Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kvikmyndir geta veitt nýja innsýn í heimspekileg viðfangsefni. Á síðustu árum hafa til dæmis myndirnar The Truman Show og The Matrix vakið mikla athygli fyrir heimspekileg efnistök.
Efniviður beggja myndanna er að stofni til þekkt heimspekilegt viðfangsefni: hvað ef veruleikinn er í grundvallaratriðum frábrugðinn þeirri mynd sem við þekkjum hann í? Getur verið að tilvera okkar grundvallist á ákveðinni blekkingu? Hvaða leiðir höfum við til að komast að raun um eðli og gerð veruleikans? Að vissu leyti eru þetta eins hversdagslegar og eðlilegar vangaveltur og nokkrar geta orðið. Allir sem hafa fengist við heimspeki með börnum kannast við hvernig ákveðnar spurningar leita á þau í heimspekilegum samræðum. Halda allir áfram að vera til eftir að ég loka augunum? Lítur fólk eins út eða breytist það? Eru kannski allir saman í liði gegn mér? Hvað gerir dótið mitt þegar ég er ekki inn í herberginu mínu? Síðastnefnda spurningin var reyndar notuð með góðum árangri í Toy Story-myndunum.
Úr kvikmyndinni The Truman Show.
The Truman Show fjallar um ungan mann, Truman Burbank, sem elst upp og býr í fyrirmyndarsamfélagi í bandarískum smábæ. Fyrir utan eitt óhapp sem gerði hann hræddan við vatn hefur líf hans verið dans á rósum og virðist hann í upphafi myndarinnar vera eins hamingjusamur eins og nokkur maður getur verið. Í raun og veru er hann hins vegar aðalpersóna raunveruleikasjónvarpsþáttar þar sem hann er aðalstjarnan og er þátturinn kenndur við hann. Fólk um allan heim hefur fylgst agndofa með lífshlaupi hans frá því hann var ættleiddur af framleiðendum þáttanna og gleymir um leið eigin áhyggjum og streði. Allt fólk í kringum hann – vinir og fjölskylda þar með talin – eru leikarar og allt hans líf byggt á blekkingu. Smávægileg atvik gera það að verkum að hann fer að efast um að allt komi heim og saman í tilverunni og svo fer að lokum að hann ákveður að flýja smábæinn sem hann hefur búið í allt sitt líf og kemst þá að því að hann hefur alið allan sinn aldur í risastóru kvikmyndaveri.
Hið heimspekilega stef sem myndin byggist á á sér rætur í svonefndri efahyggju sem kom fram á fornöld. Eins og svo margar fornar hugmyndir gekk hún í gegnum endurnýjun lífdaga á endurreisnartímanum í verkum heimspekinga eins og Michel de Montaigne (1533–1592) sem reyndu að sannfæra lesendur sína um að menn gætu ekki vitað neitt um eðli veruleikans með fullri vissu. Á sautjándu öld taldi franski heimspekingurinn René Descartes (1596–1650) sig þurfa að bregðast við þessari efahyggju og sýna fram á hvernig hægt væri að veita mannlegri þekkingu öruggar stoðir. Í þekktasta verki sínu Hugleiðingum um frumspeki setur Descartes fram litla hugsanatilraun sem hefur lengi verið mönnum innblástur. Hann segist ímynda sér að „máttugur og kænn illur andi neyti allra bragða til að blekkja“ sig og að allt sem hann skynjar séu „einungis draumsýnir sem andinn bregður upp“. Descartes reynir svo að bregðast við þeim augljósu erfiðleikum sem tilraun hans dregur fram í dagsljósið en lesendur hans hafa lengi haft það á tilfinningunni að þau svör kunni að duga skammt og að við getum í raun aldrei vitað fyrir víst hvort líf okkar og tilvera sé mögulega afleiðing einhvers konar blekkingarvefs.
