Páskahret í hálfsmánaðarglugganum eru því algeng, en það er ekki oft sem þau valda verulegu tjóni eða samgöngutruflunum. Á síðustu 50 árum hefur það þó gerst nokkrum sinnum. Þrjú páskahret skera sig nokkuð úr á því tímabili og eru verri en önnur. Það eru hretin 1963, 1967 og 1996. Af eldri hretum má nefna 1917 en það minnti mjög á illviðrið 1963. Þrátt fyrir leit að sambandi tunglstöðu og illviðra hefur það ekki fundist. Þó finna megi eitthvað sem virðist gefa til kynna slíkt samband, sé aðeins litið á stutt tímabil, hverfa reglur ef tímabilið er lengt. Á tímabilinu 1950 til 1975 virtust illviðri vera tíðust í kringum 8. dag tunglsins (1. kvartil) og við fullt tungl, en þegar tímabilinu 1920 til 1950 var bætt við hvarf reglan. Fyrir nokkrum árum var ámóta könnun gerð á sambandi tunglstöðu og vindhraða en þær reglur, sem við fyrstu sýn virtust vera fyrir hendi, hurfu allar þegar önnur tímabil eða lengri voru athuguð. Á Vísindavefnum eru fleiri áhugaverð svör um veður eftir sama höfund, til dæmis:
- Ganga djúpar lægðir yfirleitt yfir landið að nóttu til?
- Snjóar frekar á kvöldin og nóttunni en á daginn?
- Hvernig stendur á því að veðurmunur er svona mikill á milli svæða á jafnlitlu landi og Íslandi?
Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Eru óveður algengari um páska (páskahret) og ef svo er tengist það þá tunglstöðu og/eða milli afstöðu jarðar og sólar?