Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða rök eru fyrir efahyggju?

Finnur Dellsén

Efahyggja er almennt hugtak sem nær yfir hugmyndir um að ekki sé hægt að öðlast þekkingu á tilteknum hlutum eða þáttum. Oft takmarkast efahyggjan við einhverja tiltekna hluti eða þætti mannlegs lífs. Til dæmis er talað um trúarlega efahyggju þegar efast er um að hægt sé að vita að Guð sé til. En efahyggja getur líka verið almennari. Frægasta tegund efahyggju snýr að öllu því sem á sér stað fyrir utan huga okkar. Þá er talað um efahyggju um hinn ytri heim. Franski heimspekingurinn René Descartes (1596-1650) er þekktur fyrir að setja fram slíka efahyggju í bók sinni Hugleiðingar um frumspeki. Það gerði hann í svonefndri hugsanatilraun. Svona lýsir Henry Alexander Henrysson hugsanatilrauninni:

Í þekktasta verki sínu Hugleiðingum um frumspeki setur Descartes fram litla hugsanatilraun sem hefur lengi verið mönnum innblástur. Hann segist ímynda sér að „máttugur og kænn illur andi neyti allra bragða til að blekkja“ sig og að allt sem hann skynjar séu „einungis draumsýnir sem andinn bregður upp“.

Descartes benti á að ef illur andi stjórnaði í raun upplifunum okkar þá gætum við ekki notað skilningarvitin til að komast að því að svo sé, enda gæti andinn séð til þess að fengjum aðeins þær upplifanir sem við í raun höfum. Þannig virðumst við neyðast til að draga þá ályktun að allt sem við teljum okkur vita á grundvelli þess sem við skynjum gæti allt eins verið ósatt. Ef svo er, sagði Descartes, getum við ekki vitað neitt af því sem við teljum okkur almennt vita um hinn efnislega heim. Þetta var niðurstaða Descartes í fyrstu hugleiðingunni.

Franski heimspekingurinn René Descartes (1596-1650).

Descartes taldi að hægt væri að svara þessum rökum með því að sanna sína eigin tilvist, tilvist Guðs, og að Guð léti okkur ekki skjátlast í meginatriðum um það sem við skynjun skýrt og greinilega. Um þetta snúast hinar hugleiðingarnar fimm í Hugleiðingum um frumspeki. Heimspekingar nútímans eru flestir sammála um að „sönnun“ Descartes á tilvist og gæsku Guðs sé afar vafasöm, og því eru litlar vonir bundnar við lausn Descartes á þeim vanda sem hann setti sjálfur fram í fyrstu hugleiðingunni. Vandinn gengur almennt undir nafninu efahyggjuvandinn og rökin sem leiða til þeirra eru þekkt sem efahyggjurökin. Þótt efahyggja eigi sér langa sögu eru rökin sem Descartes setti fram oft talin hafa verið fyrstu rökin af þessu tagi sem gætu stutt almenna efahyggju um þann ytri heim sem við teljum okkur geta skynjað og haft áhrif á.

Efahyggjurökin eru gífurlega áhrifamikil hugmynd, bæði innan og utan heimspekinnar. Svonefnd þekkingarfræði (e. epistemology), sem er eitt svið heimspekinnar, snýst að miklu leyti um tilraunir til að grafa undan efahyggjurökunum, til dæmis með því að hugleiða hvað þekking þyrfti að vera svo að venjulegt fólk geti í reynd haft slíka þekkingu þrátt fyrir efahyggjurökin. Eins og gefur að skilja væri það óheppilegt í meira lagi ef niðurstaða þekkingarfræðinga um það hvað og hvernig sé hægt að öðlast þekkingu sé sú að ekki sé mögulegt að vita nokkurn skapaðan hlut! Meðal annars af þessum ástæðum eru efahyggjurökin aldrei langt undan í umræðum þekkingarfræðinga um eðli þekkingar, rökstuðnings, skoðana, og sannleika. Efahyggjurökin hafa einnig haft mikil áhrif utan heimspekinnar. Sem dæmi má taka kvikmyndina The Matrix, en þar kemst aðalpersónan að því að hann og langflestar aðrar mannverur hafa lifað í fáguðum sýndarveruleika allt frá fæðingu. Aðrar kvikmyndir sem snúast að miklu leyti um efahyggju og óhætt er að mæta með eru Inception, Total Recall, Abre los Ojos (og endurgerð hennar Vanilla Sky), auk myndarinnar The Truman Show sem lesa má um í svari við spurningunni Hvaða heimspeki er í The Truman Show?

