Hver er munurinn á flóðhestum og nashyrningum, eru þeir nógu líkir til að geta eignast afkvæmi?Í svari sama höfundar við spurningunni Hefur tveimur dýrategundum verið blandað saman? Ef svo er, hvaða tegundum? kemur fram að æxlun milli einstaklinga af ólíkum tegundum þekkist bæði í náttúrunni og einnig af manna völdum. Tegundir verða þó að vera talsvert skyldar til að geta æxlast saman og átt lífvænleg afkvæmi. Nashyrningar (Rhinocerotidae) og flóðhestar (Hipopotamus spp.) eru að einhverju leyti áþekkir í útlit, stór og þung dýr, grá að lit og svokallaðir þykkskinnungar. En því fer fjarri að nashyrningar og flóðhestar séu nægjanlega skyldir til þess að geta eignast saman afkvæmi. Nashyrningar eru hófdýr (Perissodactyla) og því skyldir hestum (Equidae) og tapírum (Tapiridae). Flóðhestar eru hins vegar klaufdýr (Artiodactyla) og hafa rannsóknir sýnt að af núlifandi dýrum eru þeir skyldastir hvölum. Þess má geta að þessir hópar hafa mjög mismunandi fjölda litninga. Nashyrningar hafa 84 litninga (sá svarti er reyndar með 82 litninga) og flóðhestar eru með 36 litninga. Ekki er ljóst hvenær klaufdýr og hófdýr skyldust að í þróunarsögunni en sennilega voru síðustu sameiginlegu forfeðurnir á ferli fyrir rúmum 45 milljónum ára. Myndir:
- Hippo at dawn.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 24. 8. 2018).
- Waterberg Nashorn3.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 24. 8. 2018).