Ég hef verið að velta fyrir mér hvers vegna hamborgarar eru kallaðir hamborgarar (hamburgers). Hvaðan kemur þetta „ham”? Var svínakjöt í hamborgurum hér áður fyrr eða kemur þetta borginni Hamborg eitthvað við?Í Íslenskri orðsifjabók (1989, Ásgeir Blöndal Magnússon, Orðabók Háskólans) segir að orðið hamborgari merki ‘þunn buffsneið með brauði (milli brauðsneiða)’. Orðið er sagt vera tökuorð úr dönsku og sagt er að rétturinn sem lýst er sé kenndur við Hamborg. Ef uppruni enska orðsins hamburger er skoðaður verður niðurstaðan einnig sú að borgin Hamborg liggi að baki nafninu. Á fyrri hluta 19. aldar voru kryddaðar buffsneiðar eða kjöthakkssneiðar vinsælar í Þýskalandi, þar á meðal í Hamborg. Þar hlaut rétturinn heitið Hamborgarsteik. Á fyrri hluta 19. aldar sigldu flestir vesturfarar, sem ættaðir voru frá norðurhluta Evrópu, frá hafnarborginni Hamborg til New York. Rétturinn Hamborgarsteik barst þannig með þýskum innflytjendum til Bandaríkjanna og varð fljótt vinsæll. „Hamburger steak” styttist svo í „hamburger” og rétturinn tók smám saman á sig þá mynd sem við þekkjum í dag. Ekki er ljóst hvenær brauðinu var bætt við buffsneiðina en hamborgarar með brauði þekktust að minnsta kosti í Bandaríkjunum í byrjun 20. aldar. Þeir urðu mjög vinsælir þar vestra og hafa allar götur síðan þótt bandarískur réttur fremur en þýskur. Heitið hamborgari eða enska heitið hamburger hefur því ekkert með svínakjöt að gera þó að svo vilji til að skinka heiti ham á ensku. Buffréttur frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi sem gengur undir heitinu bitoke eða bitoc er stundum talinn fyrirrennari hamborgaranna. Heitið bitoke varð að minnsta kosti þekkt á Vesturlöndum eftir októberbyltinguna 1917. Þaðan barst það með flóttamönnum frá Rússlandi. Sjómenn frá Hamborg þekktu bitoc enda voru rússneskir sjómenn tíðir gestir í hafnarborginni. Á 17. öld kynntu þeir til að mynda svonefnda tartarbuff fyrir Hamborgarbúum, en það er hrátt hakkað nautakjöt eða hrossakjöt sem á rætur að rekja til Mongólíu. Heimildir:
- Urbanlegends.com
- Britannica.com
- Dictionary.com
- Matarást á vefnum Snara. (Sótt 7.01.2016).
- History of the hamburger - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 7.01.2016).
- History of the hamburger - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 7.01.2016).