Súrrealíska hasarmyndin Total Recall frá árinu 1990 vekur upp spurningar um hvort hægt sé að hafa þekkingu á grundvelli skilningarvitanna.

Til að færa hugartilraun Descartes aðeins nær samtímanum skulum við ímynda okkur aðstæður þar sem sturlaðir vísindamenn hafa fjarlægt úr mér heilann, sett hann í krukku og tengt hann við tölvu í gegnum fágaðan búnað sem gefur heilanum rafboð. Með hjálp þessara rafboða geta vísindamennirnir látið mig hafa hvaða upplifanir sem vera skal. Við getum til dæmis ímyndað okkur að með því að gefa rafboð af tilteknum styrkleika á ákveðnum stað í heilanum finnist mér að ég sjái rauðan lit neðst vinstra megin í sjónsviði mínu, en rafboð af öðrum styrkleika á öðrum stað gefa til kynna ég sjái eitthvað blátt beint fyrir ofan hið rauða. Og svo framvegis fyrir sjónupplifanir almennt og einnig fyrir önnur skilningarvit. Tækni af þessu tagi er auðvitað ekki til staðar nú á dögum, en það er ekki fráleitt að ætla að eitthvað þessu líkt verði mögulegt áður en mjög langt um líður. Hvað sem því líður getum við að minnsta kosti ímyndað okkur mótsagnalaust að slíkar aðstæður væru fyrir hendi.

Röksemdafærsla efahyggjunnar má setja upp með eftirfarandi hætti (þar sem forsendur eru fyrir ofan strik en niðurstaðan er fyrir neðan strik):

  • E1. Ég get ekki vitað að ég er ekki heili í krukku. (Forsenda.)
  • E2. Ef ég get ekki vitað að ég er ekki heili í krukku, þá get ég ekki vitað að ég er með hendur. (Forsenda.)
  • E3. Ég get ekki vitað að ég er með hendur. (Leiðir af E1 og E2.)

Þessi röksemdafærsla er dæmi um gild afleiðslurök. Það þýðir að ef forsendurnar (fyrir ofan strik) eru sannar, þá hlýtur niðurstaðan (fyrir neðan strik) einnig að vera sönn. Með öðrum orðum er ekki hægt að fallast mótsagnalaust á báðar forsendurnar án þess að fallast jafnframt á niðurstöðuna. Þetta þýðir svo að við stöndum frammi fyrir því að hafna að minnsta kosti annarri forsendunni eða sætta okkur við niðurstöðuna. Engir aðrir kostur eru í boði.

Við getum skipt þessum valkostum í þrennt: Í fyrsta lagi getum við hafnað fyrstu forsendunni, E1. Samkvæmt þessu get ég vitað að ég er ekki heili í krukku. Vandinn við þessa lausn er að það er ekki ljóst hvernig hægt er að halda því fram að ég geti vitað að ég er ekki heili í krukku í ljósi þess að væri ég heili í krukku hefði ég nákvæmlega sömu upplifanir eins og ef ég væri sú venjulega manneskja sem ég tel mig vera. Einhvern veginn þarf því að skýra út hvernig hægt er að vita eitthvað án þess að geta með nokkru móti fært nein rök fyrir því að önnur ósamrýmanleg staðhæfing sé sönn. Við virðumst almennt séð gera kröfu um að þeir sem vita að eitthvað sé satt séu færir um að útiloka að önnur ósamrýmanleg staðhæfing sé sönn. Til dæmis þyrfti sá sem veit að tiltekinn fugl sé kría að geta útilokað að um annan fugl sé að ræða, þar á meðal að um sé að ræða hettumáv. Sá sem ekki getur útilokað að fuglinn sé í raun hettumávur fremur en kría veit ekki að fuglinn sá er kría (jafnvel þótt fuglinn sé í raun kría).

Krían hefur svartan koll en er hvít að mestu leyti, líkt og hettumávurinn. Þeir sem ekki eru vanir að sjá báða fuglana gætu því ruglað þeim saman.