Þessi hugsanatilraun Descartes er líklega þekktasti heimspekitextinn á Vesturlöndum og því kannski ekki að undra að áhrif hennar hafi verið mikil. Lengi vel komust fáir nemendur í gegnum háskólanám í hugvísindum án þess að þekkja Hugleiðingar Descartes. Fleiri textar frá þessu tímabili, sem við kennum við nýöld, hafa reyndar haft mikil áhrif og greina má enduróm þeirra í The Truman Show, meðal annars verk írska heimspekingsins George Berkeleys (1685–1753). Heimspeki Berkeleys fær okkur meðal annars til að hugleiða hvort við getum vitað nokkuð um annað en það sem við skynjum skýrt og greinilega hér og nú – er veruleiki okkar ekki takmarkaður við það?
René Descartes setti fram hugsanatilraun í ritinu Hugleiðingar um frumspeki. Hér sést kápa fyrstu útgáfu verksins.
Rætur allra þessara pælinga liggja án efa í hinni frægu hellislíkinguPlatons en kjarni hennar er að tilvera okkar eins og við upplifum hana sé ekki annað en einhvers konar endurvarp þess sem er raunverulegt. Veruleikinn sé flestum okkar hulinn. En The Truman Show er þó ekki einungis mynd um takmarkanir mannlegrar skilningsgáfu og hversu ginkeypt við getum verið fyrir úthugsaðri blekkingu. Styrkur myndarinnar liggur kannski fyrst og fremst í því hvað gerist þegar Truman fer að gruna að ekki sé allt með feldu þrátt fyrir að hann geti með engu móti skilið hvað sé að gerast. Tilvera okkar allra felur í sér atburði þar sem tilveran virðist handahófskennd og merkingarlaus en okkur grunar að séu um leið mikilvægustu stundir lífsins. Tilvistarspeki, til dæmis í verkum franska heimspekingsins Jean-Pauls Sartre (1905–1980), virðist fyrirmynd margra þeirra spurninga sem leita á Truman eftir að raunverulegt hlutskipti hans fer að renna upp fyrir honum og hann gerir sér grein fyrir að stórar ákvarðanir bíða hans.
Hér hefur aðeins verið drepið á þeim spurningum á mörkum frumspeki og þekkingarfræði sem The Truman Show varpar fram. Líklega munu þó siðfræðilegar vangaveltur dvelja lengst með áhorfendum. Eru blekkingar réttlætanlegar ef markmið þeirra er að veita sem flestum hamingju? Er kannski betra að lifa hamingjusamur í blekkingu heldur en í skrítnum, óskiljanlegum og stundum andstyggilegum veruleika sem fólk verður stöðugt fyrir vonbrigðum með? Og svo varpar myndin ekki síður fram óþægilegum spurningum um menningu samtímans. Er hugmyndin um slíkan sjónvarpsþátt kannski minna fjarstæðukennd en hún var þegar myndin kom út árið 1998? Sjónvarpsþættir eins og Big Brother fóru í loftið um svipað leyti og The Truman Show kom út þar sem fylgst var með þátttakendum – keppendum raunar – með fjölda myndavéla allan sólarhringinn. Eftirlíkingar slíkra þátta eru óteljandi og stöðugt gengið lengra í að ganga fram af áhorfendum en halda þeim um leið límdum við skjáinn.
Að lokum má velta því fyrir sér hvort myndin leiði okkur ekki að mikilvægum spurningum um hvort skoðanir okkar – það sem við teljum að sé rétt og satt – eigi sér nokkurn haldbæran grundvöll þegar flestar þeirra eiga sér uppruna í framsetningu sjónvarps og annarra sjónrænna miðla á raunveruleikanum. Er tilvera okkar allra að verða nokkurs konar The Truman Show þar sem stjórnendur fjölmiðla eru í hlutverki hins illa anda Descartes og segja okkur hvað séu staðreyndir og hvaða væntingar við ættum að gera til lífsins?
Myndir:
Henry Alexander Henrysson. „Hvaða heimspeki er í The Truman Show?“ Vísindavefurinn, 26. nóvember 2015, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71081.
Henry Alexander Henrysson. (2015, 26. nóvember). Hvaða heimspeki er í The Truman Show? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71081
Henry Alexander Henrysson. „Hvaða heimspeki er í The Truman Show?“ Vísindavefurinn. 26. nóv. 2015. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71081>.