Hver er uppruni orðsins Versalir? Ég tel þetta orð komið úr ásatrú en finn ekki staðfestingu á því.Orðið Versalir er þekkt í málinu frá 19. öld sem íslenskun á borg í grennd vð París með fornum konungshöllum. Franska nafnið er Versaille sem á 11. öld var Versalias. Í Íslenskri orðsifjabók (1989:1125) er nafnið talið dregið af latneska orðinu versus sem notað var um eins konar veiðistöð, síðar þorp og loks höll. Í norrænni goðafræði er orðið Fensalir heiti á bæ Friggjar, konu Óðins: „Hon á bæ þann, er Fensalir heita, ok er hann allvegligr.“ (Edda...1954:50). Fyrri liður orðsins er fen ‘kviksyndi, botnlaust dý’. Þetta nafn hefur ef til vill villt fyrir spyrjanda. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Edda Snorra Sturlusonar. Nafnaþulur og skáldatal. 1954. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan, Akureyri.
- Palace of Versailles - Wikipedia. Myndrétthafi er ToucanWings. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 07.02.2017).