Í öðru lagi getum við hafnað annarri forsendunni, E2. Samkvæmt þessu get ég vitað að ég er með hendur þrátt fyrir að geta ekki vitað að ég er ekki heili í krukku. En hvernig í ósköpunum get ég vitað að ég er með hendur ef ég get ekki vitað að ég er ekki (handalaus) heili sem verið er að örva með tölvustýrðum rafboðum? Vandinn við þennan valkost er að ef ég væri heili í krukku þá væri ég ekki með hendur, þannig að þessi lausn felur í sér að hægt sé að vita eitthvað án þess að geta einnig vitað það sem flýtur af því sem maður veit. Sú regla sem hér er verið að vísa til, og þriðji valkosturinn brýtur í bága við, nefnist þekkingarfræðileg lokun (e. epistemic closure). Margir þekkingarfræðingar telja það að hafna þekkingarfræðilegri lokun feli í raun í sér höfnun á þekkingarhugtakinu eins og við þekkjum það, en þeir eru þó til sem vilja svara efahyggjurökunum með því að hafna E2.

Í þriðja og síðasta lagi getum við vitaskuld fallist á niðurstöðuna, E3, að ég geti ekki vitað með nokkurri vissu að ég er með hendur. Takið eftir því að hægt er að setja upp sambærilega röksemdafærslu fyrir því að ég viti ekki að ég sé með fætur, eyru, búk, og svo framvegis. Sömuleiðis getum við fært sambærileg rök fyrir því að þú vitir ekki að blaðsíðan eða skjárinn sem þú ert að lesa þetta af sé til, að íbúðin þín sé raunveruleg, að móðir þín sé til, og svo framvegis. Slík rök myndu fylgja eftirfarandi uppskrift:

  • E1*. Engin leið er fyrir mig að vita að [efahyggjustaðhæfing] er ósönn. (Forsenda.)
  • E2*. Ef ég get ekki vitað að [efahyggjustaðhæfing] er ósönn, þá get ég ekki vitað að [hversdagsleg staðhæfing] er sönn. (Forsenda.)
  • E3*. Ég get ekki vitað að [hversdagsleg staðhæfing] er sönn. (Leiðir af E1* og E2*.)

Hér er „[hversdagsleg staðhæfing]“ einhver staðhæfing sem við erum að færa rök fyrir að ég geti ekki vitað að sé sönn, og „[efahyggjustaðhæfing]“ er einhver staðhæfing sem ég get ekki útilokað en myndi grafa undan hversdagslegu staðhæfingunni. Athugið að með þessu móti virðist vera hægt að grafa undan næstum allri þekkingu sem við myndum annars telja okkur hafa. Í raun yrði ekkert eftir af þekkingu okkar nema þá ef til vill eitthvað sem hægt væri að komast að án þess að notast við skynfærin yfirleitt, til dæmis stærðfræðileg þekking. Niðurstaða af þessu tagi – sem virðist óhjákvæmileg ef við samþykkjum að röksemdafærslan hér að ofan sé með sönnum forsendum – flokkast sem efahyggja um hinn ytri heim. Þetta er augljóslega ekki mjög aðlaðandi valkostur, enda nákvæmlega sú niðurstaða sem heimspekingar hafa reynt að forðast allt frá dögum Descartes.

Af ofangreindu er að minnsta kosti ljóst að það er engin auðveld leið til að bregðast við efahyggjurökunum. Hvað svo sem við gerum munum við þurfa að fórna einhverju af því sem við hefðum annars talið sjálfsagt og eðlilegt að fallast á um þekkingu okkar á hinum ytri heimi. Þetta er ástæða þess að heimspekingar eru enn þann dag í dag að glíma við efahyggjuvandann og afleiðingar hans.

Heimildir og frekara lesefni:

  • Descartes, René (2001). Hugleiðingar um frumspeki. Inngangur og þýðing eftir Þorstein Gylfason. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Klein, Peter (2015). „Skepticism“, í Edward N. Zalta (ritstj.), The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Summer 2015 Edition). URL = http://plato.stanford.edu/archives/sum2015/entries/skepticism.
  • Stroud, Barry (1984). „The Problem of the External World,“ úr The Significance of Philosophical Skepticism (Oxford: Clarendon Press).

Myndir:

Höfundur

Finnur Dellsén

dósent í heimspeki

Útgáfudagur

3.3.2016

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Finnur Dellsén. „Hvaða rök eru fyrir efahyggju?“ Vísindavefurinn, 3. mars 2016, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71438.

