Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rökstudd ágiskun um fjölda fæddra einstaklinga af tegundinni Homo sapiens sapiens frá því tegundin hafði borist um allar heimsálfur, fyrir um 50.000 árum, hljóðar upp á 27,5 milljarða manna.
Ég geri ráð fyrir því að hér sé átt við manninn, öðru nafni Homo sapiens sapiens, tegundina okkar, en ekki öll hugsanleg dýr allra tíma. Við útilokum sem sagt alla forvera mannsins, til dæmis Homo habilis og Homo erectus, og einnig náin skyldmenni hans eins og Homo sapiens neanderthalis. Því þarf fyrst að spyrja: Hvað langt er síðan tegundin okkar, Homo sapiens sapiens, varð til?
Frá því um 1974 til áranna 1988-1990 voru mannfræðingar svo til á einu máli um að tegundin okkar væri um 40.000 ára gömul. Sem sagt mjög ung í allri þróunarsögunni, aðeins um 1600 kynslóðir. Þessi útreikningur byggðist á því sem nú eru nefndar fremur frumstæðar DNA-rannsóknir og stakk í stúf við ýmsa fornleifafundi. En síðan hefur tækninni fleygt mjög fram auk þess sem sumir erfðafræðingar telja vera grundvallarskekkju í reiknilíkaninu sem gerði það að verkum að allar erfðabreytingar sýndust helmingi yngri en þær raunverulega voru. Þannig hafi til dæmis leiðir forvera mannsins og forvera sjimpansans, nánasta ættingja okkar, skilist fyrir um 12 miljónum ára en ekki 6 milljónum eins og almennt hefur verið álitið.
Hversu mörg?
Nú er oftast gert ráð fyrir því að "frumstæður" Homo sapiens sapiens hafi fyrst litið dagsins ljós í Austur-Afríku fyrir um 200.000 þúsund árum. Talið er að Búskmenn og pygmear beri skýrustu einkenni þessa frummanns. (Eins og allir vita er maðurinn hitabeltisdýr þótt sumir kynþættir hans hafi upplitast, sjá síðar). Hins vegar fór þessi tegund ekki út fyrir upprunasvæði sitt að neinu ráði fyrr en fyrir um 100.000 árum. Þá hafi tegundin verið búin að fá öll núverandi einkenni sín, þar á meðal óstöðvandi löngun og getu til að flækjast út um allt. Fyrstir á sinn stað urðu frumbyggjar Vestur-Afríku (svertingjar) og þessu næst frumbyggjar Asíu þar sem fólkið greindist í ótal kynþætti, allt frá Ástralíufrumbyggjum til Mongóla. Síðastir komu íbúar Miðjarðarhafslanda og Evrópu sem fóru að upplitast í meira lagi vegna skorts á sólskini (þetta var á ísöld og heimkynnin einkenndust af þokum og rigningum).
Nánar er fjallað um þessa "upplitun" í svari Einars Árnasonar við spurningunni Af hverju eru sumir menn svartir en aðrir hvítir? Þar kemur fram að hægt er að líta á ljósan húðlit manna á norðurslóðum sem líffræðilega aðlögun að skorti á sólskini. Sólarljósið nær lengra inn í ljósa húð en dökka og það getur leitt til myndunar D-vítamíns. Ljós húðlitur gæti þess vegna verið hagkvæmur á norðurslóðum þar sem ekki er mikil sól og hugsanlega skortur á D-vítamíni.
Svo er auðvitað sá möguleiki að innbyggð skekkja sé í reiknilíkaninu eins og áður var greint frá og því verði að margfalda allar fyrrgreindar tölur með tveimur. En við skulum halda okkur við árið 50.000 þegar Homo sapiens hafði numið allar heimsálfur nema Ameríku og þau lönd sem þá lágu undir ís eins og til dæmis Norðurlönd. Enn fremur skulum við ganga út frá því að fjöldinn hafi miðast við hámarksframfærslumöguleika samkvæmt tækni hvers tíma. (Farsóttir fóru fyrst að berast að ráði milli manna með landbúnaðarbyltingunni fyrir um 5000 árum).
Eigi að síður veita forsendur þessar næstum því óteljandi ágiskunarmöguleika sem svar við spurningunni "Hvað hafa margir fæðst á jörðinni". Spurningin hefur þegar verið umorðuð þannig: "Hvað hafa margir einstaklingar af tegundinni Homo sapiens sapiens fæðst á jörðinni síðan fyrir 50.000 árum?"
Reiknað er með þessum mannfjölda á jörðinni alls að meðaltali, á hverri gefinni stund:
Ár fto (fyrir tíma okkar)
Meðalmannfjöldi
30.000-50.000
1,5 milljónir
12.000-30.000
2,5 milljónir
7.000-12.000
4 milljónir
4.000-7.000
10 milljónir
3.000-4.000
25 milljónir
2.000-3.000
60 milljónir
1.000-2.000
150 milljónir
100-1.000
600 milljónir
0-100
2500 milljónir
Lífslíkur hvers einstaklings eru reiknaðar sem meðaltal 40 ár fram til ársins 100 fto, eftir það 50 ár sem meðaltal.
Miðað við þessar forsendur er niðurstaðan þessi:
Ár fto
Tímabil
Fjöldi fæddra
12.000-50.000
forn- og miðsteinöld, fyrir innleiðingu landbúnaðar
2.500 milljónir
2.000-12.000
mest landbúnaðarsamfélög fyrir Krist
2.700 milljónir
100-2.000
100-1900 eftir Krist
17.300 milljónir
0-100
1900-2000 eftir Krist
5.000 milljónir
Heildartalan er 27 miljarðar og 500 milljónir manna.
En ítrekað skal að margar þessar tölur eru aðeins rökstuddar ágiskanir.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hvað hafa margir fæðst á jörðinni?“ Vísindavefurinn, 20. september 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=714.
Gísli Gunnarsson (1938-2020). (2002, 20. september). Hvað hafa margir fæðst á jörðinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=714
Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hvað hafa margir fæðst á jörðinni?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=714>.