Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þær veðurfarsbreytingar sem eiga sér nú stað vegna uppsöfnunar á gróðurhúsalofttegundum, aðallega koltvíildis (CO2), í lofthjúpi jarðar og í hafinu, sem gleypir mikið af koltvíildi, hafa margvísleg áhrif á vistkerfi hafsins. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda við brennslu og aðra athafnir mannkyns hefur hitastig sjávar hækkað. Áhrifin á lífríki hafsins eru nú þegar komin í ljós og hægt er að fullyrða að þessar breytingar séu áþreifanlegar, bæði í úthöfum og innhöfum jarðar.
Viðamiklar rannsóknir hafa sýnt að magn plöntusvifs í vesturhluta Indlandshafs hefur minnkað um fimmtung á rúmri hálfri öld. Á sumrin er blómi gróðursvifs á þessum slóðum meðal mesta þörungablóma sem þekkist á jörðinni og slík frumframleiðsla skilar sér í afar fjölbreyttu dýralífi. Því verður óneitanlega hnignun í lífmassanum og dýrum fækkar þegar plöntusvifið minnkar. Til að mynda fækkar hvölum, fiskum og sjávarhryggleysingjum.
Á Íslandi hafa orðið áþreifanlegar breytingar á dreifingu fiskistofna, til að mynda höfum við flest heyrt fréttir af breytingum á göngumynstri loðnu (Mallotus villosus) hér við land.
Af hverju er þetta að gerast þarna og sennilega víðar í úthöfunum? Á vorin þarf að vera íblöndun á djúpsjó og grunnsjó samfara meiri birtu (fleiri sólarstundum og hita). Þá berast steinefni úr hafdjúpunum sem eru mikilvæg næringarefni fyrir vöxt og viðgang plöntusvifsins. Við hlýnun minnkar þessi blöndun úr hafdjúpunum auk heitari uppsjós sem veldur aukinni lagskiptingu og minnkandi aðgengi að steinefnum fyrir lífríki efsta lags sjávar. Hlýnun sjávar getur því valdið minnkandi frumframleiðni og minni lífmassa í heimshöfunum og þar af leiðandi minnkandi fiskistofnum.
Hér við land hafa orðið áþreifanlegar breytingar á dreifingu fiskistofna. Fjölmargar suðlægari tegundir fiska eru farnar að finnast í lögsögu landsins og norðlægari tegundir eru að verða fátíðari. Flest höfum við til dæmis heyrt fréttir af breytingum á göngumynstri loðnu (Mallotus villosus) hér við land með tilheyrandi búsifjum fyrir sjávarútveginn.
Aukið magn kolefnisefnasambanda í hafinu hefur áhrif á sýrustig þess. PH-gildið hefur lækkað hér við land samkvæmt rannsóknum og kalkmettun sömuleiðis. Minni kalkmettun í höfunum hefur bein áhrif á kalkmettandi lífverur, en það eru lífverur sem mynda stoðvefi eða skeljar úr kalki eins og til dæmis kórallar og ýmis konar skeldýr. Þetta er sennilega ein helsta ástæðan fyrir því að kóralrifum er að hnigna. Þessar kalkmyndandi plöntur og dýr eru ákaflega mikilvægur þáttur í vistkerfum hafsins og skemmdir á þeim munu hafa mikil áhrif á vistkerfið í heild.
Minni kalkmettun í höfunum hefur bein áhrif á kalkmettandi lífverur, en það eru lífverur sem mynda stoðvefi eða skeljar úr kalki eins og til dæmis kórallar.
Sennilega var mikil súrnun í hafinu á mörkum paleósín-míosín-skeiðsins (e. Paleocene-Miocene Thermal Maximum) fyrir tæpum 56 milljón árum en þeir atburðir ollu gríðarlegri útrýmingaröldu í heimshöfunum.
Hlýnun sjávar vegna aukins magns gróðurhúsalofttegunda hefur vissulega margvíslegar afleiðingar fyrir vistkerfi sjávar, meðal annars fækkun tegunda, skerðingu á lífmassa og breytingar á tegundasamsetningu og dreifingu lífvera um heimshöfin. Suðlægari tegundir færa sig norðar og fartegundir dvelja lengur á fæðustöðvum, til dæmis á norðurhjaranum. Slíkt sést meðal hvala hér við land en hugsanlega eru tegundir eins og langreyður (Balaenoptera physalus) farnar að fara seinna á haustin suður í hlýrri sjó.
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvaða áhrif hafa loftlagsbreytingar á sjávarlíf?“ Vísindavefurinn, 22. júlí 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72735.
Jón Már Halldórsson. (2019, 22. júlí). Hvaða áhrif hafa loftlagsbreytingar á sjávarlíf? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72735
Jón Már Halldórsson. „Hvaða áhrif hafa loftlagsbreytingar á sjávarlíf?“ Vísindavefurinn. 22. júl. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72735>.