Finnur Dellsén. (2016, 3. mars). Hvaða rök eru fyrir efahyggju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71438

Finnur Dellsén. „Hvaða rök eru fyrir efahyggju?“ Vísindavefurinn. 3. mar. 2016. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71438>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða rök eru fyrir efahyggju?
Efahyggja er almennt hugtak sem nær yfir hugmyndir um að ekki sé hægt að öðlast þekkingu á tilteknum hlutum eða þáttum. Oft takmarkast efahyggjan við einhverja tiltekna hluti eða þætti mannlegs lífs. Til dæmis er talað um trúarlega efahyggju þegar efast er um að hægt sé að vita að Guð sé til. En efahyggja getur líka verið almennari. Frægasta tegund efahyggju snýr að öllu því sem á sér stað fyrir utan huga okkar. Þá er talað um efahyggju um hinn ytri heim. Franski heimspekingurinn René Descartes (1596-1650) er þekktur fyrir að setja fram slíka efahyggju í bók sinni Hugleiðingar um frumspeki. Það gerði hann í svonefndri hugsanatilraun. Svona lýsir Henry Alexander Henrysson hugsanatilrauninni:

Í þekktasta verki sínu Hugleiðingum um frumspeki setur Descartes fram litla hugsanatilraun sem hefur lengi verið mönnum innblástur. Hann segist ímynda sér að „máttugur og kænn illur andi neyti allra bragða til að blekkja“ sig og að allt sem hann skynjar séu „einungis draumsýnir sem andinn bregður upp“.

Descartes benti á að ef illur andi stjórnaði í raun upplifunum okkar þá gætum við ekki notað skilningarvitin til að komast að því að svo sé, enda gæti andinn séð til þess að fengjum aðeins þær upplifanir sem við í raun höfum. Þannig virðumst við neyðast til að draga þá ályktun að allt sem við teljum okkur vita á grundvelli þess sem við skynjum gæti allt eins verið ósatt. Ef svo er, sagði Descartes, getum við ekki vitað neitt af því sem við teljum okkur almennt vita um hinn efnislega heim. Þetta var niðurstaða Descartes í fyrstu hugleiðingunni.

Franski heimspekingurinn René Descartes (1596-1650).

Descartes taldi að hægt væri að svara þessum rökum með því að sanna sína eigin tilvist, tilvist Guðs, og að Guð léti okkur ekki skjátlast í meginatriðum um það sem við skynjun skýrt og greinilega. Um þetta snúast hinar hugleiðingarnar fimm í Hugleiðingum um frumspeki. Heimspekingar nútímans eru flestir sammála um að „sönnun“ Descartes á tilvist og gæsku Guðs sé afar vafasöm, og því eru litlar vonir bundnar við lausn Descartes á þeim vanda sem hann setti sjálfur fram í fyrstu hugleiðingunni. Vandinn gengur almennt undir nafninu efahyggjuvandinn og rökin sem leiða til þeirra eru þekkt sem efahyggjurökin. Þótt efahyggja eigi sér langa sögu eru rökin sem Descartes setti fram oft talin hafa verið fyrstu rökin af þessu tagi sem gætu stutt almenna efahyggju um þann ytri heim sem við teljum okkur geta skynjað og haft áhrif á.

Efahyggjurökin eru gífurlega áhrifamikil hugmynd, bæði innan og utan heimspekinnar. Svonefnd þekkingarfræði (e. epistemology), sem er eitt svið heimspekinnar, snýst að miklu leyti um tilraunir til að grafa undan efahyggjurökunum, til dæmis með því að hugleiða hvað þekking þyrfti að vera svo að venjulegt fólk geti í reynd haft slíka þekkingu þrátt fyrir efahyggjurökin. Eins og gefur að skilja væri það óheppilegt í meira lagi ef niðurstaða þekkingarfræðinga um það hvað og hvernig sé hægt að öðlast þekkingu sé sú að ekki sé mögulegt að vita nokkurn skapaðan hlut! Meðal annars af þessum ástæðum eru efahyggjurökin aldrei langt undan í umræðum þekkingarfræðinga um eðli þekkingar, rökstuðnings, skoðana, og sannleika. Efahyggjurökin hafa einnig haft mikil áhrif utan heimspekinnar. Sem dæmi má taka kvikmyndina The Matrix, en þar kemst aðalpersónan að því að hann og langflestar aðrar mannverur hafa lifað í fáguðum sýndarveruleika allt frá fæðingu. Aðrar kvikmyndir sem snúast að miklu leyti um efahyggju og óhætt er að mæta með eru Inception, Total Recall, Abre los Ojos (og endurgerð hennar Vanilla Sky), auk myndarinnar The Truman Show sem lesa má um í svari við spurningunni Hvaða heimspeki er í The Truman Show?

