Sé grennslast fyrir um eðli galdraathafna má segja að þau feli í sér viðleitni mannsins til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður eftir þeim leiðum sem hann telur færar hverju sinni. Í því ljósi má með nokkrum sanni segja að galdur sé tímalaust fyrirbæri; að hann sé og hafi alltaf verið til. - - - Hugtakið galdur (lat. magice, magica) hefur í gegnum tíðina verið nátengt bæði trúarbrögðum og vísindum. Annars vegar felur galdurinn í sér yfirskilvitlega getu galdramanns til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. Hins vegar felur hann í sér gjörning sem getur verið allt að því listræn athöfn. Í báðum tilvikum þarf galdramaðurinn að búa yfir einhverskonar verkkunnáttu, til dæmis þegar ristar eru rúnir eða galdrastafir -- en þau tákn voru fyrr á öldum álitin búa yfir sjálfstæðum áhrifamætti. Þannig má segja að galdurinn tengist bæði ritlist og skáldskap eða vísindum og listum af ýmsu tagi.Ljóst er að það fer töluvert eftir því hvernig við skilgreinum hugtakið galdur hvort til sé eitthvað sem heitir galdrafólk. Mörgum finnst til dæmis göldrum líkast öll sú nýja tækni sem nú er komin fram á sjónarsviðið. Fólk stendur agndofa frammi fyrir því hvernig slíkir hlutir séu búnir til og hverjir fundu þá upp. Í augum margra eru því vísindamenn í hátækniiðnaði galdrafólk. Svipaða sögu má segja af fleiri fræðasviðum, til dæmis læknavísindunum. Í dag búa læknar yfir kunnáttu til að framkvæmtaaðgerðir og lækna sjúkdóma sem fyrir ekki svo löngu síðan hefði þótt göldrum líkast. Það er því umdeilanlegt hvort til sé eitthvað sem heitir galdrafólk og fer í raun alfarið eftir skilgreiningu fólks á göldrum. Þekking og kunnátta umfram aðra hefur þó löngum þótt undirrót þess að fólk þyki kynngimagnað. Það er svo spurning á hvaða sviði sú þekking þarf að liggja til að fólk teljist vera göldrótt. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig var rúnum beitt til galdra, svo sem til að spá fyrir um framtíðina og til lækninga?
- Er mögulegt að töfrabrögð séu upphaf trúarbragða (samanber aldur listarinnar og tilgang hennar)?
- Hverjar eru síðustu heimildir um galdraiðkun á Íslandi?
- Hvað er seiðskratti?
- Hvað voru margar nornabrennur á Íslandi, hvenær hættu þær og hverjar voru brenndar?
- Hvað er vitað um töfrasteina eins og óskasteina og huliðshjálmssteina?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.