Eyrnasneplar eru eini hluti ytra eyrans sem inniheldur ekkert brjósk. Ekki er vitað með vissu hver tilgangur þeirra hefur upphaflega verið, en þó er talið að þeir geti verið leifar frá þeim tíma þegar forfeður manna voru með hreyfanlegri eyru. Ytra eyrað gegnir þó enn mikilvægu hlutverki við hljóðskynjun hjá manninum en það virkar nokkurn veginn eins og trekt sem fangar hljóðbylgjur og beinir þeim inn í eyrnagöngin. Meðalstærð eyrnasnepla er í kringum 2 cm en þess ber að geta að eyrnasneplar lengjast örlítið með aldri. Það hefur hins vegar tíðkast frá fornri tíð og í mörgum ólíkum menningarsamfélögum að hengja á þá skrautmuni eða jafnvel festa í þá skraut varanlega. Í sumum menningarsamfélögum þykir mikil prýði að vera með mjög langa eyrnasnepla og þungir hlutir hafa verið festir í sneplana til að teygja á þeim. Hjá öðrum hefur þótt fallegt að festa stóra hola málmhringi inn í eyrnasneplana og gera þannig afar stór göt í þá. Um allan heim er svo algengt að konur og karlar geri lítil göt í sneplana sem þau festa í þar til gerða eyrnalokka. Siðir sem þessir gætu í gegnum árþúsundin hafa stuðlað að þeirri þróun að við erum enn með eyrnasnepla þrátt fyrir að þeir virðast við fyrstu sýn ekki þjóna neinu líffræðilegu hlutverki. Þeir geta hins vegar haft samfélagslega þýðingu, meðal annars sem heppilegt sæti fyrir skraut og það getur aftur til dæmis haft áhrif á makaval. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig verður eyrnamergur til og hvaða tilgangi þjónar hann? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju fær maður hellu fyrir eyrun? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju vex mikið af hárum í eyrum á gömlum körlum? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Wikimedia Commons - Penan woman elongated earlobes.
- Body modifications and mutilations. Online Photograph. Encyclopædia Britannica Online. 3 Apr. 2008
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.