Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.Þrælar sem Hjörleifur hafði tekið á Írlandi á leiðinni hingað drápu hann og menn hans um vorið með klækjum og síðan segir:
Þrælarnir fóru í eyjar þær, er þeir sáu í haf til útsuðurs, og bjuggust þar fyrir um hríð.Ingólfur hafði haft vetursetu í Ingólfshöfða en þrælar hans fundu síðan Hjörleif dauðan í Hjörleifshöfða. Ingólfur fór þá þangað vestur:
Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. ... Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn [Írar].Samkvæmt þessari frásögn voru það írskir þrælar Hjörleifs sem stigu fyrstir manna fæti sínum í Vestmannaeyjar. Við eigum að vísu ekki að taka þessa sögu alveg bókstaflega en í henni gæti vel verið sannleikskjarni. Svo mikið er víst að Vestmannaeyjar eru þannig staðsettar að menn hafa séð þær og komið þangað mjög fljótlega eftir að landnám hófst. Það hefur því gerst á árunum um eða upp úr 870.
Margir sem komu til landsins frá Noregi hafa komið að landinu frá suðaustri og síðan siglt vestur með ströndinni í leit að höfn, en eins og kunnugt er er lítið um góðar hafnir á suðurströnd landsins. Þannig hafa margir af þeim sem komu fyrstir til landsins að minnsta kosti séð Vestmannaeyjar og siglt framhjá þeim, og sumir sjálfsagt komið þar við. Heimild og mynd:
- Mats: Myndasafn © Mats Wibe Lund.
- Sturlubók Landnámabókar á vefsetrinu snerpa.is
Þetta svar er í flokknum „bekkirnir spyrja“ þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.