Ritvélarnar voru þó flestar stórar og hægvirkar og þóttu þess vegna ekki líklegar til vinsælda. Árið 1867 var komið að bandaríska uppfinningamanninum Christopher Latham Sholes (1819-1890) að búa til sína fyrstu ritvél. Ári síðar bjó hann til aðra útgáfu af vél sinni og er talið að þá hafi í fyrsta skipti komið fram ritvél sem skákaði hraða pennans. Vegna þessa er uppfinning ritvélarinnar yfirleitt eignuð Sholes.
Frumgerð af ritvél Sholes.
Árið 1874 kom ritvél Sholes á markað í Bandaríkjunum undir heitinu Remington. Um áratug síðar voru ritvélar orðnar útbreiddar á skrifstofum og þóttu mikið þarfaþing. Með fyrstu Remington-ritvélinni var einungis hægt að skrifa hástafi. Önnur útgáfa vélarinnar kom út árið 1878 og var hún útbúin svokölluðum skiptihnappi ('shift'-hnappi), líkt og tölvur nútímans, og var þá unnt að skrifa bæði hástafi og lágstafi. Áður en skiptihnappurinn kom til sögunnar komu fram ritvélar sem höfðu tvö sett af lyklaborði, annað með hástöfum og hitt með lágstöfum. Slíkar ritvélar voru skiljanlega fyrirferðarmeiri og dýrari í framleiðslu.
Það tók Sholes nokkur ár að finna upp hentuga röð á bókstöfunum á lyklaborð ritvéla sinna til að koma í veg fyrir að hnapparnir myndu slást saman. Að lokum var QWERTY-lyklaborðið ofan á. Það er enn þann dag í dag vinsælasta niðurröðun bókstafa á lyklaborð.
Eitt helsta markmið ritvélarinnar var að gera fólki kleift að skrifa hraðaren mögulegt var með pennan einan að vopni.
Þessar fyrstu ritvélar voru allar handknúnar. Sögu rafknúinna ritvéla má hins vegar rekja aftur til 1870 þegar bandaríski uppfinningamaðurinn Thomas Alva Edison (1847-1931) bjó til slíka vél. Það var þó ekki fyrr en tæpri öld síðar, eða árið 1961, sem fyrsta rafknúna ritvélin varð vinsæl. Í Íslensku alfræðiorðabókinni er eftirfarandi að finna um mun á handknúnum og rafknúnum ritvélum:
Á handknúinni ritvél eru leturstafirnir venjulega tveir og tveir saman á ásláttarhömrum sem eru knúnir af lyklum á lyklaborðinu. Stafirnir prentast með því að hamrarnir þrýsta borða með litarefni að pappírnum. Gúmmívals á hreyfanlegum sleða færir pappírinn. Í rafknúinni ritvél er drifkerfi knúið rafhreyfli sem lætur hamarinn falla þegar viðeigandi lykill er snertur. Þróun rafeindatækninnar leiddi til þess að í stað vélræns lyklaborðs kom lyklaborð með rafsnertum, sem með rafeindabúnaði vélarinnar stýrði skrifkúlu sem snerist og færðist eftir pappírnum, en vagninn undir valsinum var úr sögunni. Í stað kúlunnar kom síðar skrifhjól sem snerist og var slegið á það með segulknúnum hamri. Í stað borða með prentsvertu er notað kolefnisband í kassettu.
Tölvur hafa að mestu ýtt ritvélum úr vegi en þær eru þó víða enn í notkun, til dæmis á Indlandi.
Heimildir:
Jórunn Eva Erlingsdóttir, Oddur Auðunsson, Ólafur Steinn Ketilbjörnsson og Ívar Daði Þorvaldsson. „Hver fann upp ritvélina og hvenær var það?“ Vísindavefurinn, 16. júní 2017, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74179.
Jórunn Eva Erlingsdóttir, Oddur Auðunsson, Ólafur Steinn Ketilbjörnsson og Ívar Daði Þorvaldsson. (2017, 16. júní). Hver fann upp ritvélina og hvenær var það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74179
Jórunn Eva Erlingsdóttir, Oddur Auðunsson, Ólafur Steinn Ketilbjörnsson og Ívar Daði Þorvaldsson. „Hver fann upp ritvélina og hvenær var það?“ Vísindavefurinn. 16. jún. 2017. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74179>.