Súrrealíska hasarmyndin Total Recall frá árinu 1990 vekur upp spurningar um hvort hægt sé að hafa þekkingu á grundvelli skilningarvitanna.

Til að færa hugartilraun Descartes aðeins nær samtímanum skulum við ímynda okkur aðstæður þar sem sturlaðir vísindamenn hafa fjarlægt úr mér heilann, sett hann í krukku og tengt hann við tölvu í gegnum fágaðan búnað sem gefur heilanum rafboð. Með hjálp þessara rafboða geta vísindamennirnir látið mig hafa hvaða upplifanir sem vera skal. Við getum til dæmis ímyndað okkur að með því að gefa rafboð af tilteknum styrkleika á ákveðnum stað í heilanum finnist mér að ég sjái rauðan lit neðst vinstra megin í sjónsviði mínu, en rafboð af öðrum styrkleika á öðrum stað gefa til kynna ég sjái eitthvað blátt beint fyrir ofan hið rauða. Og svo framvegis fyrir sjónupplifanir almennt og einnig fyrir önnur skilningarvit. Tækni af þessu tagi er auðvitað ekki til staðar nú á dögum, en það er ekki fráleitt að ætla að eitthvað þessu líkt verði mögulegt áður en mjög langt um líður. Hvað sem því líður getum við að minnsta kosti ímyndað okkur mótsagnalaust að slíkar aðstæður væru fyrir hendi.

Röksemdafærsla efahyggjunnar má setja upp með eftirfarandi hætti (þar sem forsendur eru fyrir ofan strik en niðurstaðan er fyrir neðan strik):

  • E1. Ég get ekki vitað að ég er ekki heili í krukku. (Forsenda.)
  • E2. Ef ég get ekki vitað að ég er ekki heili í krukku, þá get ég ekki vitað að ég er með hendur. (Forsenda.)
  • E3. Ég get ekki vitað að ég er með hendur. (Leiðir af E1 og E2.)

Þessi röksemdafærsla er dæmi um gild afleiðslurök. Það þýðir að ef forsendurnar (fyrir ofan strik) eru sannar, þá hlýtur niðurstaðan (fyrir neðan strik) einnig að vera sönn. Með öðrum orðum er ekki hægt að fallast mótsagnalaust á báðar forsendurnar án þess að fallast jafnframt á niðurstöðuna. Þetta þýðir svo að við stöndum frammi fyrir því að hafna að minnsta kosti annarri forsendunni eða sætta okkur við niðurstöðuna. Engir aðrir kostur eru í boði.

Við getum skipt þessum valkostum í þrennt: Í fyrsta lagi getum við hafnað fyrstu forsendunni, E1. Samkvæmt þessu get ég vitað að ég er ekki heili í krukku. Vandinn við þessa lausn er að það er ekki ljóst hvernig hægt er að halda því fram að ég geti vitað að ég er ekki heili í krukku í ljósi þess að væri ég heili í krukku hefði ég nákvæmlega sömu upplifanir eins og ef ég væri sú venjulega manneskja sem ég tel mig vera. Einhvern veginn þarf því að skýra út hvernig hægt er að vita eitthvað án þess að geta með nokkru móti fært nein rök fyrir því að önnur ósamrýmanleg staðhæfing sé sönn. Við virðumst almennt séð gera kröfu um að þeir sem vita að eitthvað sé satt séu færir um að útiloka að önnur ósamrýmanleg staðhæfing sé sönn. Til dæmis þyrfti sá sem veit að tiltekinn fugl sé kría að geta útilokað að um annan fugl sé að ræða, þar á meðal að um sé að ræða hettumáv. Sá sem ekki getur útilokað að fuglinn sé í raun hettumávur fremur en kría veit ekki að fuglinn sá er kría (jafnvel þótt fuglinn sé í raun kría).

Krían hefur svartan koll en er hvít að mestu leyti, líkt og hettumávurinn. Þeir sem ekki eru vanir að sjá báða fuglana gætu því ruglað þeim saman.

