Tárakirtlar eru undir húðinni yst á efri augnlokum. Þeir eru álíka stórir og mandla og liggja göng frá þeim sem flytja tár að yfirborði efri augnloka. Tárin dreifast yfir yfirborð augans með blikki augnlokanna og berast síðan í átt að augnkrókum. Þar eru tvenn göng sem taka við tárunum og flytja í nefgöngin. Tár eru vatnslausn sem inniheldur sölt, svolítið slím og sýkladrepandi efni nefnt lýsózým. Tárin hreinsa, smyrja og halda augum rökum og koma þar með í veg fyrir að þau þorni þó að þau séu í snertingu við þurrt andrúmsloftið.Tárin eru því afar mikilvæg fyrir augun og það vita þeir best sem þjást af augnþurrki. Þetta hlutverk tára er ekki bundið við manninn einan því flest landspendýr hafa svipað kerfi til þess að halda augum sínum rökum.
En svo eru það tárin sem streyma þegar fólk grætur eða er í miklu tilfinningalegu uppnámi. Þar er maðurinn líklega í nokkurri sérstöðu því eftir því sem best er vitað er hann eina spendýrið sem fellir tár við tilfinningalegt áreiti. Rannsóknir hafa leitt í ljós að efnasamsetning tára sem falla við grát er ekki alveg sú sama og þeirra tára sem halda augunum rökum í dagsins önn. Svo virðist sem með tárunum sem fylgja gráti sé líkaminn að losa sig streituvaldandi efni og þannig losni um spennu. En einnig hefur verið bent á að tárin séu leið til þess að hafa samskipti og tjá tilfinningar. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvers vegna grátum við?
- Grætur einhver dýrategund, önnur en maðurinn?
- Hvað eru mörg saltkorn í einu tári?
- Emily V. Driscoll. Why do people cry? á Scienceline. Skoðað 1. 4. 2008.
- Anton Skorucak. The Science of Tears á Science IQ. Skoðað 1. 4. 2008.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.