Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í Afríku lifa tvær tegundir flóðhesta, fljótaflóðhesturinn (Hippopotamus amphibius), stundum kallaður Nílarflóðhesturinn og dvergflóðhesturinn (Choeropsis liberiensis). Sá fyrrnefndi er mun stærri eða allt að 3 tonn að þyngd. Dvergflóðhestar vega aftur á móti aðeins frá 160 til 280 kg. Flóðhestar eru algengir nú á dögum á verndarsvæðum og þjóðgörðum í sunnanverðri Afríku. Áður fyrr voru þeir hins vegar algengir um alla álfuna og einnig í Asíu og Evrópu.
Flóðhestar eru mjög vel aðlagaðir að lífi í vatni. Eyru, augu og nasir eru staðsett efst á hausnum þannig að dýrið getur haldið þeim upp úr vatninu. Þegar dýrin kafa lokast eyru og nasir dýrsins til að hindra að vatn flæði inn. Þrátt fyrir mjög svo klunnalega líkamsbyggingu eiga þeir auðvelt með allar hreyfingar í vatninu. Flóðhestar eru næturdýr. Að næturlagi fara dýrin upp á bakka fljóta og vatna til að éta jurtir. Fullvaxið karldýr getur étið allt að 70 kg af jurtum á einni nóttu! Húð dýranna er viðkvæm fyrir þurrki og til að verjast honum seyta kirtlar í húð dýranna bleiklituðu efni sem heldur húðinni rakri.
Ekki eru til nein augljós svör við spurninginni af hverju flóðhestar völdu það búsvæði sem þeir lifa á í dag, en að baki er löng þróun.
Ein kenningin er sú að fyrir tugþúsundum eða jafnvel hundruðum þúsunda ára hafi flóðhestar eða forfeður þeirra leitað í vötn og fljót til að vernda sig og ungviði sitt gegn rándýrum. Í fyllingu tímans hafi dýrin aðlagast þessu vota búsvæði sífellt betur, eins og yfirbragð dýranna gefur til kynna. Ekki eru allir vísindamenn sammála þessari kenningu. Sumir hafa haldið því fram að flóðhestar (eða forfeður þeirra) hafi í árdaga leitað í vatnið til að verjast hinum mikla hita sem er yfir daginn. Dýrin notuðu þá svalasta tíma sólarhringsins til að fara upp úr vatninu og næra sig. Á þeim tíma eru rándýr eins og ljón og hýenur hvað virkust. Í Asíu þar sem flóðhestar voru áður mjög útbreiddir voru það tígrisdýr og hlébarðar sem höfðu líkamlega burði til að drepa flóðhestakálfa.
Myndin er fengin frá vefsetri dýragarðsins í Fíladelfíu
Jón Már Halldórsson. „Af hverju líkar flóðhestum svona vel að vera í vatni?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1347.
Jón Már Halldórsson. (2001, 21. febrúar). Af hverju líkar flóðhestum svona vel að vera í vatni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1347
Jón Már Halldórsson. „Af hverju líkar flóðhestum svona vel að vera í vatni?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1347>.