Í öðru lagi getum við hafnað annarri forsendunni, E2. Samkvæmt þessu get ég vitað að ég er með hendur þrátt fyrir að geta ekki vitað að ég er ekki heili í krukku. En hvernig í ósköpunum get ég vitað að ég er með hendur ef ég get ekki vitað að ég er ekki (handalaus) heili sem verið er að örva með tölvustýrðum rafboðum? Vandinn við þennan valkost er að ef ég væri heili í krukku þá væri ég ekki með hendur, þannig að þessi lausn felur í sér að hægt sé að vita eitthvað án þess að geta einnig vitað það sem flýtur af því sem maður veit. Sú regla sem hér er verið að vísa til, og þriðji valkosturinn brýtur í bága við, nefnist þekkingarfræðileg lokun (e. epistemic closure). Margir þekkingarfræðingar telja það að hafna þekkingarfræðilegri lokun feli í raun í sér höfnun á þekkingarhugtakinu eins og við þekkjum það, en þeir eru þó til sem vilja svara efahyggjurökunum með því að hafna E2.

Í þriðja og síðasta lagi getum við vitaskuld fallist á niðurstöðuna, E3, að ég geti ekki vitað með nokkurri vissu að ég er með hendur. Takið eftir því að hægt er að setja upp sambærilega röksemdafærslu fyrir því að ég viti ekki að ég sé með fætur, eyru, búk, og svo framvegis. Sömuleiðis getum við fært sambærileg rök fyrir því að þú vitir ekki að blaðsíðan eða skjárinn sem þú ert að lesa þetta af sé til, að íbúðin þín sé raunveruleg, að móðir þín sé til, og svo framvegis. Slík rök myndu fylgja eftirfarandi uppskrift:

  • E1*. Engin leið er fyrir mig að vita að [efahyggjustaðhæfing] er ósönn. (Forsenda.)
  • E2*. Ef ég get ekki vitað að [efahyggjustaðhæfing] er ósönn, þá get ég ekki vitað að [hversdagsleg staðhæfing] er sönn. (Forsenda.)
  • E3*. Ég get ekki vitað að [hversdagsleg staðhæfing] er sönn. (Leiðir af E1* og E2*.)

Hér er „[hversdagsleg staðhæfing]“ einhver staðhæfing sem við erum að færa rök fyrir að ég geti ekki vitað að sé sönn, og „[efahyggjustaðhæfing]“ er einhver staðhæfing sem ég get ekki útilokað en myndi grafa undan hversdagslegu staðhæfingunni. Athugið að með þessu móti virðist vera hægt að grafa undan næstum allri þekkingu sem við myndum annars telja okkur hafa. Í raun yrði ekkert eftir af þekkingu okkar nema þá ef til vill eitthvað sem hægt væri að komast að án þess að notast við skynfærin yfirleitt, til dæmis stærðfræðileg þekking. Niðurstaða af þessu tagi – sem virðist óhjákvæmileg ef við samþykkjum að röksemdafærslan hér að ofan sé með sönnum forsendum – flokkast sem efahyggja um hinn ytri heim. Þetta er augljóslega ekki mjög aðlaðandi valkostur, enda nákvæmlega sú niðurstaða sem heimspekingar hafa reynt að forðast allt frá dögum Descartes.

Af ofangreindu er að minnsta kosti ljóst að það er engin auðveld leið til að bregðast við efahyggjurökunum. Hvað svo sem við gerum munum við þurfa að fórna einhverju af því sem við hefðum annars talið sjálfsagt og eðlilegt að fallast á um þekkingu okkar á hinum ytri heimi. Þetta er ástæða þess að heimspekingar eru enn þann dag í dag að glíma við efahyggjuvandann og afleiðingar hans.

Heimildir og frekara lesefni:

  • Descartes, René (2001). Hugleiðingar um frumspeki. Inngangur og þýðing eftir Þorstein Gylfason. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Klein, Peter (2015). „Skepticism“, í Edward N. Zalta (ritstj.), The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Summer 2015 Edition). URL = http://plato.stanford.edu/archives/sum2015/entries/skepticism.
  • Stroud, Barry (1984). „The Problem of the External World,“ úr The Significance of Philosophical Skepticism (Oxford: Clarendon Press).

Myndir:

...