Brasilíski tapírinn (Tapirus terrestris). Ungar tapírar hafa allir hvítar rákir fyrstu mánuðina líkt og grísir villisvína (Sus scrofa)
Tapírar eignast venjulega eitt afkvæmi í hverjum burði og er meðgöngutíminn um 13-14 mánuðir. Ungarnir eru rákóttir fyrstu mánuðina líkt og grísir villisvína (Sus scrofa). Þeir hætta á spena eftir 10-12 mánuði og verða kynþroska við rúmlega tveggja ára aldur. Tapírar halda sig í þéttum regnskógum yfir daginn en á nóttunni færa þeir sig á jaðarsvæðin í fæðuleit. Þeir eru jurtaætur og er fæðuvalið fjölbreytt; laufblöð, nýgræðlingar og ávextir af jurtum sem vaxa á skógarbotninum. Þrjár af fjórum tapírategundunum lifa í Suður-Ameríku en ein tegund finnst í sunnanverðri Asíu. Brasilíski tapírinn (Tapirus terrestris), sem einnig er kallaður láglendistapír eða fenjatapír, finnst í skóglendi nærri ám í regnskógum Suður-Ameríku; allt frá Kólumbíu og Venesúela til suðurhluta Brasilíu.
Indíánatapír (Tapirus bairdii)
Heimkynni indíánatapírsins (Tapirus bairdii) ná frá Ekvador og öðrum svæðum vestan við Andesfjallgarðinn allt norður til suðurhluta Mexíkó. Útbreiðsla tegundarinnar er orðin æði brotakennd og telja vísindamenn að allt að 70% búsvæða hennar hafi verið eyðilögð. Stofninn er talinn vera innan við 5000 dýr og telst tegundin vera í hættu (e. endangered). Fjallatapírinn eða hrokkintapírinn (Tapirus pinchaque) lifir í skóg- og graslendi í Andesfjöllum í yfir 2000 metra hæð. Honum hefur fækkað umtalsvert á undanförnum áratugum, einkum vegna röskunar á búsvæðum hans. Hann er alveg horfinn af stórum svæðum í norðurhluta Kólumbíu en finnst ennþá syðst í landinu auk þess að lifa í Ekvador og Perú. Stofninn er nærri 2000 dýr og telja dýrafræðingar að það séu um 20% líkur á að hann deyi út á næstu 20 árum.
- Nowak, R. M. og J. L. Paradiso. 1983. Walker's Mammals of the World, 4. útg. John Hopkins University Press, Baltimore, MD.
- Wilson, D. E. og D. M. Reeder. 1993. Mammal Species of the World, A Taxonomic and Geographic Reference. 2. útg. Smithsonian Institution Press, Washington.
- Zookrefeld.de
- Wikipedia.org
- Rufford Small Grants for Nature Conservation