Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Við getum verið nokkuð viss um að Jesús borðaði ekki pitsur, allavega ekki eins og þær sem við þekkjum í dag með sósu úr tómötum og osti ofan á og kannski einhverju öðru áleggi. Þannig pitsur komu líklega ekki til sögunnar fyrr en á 18. öld eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvaðan kemur pitsan? Hins vegar er vitað að Forngrikkir bökuðu flöt brauð með kryddjurtum ofan á sem kannski má líta á sem einhvers konar forvera pitsunnar. Ef sambærileg brauð voru bökuð á slóðum Jesú væri hugsanlega hægt að segja að hann hefði smakkað pitsu, en það er ansi langsótt.
Jesús hefur heldur ekki borðað hamborgara þar sem kjötbuff og brauð sett saman í það sem við köllum hamborgara kom ekki fram fyrr en undir lok 19. aldar eða í byrjun þeirrar 20. Um hamborgara má lesa í svari við spurningunni Hvers vegna eru hamborgarar kallaðir því nafni?
En hvað borðaði Jesús þá fyrst hann fékk ekki þennan uppáhaldsmat margra? Það eru alls ekki allir sammála um hvað hann borðaði þar sem ekki er fjallað nákvæmlega um það efni í Biblíunni. Ef leitað er að upplýsingum um þetta á veraldarvefnum má sjá að fólk deilir til dæmis um það hvers konar kjöt hann borðaði eða hvort hann borðaði yfirhöfuð eitthvert kjöt. Það hefur meira að segja komið út bók sem heitir What would Jesus eat? eða Hvað mundi Jesús borða? þar sem finna má ráðleggingar um mataræði sem höfundurinn segir ekki ósvipað því sem tíðkaðist á slóðum Jesú fyrir 2000 árum.
Mataræði Jesú hefur örugglega verið það sama og annarra sem bjuggu á hans slóðum á þeim tíma. Brauð hefur verið mikilvæg fæða og það sama er að segja um fisk. Grænmeti, ávextir og baunir hafa sjálfsagt líka verið algengt fæði. Talið er að kjötmáltíðir hafi ekki verið mjög algengar, alltént ekki eins og hjá okkur. Þar sem Jesús var Gyðingur eru allar líkur á að hann hafi fylgt þeirra siðum þegar kom að kjöti og ekki borðað svínakjöt. En hann hefur örugglega borðað lambakjöt, því páskahátíð gyðinga þar sem páskalambinu var slátrað og þess neytt er mjög gamall siður, miklu eldri en 2000 ára. Hvað drykki varðar hefur hann drukkið vatn eða vín eftir því sem við átti og í boði var.
Rétt er að taka fram í lokin að þetta svar er ekki byggt á ítarlegri skoðun höfundar á því hvort og þá hvernig matur kemur fyrir í Biblíunni heldur er stuðst við athuganir annarra í því efni.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
EDS. „Hvað borðaði Jesús fyrst ekki voru til pitsur og hamborgarar?“ Vísindavefurinn, 11. apríl 2008, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7343.
EDS. (2008, 11. apríl). Hvað borðaði Jesús fyrst ekki voru til pitsur og hamborgarar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7343
EDS. „Hvað borðaði Jesús fyrst ekki voru til pitsur og hamborgarar?“ Vísindavefurinn. 11. apr. 2008. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7343>.