Hvers vegna erum við Íslendingar með föðurnöfn en fólk á Norðurlöndum með ættarnöfn?Sá siður að kenna karla og konur við feður sína, og í sumum tilvikum við mæður ef feður voru látnir, var ríkjandi á öllum Norðurlöndum á landnámsöld. Íslendingar einir hafa haldið þessum sið, þótt einstaka fjölskylda tæki upp ættarnöfn einkum á 19. öld þegar aukast tók að menn færu utan til náms, einkum til Kaupmannahafnar. Talsvert var sótt í ný ættarnöfn á síðari hluta 19. aldar og fram eftir þeirri 20. Í manntali 1910 voru skráð 297 ættarnöfn. Nokkuð bættist við eftir að lög um mannanöfn voru samþykkt 1913 þar sem ættarnöfn voru heimiluð eftir ákveðnum reglum en sú heimild féll úr gildi með lögum frá 1925 þar sem ráðamenn í landinu vildu að gamli siðurinn, sem hér hafði að mestu haldist frá landnámi, liði ekki undir lok eins og á hinum Norðurlöndunum. Því hefur ekki verið breytt til þessa. Í Færeyjum var hinn gamli siður ríkjandi fram til 1828 og ættarnöfn báru aðeins þeir sem aðfluttir voru, einkum prestar og embættismenn. Það ár kom tilskipun frá Danmörku um að hér eftir ættu öll börn að fá við skírn eiginnafn og ættarnafn. Tilskipunin gekk í gildi 1832. Fyrir utan nöfn sem enduðu á –sen völdu prestar nöfn sem dregin voru af bóndabæjum eða þorpum. 1904 kom aftur tilskipun um að breyta mætti ættarnöfnum þannig að nýja nafnið, sem valið var, væri verndað og aðrar fjölskyldur mættu ekki nota það. Þessi nýju nöfn voru af mjög margvíslegu tagi. Sumir völdu dönsk eða hálfdönsk nöfn en flestir þó færeysk nöfn. 1992 voru samþykkt færeysk nafnalög og mega menn nú, ef þeir kjósa, kenna sig til föður eða móður með –son eða –dóttir sem bannað var 1828.

Í Færeyjum var hinn gamli siður ríkjandi fram til 1828. Eftir að ættarnöfn voru tekin upp völdu prestar nöfn sem dregin voru af bóndabæjum eða þorpum, auk nafna sem enduðu á –sen. Myndin sýnir Klakksvík (fær. Klaksvík), næststærsta bæ Færeyja.

Meðal íbúa í bæjum og borgum í Svíþjóð fór að bera á ættarnöfnum á 17. öld, oftast tvíkvæðum þar sem síðari liður vísaði til náttúrunnar. Dæmi: -berg, -gren, -lund. Myndin sýnir Grimsta, friðlýst svæði nálægt Stokkhólmi.
- Brendler, Andrea og Silvio Brendler. 2007. Eurpopäische Personennamensysteme. Ein Handbuch von Abasisch bis Zentralladinisch. Baar, Hamburg.
- Faroe Islands - Wikipedia. Myndrétthafi er Vincent van Zeijst. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 23.02.2017).
- Skog i Sverige – Wikipedia. Myndrétthafi er Holger.Ellgaard. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 23.02.2017).