Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Núlifandi flóðhestum er skipt í tvær tegundir, eiginlegan flóðhest (Hippopotamus amphibius) og dvergflóðhest (Choeropsis liberiensis). Stærðarmunurinn á þessum tegundum er mikill, eiginlegir flóðhestar eru meðal alstærstu landspendýra og geta orðið allt að 3,6 tonn að þyngd en dvergflóðhestar vega aðeins um 250 kg.
Fyrir utan stærðina eru tegundirnar áþekkar í útliti. Þær hafa báðar stórt höfðuð og stutta og kubbslega fætur. Skinnið er þykkt og nærri hárlaust. Kirtlar eru á skinninu og má sjá áberandi dældir í því, en úr þeim seytir húðin bleiku efni sem hefur verið kallað blóðsviti og verndar húðina fyrir sterkum geislum sólarinnar. Flóðhestar eru geysilega munnstórir og með stórvaxnar skögultennur sem eru áberandi stærri meðal karldýranna. Nasir og augu eru staðsett efst á hauskúpunni þannig að dýrin geta verið í kafi en augu og nasir eru þá einu líkamshlutar ofan vatnsyfirborðs.
Eiginlegir flóðhestar (Hippopotamus amphibius)
Kjörbúsvæði flóðhesta eru djúp vötn með góðum aðgangi að vatnagróðri eða beitilandi. Áður fyrr lifðu flóðhestar um gjörvalla Afríku sunnan Sahara en undanfarna áratugi hefur þeim verið kerfisbundið útrýmt á stærstum hluta þessara svæða. Útbreiðsla þeirra er sýnd á kortinu hér til hliðar. Eini stóri stofninn sem eftir lifir finnst á syðsta hluta vatnasviðs Nílar í austurhluta álfunnar.
Flóðhestar halda sig oft í hópum, allt upp í 30 dýr, en stundum eru þeir einir og sér. Kjarninn í hópnum eru kýr og kálfar þeirra. Oftast er eitt karldýr sem heldur utan um hópinn, makast við kýrnar og heldur öðrum karldýrum frá. Bardagar tarfanna geta verið ofsafengnir og oftast eru þeir alsettir örum eftir stórvaxnar skögultennur andstæðinga sem þeir hafa lent í átökum við.
Flóðhestar æxlast árið um kring. Rannsóknir hafa þó sýnt að algengasti æxlunartíminn er í febrúar og ágúst og er meðgöngutíminn um 227 til 240 dagar. Kálfarnir fæðast því þegar um mánuður er liðinn af regntímanum í október og apríl þegar gróðurinn er kominn vel á veg. Kýrin er frjó í þrjá daga og æxlast með karldýrinu sem heldur utan um kvennabúr sitt. Í meira en 95% tilvika er kálfurinn aðeins einn og vegur hann um 27-50 kg við burð. Kálfurinn getur sogið spena í kafi en oft heldur hann til á baki móður sinnar og hvílist þar.
Flóðhestar halda oftast til í vatni yfir daginn en koma á þurrt land á nóttunni til þess að éta.
Flóðhestar halda oftast til sofandi í vatni yfir daginn en þegar skyggja tekur fara þeir á beit á nærliggjandi graslendi. Þeir geta ferðast allt að 3 km frá vatnsbólinu sínu til heppilegra beitarsvæða.
Flóðhestar eru einstaklega vel aðlagaðir að vatnalífi. Þeir hreyfa sig oftar en ekki með því að sökkva sér ofan í vatnið og ganga eftir botninum. Á landi eru þeir hins vegar klunnalegir en geta þó náð ótrúlegum hraða ef styggð kemur að þeim, til dæmis þegar ljón eru nærri.
Þrátt fyrir að vera nær alfarið jurtaætur þá gleypa flóðhestar einstaka sinnum smádýr sem verða á vegi þeirra auk þess að leggjast á hræ.
Samskipti flóðhesta og manna hafa verið stormasöm á undanförnum öldum. Þeir eiga það til að koma inn á kornakra og valda þar geysilegum skemmdum. Flóðhestar eru einnig meðal hættulegustu dýra Afríku og verða að jafnaði hundruð manna að bana ár hvert.
Flóðhestar hafa verið greindir niður í fimm deilitegundir á grundvelli formfræðilegra breytileika á hauskúpu. Þær eru
H.a. amphibius eða svokölluð flaggdeilitegund. Söguleg útbreiðsla hennar var eftir Níl frá Egyptalandi og suður til Tansaníu og Mósambik. Hún hefur nú horfið af langstærstum hluta þessa svæðis.
H.a. kiboko sem lifir í Kenía og Sómalíu.
H.a. capensis sem lifir í Sambíu og suður til Suður-Afríku. Helsta einkenni þessarar deilitegundar er flatari hauskúpa.
H.a. tscahdensis sem finnst víða í Vestur-Afríku og er kennd við Afríkuríkið Tsjad. Þessi deilitegund hefur fækkað svo að hún er nú í mikilli útrýmingarhættu.
H.a. constrctus sem lifi í Kongó, Namibíu og Angóla.
Dvergflóðhestar (Choeropsis liberiensis)
Dvergflóðhestar eru eins og nafnið gefur til kynna mun minni en eiginlegir flóðhestar.
Dvergflóðhestar eru mun minni en frændur þeirra eiginlegu flóðhestarnir.
Dvergflóðhestar lifa eingöngu í vesturhluta Afríku og eru greindir niður í tvær deilitegundir. Annars vegar er það H.l. liberiensis sem eins og nafnið gefur til kynna finnst í Líberíu auk þess sem smáir stofnar finnast í Síerra Leóne, Gíneu og Fílabeinsströndinni. Þessi deilitegund hefur mátt líða fyrir áralangar borgarastyrjaldir í þremur þessara ríkja auk þess sem búsvæðaröskun og veiðiþjófnaður hefur höggvið stór skörð í þessa stofna. Áætlað er að deilitegundin telji á bilinu 1.800 – 3.000 dýr og er hún í hættu (e. endangered) að mati alþjóðlegu verndunarsamtakanna IUCN.
Hin deilitegundin sem nefnist H.l. heslopi átti heimkynni í árósum Níger fljótsins. Tegundin er kennd við breskan ofursta Heslop að nafni sem var á þessum slóðum á 5. áratug síðustu aldar. Hann veiddi nokkur dýr og áleit að stofninn væri ekki stærri en um 30 dýr. Allt bendir til þess að þessi deilitegund sé nú útdauð.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Jón Már Halldórsson. „Getur þú frætt mig um flóðhesta?“ Vísindavefurinn, 24. apríl 2009, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51948.
Jón Már Halldórsson. (2009, 24. apríl). Getur þú frætt mig um flóðhesta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51948
Jón Már Halldórsson. „Getur þú frætt mig um flóðhesta?“ Vísindavefurinn. 24. apr. 2009. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51948>.