Af hverju heitir rykfrakki rykfrakki? Hvaða ryk er það sem frakkinn ver þig gegn?Orðið rykfrakki er þekkt í málinu frá því snemma á 20. öld. Það fer að birtast í fataauglýsingum í blöðum 1916. Rykfrakki er án efa þýðing úr dönsku støvfrakke eða norsku støvfrakk (bæði í bókmáli og nýnorsku). Í ÍSLEX-orðabókinni hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er danska og sænska þýðingin einungis ‘trenchcoat’. Sú þýðing er einnig gefin fyrir norsku en þýðingin ‘støvfrakk’ sögð gamaldags. Rykfrakkinn fær nafn sitt af því að hann ver jakkaföt, kjóla og dragtir fyrir ryki og oftast bleytu. Hann varð vinsæll í Bretlandi eftir að Thomas Burberry setti á markað vatnshelda flík úr gaberdíni og poplíni í lok 19. aldar sem reyndist afar vel í skotgröfum í fyrri heimsstyrjöldinni og var borin bæði af breskum og frönskum hermönnum. Hún fékk nafnið trenchcoat en trench merkir ‘skotgröf’. Eftir stríð varð rykfrakkinn vinsæl tískuflík. Mynd:
- Trench coat - Wikimedia Commons. Myndrétthafi er Harris & Ewing, Washington, D.C. (Sótt 12.06.2017).