Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nú eru uppi miklar pælingar um hvaða orð eigi að nota yfir kynfæri kvenna. Sumir segja að það eigi að nota orðið píka því það sé það „upprunalegra“ en aðrir benda á önnur orð, til dæmis budda, pjalla, pjása, klobbi, klof og fleira, og segja að þau eigi jafnmikinn rétt á sér.
Þá langar mig til þess að forvitnast um hvort einhver viti um uppruna orðsins píka? Eða hvaða orð var notað um þennan part af kvenlíkamanum hér áður fyrr?
Hér er einnig svarað spurningu Berglindar:
Er eitthvað eitt orð yfir kynfæri kvenna réttara en annað? Er til dæmis réttara að segja píka frekar en pjalla. Er píka tekið úr dönsku og þá dregið af orðinu pige? Er píka þá bara annað orð yfir stelpa?
Orðið píka þekkist þegar í fornu máli en alltaf í merkingunni ‘stúlka’. Í grannmálunum er orðið einnig notað, samanber færeysku píka, nýnorsku pike, sænsku piga (í eldri sænsku pika) og dönsku pige. Aðrar merkingar orðsins eru ‘dálklausi hlutinn á fiskstirtlu’ og ‘sköp kvenna’. Orðið píka kemur seint fyrir í handritum um stúlku. Uppruni er ekki ljós, samanber Íslenska orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar (1989:709).
Málverkið Upphaf heimsins (L'Origine du monde) eftir franska málarans Gustave Courbet (1819-1877). Málverkið er frá árinu 1866.
Merkingin ‘sköp kvenna’ er ekki nefnd í Íslensk-latnesk-danskri orðabók Björns Halldórssonar frá 1814 en í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal (1920–1924) stendur, fyrir utan hinar merkingarnar tvær latneska orðið cunnus sem samkvæmt latneskri orðabók Cassells merkir ‘gleðikona’. Í Íslenskri orðabók sem Menningarsjóður gaf út 1963 er merkingin ‘sköp kvenna’ ekki nefnd en í útgáfunni frá 1983 er hana að finna sérmerkta, það er framan við er hringur með krossi inni í sem segir að merkingin sé sjaldgæf. Í þriðju útgáfu frá 2002, nú á vegum Eddu, er merkingin án nokkurra athugasemda.
Úr fornu máli þekkist orðið kunta um kvensköp en einnig sem viðurnefni Rögnvalds kuntu sem nefndur er í Heimskringlu án þess að skýring sé á tilurð viðurnefnisins. Annað orð úr fornmáli er skauð. Píka er því ekki elst þeirra orða sem notuð eru um kvensköp, kunta og skauð eru eldri og vafalaust eru fleiri til ef leitað er gaumgæfilega.
Fjöldi orða er til um þennan líkamspart kvenna, sum eru gömul, önnur ný og sum staðbundin eins og sjá má í Íslenskri samheitaorðabók Svavars Sigmundssonar undir kvensköp (3. útgáfa, 2012:344). Erfitt er að nefna nákvæman aldur þessara orða þar sem lítið finnst um þau á prenti og oft talað um líkamspartinn „undir rós“.
Klof og klobbi (gæluorð fyrir klof) sem nefnd eru í fyrirspurninni, eiga ekki eingöngu við konur.
Mynd:
Guðrún Kvaran. „Hvaða orð á að nota yfir kynfæri kvenna og er píka upprunalegasta orðið?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2016, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71845.
Guðrún Kvaran. (2016, 1. desember). Hvaða orð á að nota yfir kynfæri kvenna og er píka upprunalegasta orðið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71845
Guðrún Kvaran. „Hvaða orð á að nota yfir kynfæri kvenna og er píka upprunalegasta orðið?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2016. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71845>.