Einhvern tíma morguns er loft ámóta hlýtt yfir landi og sjó, sólin hitar landið sem hitar síðan loftið sem þá þenst út við að hlýna. Ágætt er að hugsa sér súlu af lofti sem bólgnar bæði upp á við og til hliðanna. Við þetta verða breytingar á þrýstingi við jörð og svonefnd hitalægð myndast yfir landinu. Í fyrsta lagi fellur þrýstingur vegna hliðarþenslunnar, en í öðru lagi kólnar loft í háloftum við það að loftið undir þrýstir því upp á við. Þetta veldur því að yfirþrýstingur verður efst í súlunni yfir landi miðað við sjó og þar streymir loft frá landi til sjávar. En við það að loft berst út úr loftsúlunni ofan til fellur þrýstingur við yfirborð og hann verður þar lægri yfir landi en yfir sjó og lægð hefur myndast. Loft streymir inn í lægðina frá sjó og inn á land, hafgolan er orðin til, útstreymi í efri lögum er mætt með innstreymi í þeim neðstu. Núningur við jörð veldur því að loft getur streymt hraðar út að ofan heldur en nýtt loft kemur inn að neðan. Nokkra klukkutíma tekur því að koma hafgolunni í gang og hún er nokkra klukkutíma að ljúka sér af. Hiti er víðast hvar hæstur um kl.15 að deginum, en hafgolan er í hámarki 1-2 klukkustundum síðar. Uppstreymi yfir landinu er síðan mætt með niðurstreymi yfir sjónum og hringrásin er fullkomnuð. Sjávarloftið er oft talsvert kaldara en landloftið og því getur kólnað snögglega þegar hafgolan ryðst inn á landið. Um kvöldið liggur trúlega fremur þunnt lag af svölu sjávarlofti inni yfir landinu en vind hefur lægt að mestu. Loftið fær nú tækifæri til að kólna enn meir og rétt áður en sólin kemur upp næsta dag er það ef til vill orðið kaldara en það loft sem heldur sér yfir sjónum. Sólin þarf nú að byrja á því að hita það upp áður en uppstreymið nær til landloftsins frá því daginn áður. Stundum nær veik landgola sér á strik að næturlagi, það fer þó mjög eftir staðháttum og hún er mun veikari en hafgolan. Þegar hafgolan er komin af stað stefnir hún fyrst beint á land sé vindur hægur fyrir (það er að segja ekki truflaður af þrýstivindum lægða- og hæðakerfa). Dalir og firðir beina köldu og til þess að gera þungu sjávarloftinu þannig að það leitast við að streyma framhjá fyrirstöðum og vindstrengir geta myndast. Þar sem landslag er opið við ströndina getur svigkraftur jarðar haft áhrif á vindstefnuna. Dægurhringur vindátta er mjög breytilegur frá einum stað til annars. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um vind, til dæmis:
- Af hverju er vindur? eftir Harald Ólafsson
- Er vindur og rok það sama? eftir Vigni Má Lýðsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Af hverju er vindur í lægðum alltaf rangsælis á norðurhveli jarðar? eftir Harald Ólafsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvers vegna heitir vindurinn Kári? eftir Guðrúnu Kvaran
- Trausti Jónsson, 2002. Frumstæð athugun á dægursveiflu vindhraða og vindáttar í júnímánuði. Greinargerð á heimasíðu Veðurstofu Íslands.
- Trausti Jónsson, 2002. Vangaveltur varðandi dægursveiflu hita hér á landi. Greinargerð á heimasíðu Veðurstofu Íslands.