Í sunnanátt er Suðurland áveðurs, þar er þá oft rigning, veður þungbúið og að sumarlagi er svalt. Norðurland er hlémegin í sunnanáttinni og þar er þá þurrt og oft hlýtt veður. Í norðanátt er þungbúið og oft úrkomusamt norðanlands, en bjart og þurrt syðra. Austanáttin færir vestlendingum oft þurrt, hlýtt og bjart veður, en austanlands er það vestanáttin sem er björt og hlý. Á vetrum er snjókoma og éljagangur áveðurs á landinu, en þurrt og bjart veður hlémegin. Í suðlægum áttum fellur úrkoma nær eingöngu sem regn allt árið um kring. Allmikill veðurmunur verður stundum í hægum vindi þegar engin sérstök vindátt er ríkjandi. Þá getur uppstreymi yfir landinu að sumarlagi valdið skýjuðu veðri og jafnvel skúrum, en á sama tíma er þá oft þurrt og bjart við sjávarsíðuna. Á sumrin er einnig algengt að svalt þokuloft sé við sjóinn, en bjart, hlýtt og þurrt á sama tíma inn til landsins. Á vetrum er sjórinn oftast hlýrri en landið, þar er því tilhneiging til uppstreymis á þeim tíma árs. Þá getur verið mikill hitamunur milli innsveita og útnesja, sérstaklega ef vindur er hægur. Önnur svör á Vísindavefnum:
- Af hverju er stundum svona mikill hitamunur á milli nálægra staða? eftir Trausta Jónsson
- Hvers vegna lygnir oft á kvöldin? eftir Trausta Jónsson
- Hvers vegna er kaldara í háloftum og á fjöllum en á láglendi? eftir Harald Ólafsson