Núna er búið að leggja út næma jarðskjálftamæla víðs vegar um landið, einkum þó þar sem mestar líkur eru á jarðskjálftum og þeir tengjast til dæmis hugsanlegum eldgosum. Þessir mælar nema minnstu hreyfingar jarðskorpunnar, svokallaða smáskjálfta (e. microearthquake) sem eru miklu miklu minni en við mundum nokkurn tímann finna sjálf. Þó að þeir séu í sjálfu sér algerlega óskaðlegir og hættulausir þá geta þeir einmitt verið forboðar um eldgos eða jafnvel stærri jarðskjálfta. Einnig geta jarðvísindamenn gert nákvæmar mælingar á hægum hreyfingum jarðskorpunnar og áttað sig þannig á hreyfingum bergkviku neðan jarðar, en af þeim má líka stundum ráða ýmislegt um líkur á jarðskjálftum eða eldgosum. Mælingamerkin frá skjálftamælum úti um landið safnast nær samstundis saman í ákveðnum rannsóknastöðvum, til dæmis á Veðurstofu Íslands og á Raunvísindastofnun Háskólans. Með því að skoða smáskjálftana þar má nú á dögum yfirleitt segja fyrir um að nú sé eldgos í nánd á tilteknum stað, eða þá stærri jarðskjálfti. Spurningin er því afar eðlileg: Ef eldgos á borð við Heimaeyjargosið 1973 kæmi nú á dögum eru yfirgnæfandi líkur á að það geri boð á undan sér sem vísindamenn munu finna. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju gaus í Vestmannaeyjum?
- Mun einhvern tíma gjósa aftur í Heimaey?
- Geta vísindin spáð eldgosum?
- Hverjir rannsaka eldgos?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.