Steindir eru kristallað frumefni eða efnasamband sem finnst í náttúrunni. Þær eru í raun smæstu eindir bergtegunda; sumar bergtegundir innihalda aðallega eina gerð steinda en flestar tegundir eru settar saman úr margs konar steindum. Hægt er að lesa nánar um steindir og berg í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Eru til sérstakir íslenskir steinar?Hér er gert ráð fyrir að spyrjandi sé með grjót í huga frekar en steindir, það er að segja grjót eins og við sjáum allt í kringum okkur, í jarðveginum, niðri í fjöru, laust í fjallshlíðum og svo framvegis.
Uppruni grjótsins fer eftir því hvaða bergtegund það tilheyrir en bergtegundum er gjarnan skipt í þrjá meginflokka eftir uppruna: Storkuberg sem myndast þegar kvika úr iðrum jarðar storknar, setberg sem verður til úr lausu seti sem myndað hefur þykk setlög og myndbreytt berg sem verður til þegar storkuberg eða setberg umbreytist við mikinn hita og þrýsting. Roföflin eru sífellt að vinna á berginu og mylja úr því minni brot og það eru steinarnir sem hér er spurt um. Molnun og tæring bergs á staðnum nefnist veðrun og verður með ýmsum hætti, svo sem með frostveðrun, með svörfun jökla, með grjótburði straumvatna og af völdum úthafsöldunnar sem brotnar á ströndinni. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um bergtegundir, til dæmis:
- Hvað er granít og hvernig myndast það? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvar á landinu er helst að finna flöguberg? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvað er líparít? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hver er munurinn á grágrýti og blágrýti? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvernig er talið að ólíkar kvikugerðir sem koma upp í íslenskum eldstöðvum verði til? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hverjar eru helstu setgerðir og hvernig myndast setlög á Íslandi? eftir Jón Eiríksson
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.