Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru um landið þvert og endilangt árin 1752–1757 á kostnað Danakonungs og í mikilfenglegri ferðabók, sem ekki kom út fyrr en árið 1772, lýstu þeir náttúru og dýralífi, en líka íslensku samfélagi og alþýðumenningu. Í frásögn um Kjósarsýslu segja þeir: „Því verður ekki móti mælt, að viturlegasta og nytsamasta dægradvöl Íslendinga er hinn ævaforni siður að lesa fornsögur í heyranda hljóði“. Væri húsbóndinn hlynntur sögulestri fékk hann „svo margar sögur að láni hjá nágrönnum sínum og öðrum góðkunningjum, að þær endast allan veturinn. Sögulesturinn veitir vinnufólkinu ánægju og heldur því vakandi“. Eins nefna þeir rímur ortar út frá fornum sögum, sem fólk hafi miklar mætur á. Þann fyrirvara setja þeir reyndar um Suðurland og einkum Kjósarsýslu „að sagnalestur er minna ræktur hér en í öðrum sveitum lengra inni í landinu“. Um Borgarfjörð segja þeir að helsta dægradvöl manna hafi verið að lesa íslenskar sögur, ekki aðeins á vetrarkvöldum, heldur „einnig á daginn, þegar svo illa viðrar, að allt heimilisfólk verður að sitja inni“. Í lýsingu á Snæfellsnesi gera þeir rímur að umtalsefni:
Lestur fornsagna og rímnakveðskapur er mikið iðkaður í verstöðvunum á vetrum... Oft hittast hér skáld sem hafa það að atvinnu að yrkja rímur út af sögum. Það, sem verst er í því efni, er að rímnaskáld þessi taka sér jafnt hinar lélegustu lygisögur að yrkisefni og hinar, sem sannar eru.
Þar eiga þeir við Íslendingasögur annars vegar, sem þeir höfðu velþóknun á, en fornaldarsögur og riddarasögur hins vegar sem þeim þóttu vera lítils virði. Nokkuð er til af handritum frá þessum tíma sem geyma sögur af ýmsu tagi og sömuleiðis rímnasöfn, þó vart fleiri en 200 eða þar um bil. Því miður hefur enn ekki verið gerð rækileg úttekt á skrifurum þeirra og eigendum, sem myndi leyfa öruggar ályktanir um útbreiðslu á slíkum textum og þá aðgengi alþýðu manna að þeim.
Íslandskort úr ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.
Eins víst er að Eggert og Bjarni ýki nokkuð vinsældir fornrita og miði heldur frásögn sína við betri bændur, sem þeir þekktu til og umgengust, fremur en sauðsvartan almúgann. Sé tekið mið af varðveittum skrám yfir eftirlátnar eigur fólks frá síðari helmingi 18. aldar, sem eru mjög nákvæmar, verður nefnilega ekki annað ráðið en að guðsorðabækur á borð við Passíusálmana og postillu Jóns biskups Vídalíns, að ógleymdum hvers kyns hugvekjum og bænasöfnum, hafi verið allsráðandi og fornritin varla til á heimilum. Þó átti Helgi Helgason bóndi á Krossi á Skarðsströnd, þegar hann lést árið 1791, aðra tveggja bóka með Íslendingasögum sem komu út að Hólum í Hjaltadal árið 1756, auk rímna af Þorsteini uxafót sem voru prentaðar árið 1771 og rímnakvers úr bandi. Sama ár átti Ásgeir Þorvarðsson á Jörfa í Haukadal handrit með sögu af Bæringi fagra og Grími. Árið 1799 átti Jón Jónsson í Skoravík á Fellsströnd bæði Egils sögu prentaða í Hrappsey 1782 og Njáls sögu prentaða í Kaupmannahöfn áratug fyrr. Sex árum áður átti Brynjólfur Bjarnason í Innri-Fagradal, fyrrum staðgengill sýslumanns, enga þessara prentuðu bóka en aftur á móti skrifaða sögubók af Þórði kraka og aðra af Sigurði Fáfnisbana.
Til eru 59 dánarbú úr Dalasýslu frá árunum 1782–1800 og leynast sögur eða rímur í 11 þeirra, sem gerir 19%. Það er mun hærri tala en sú sem birtist við útreikninga Sólrúnar Jensdóttur, sem hefur talið saman bækur úr tiltækum dánarbúum frá síðari helmingi 18. aldar. Að jafnaði voru 8,6 bækur á hverju alþýðuheimili en samanlagt 9925 bækur og af þeim voru 627 veraldlegs eðlis eða 6%, sem gerir eina á hver tvö heimili. Þarna eru meðtalin leiðsagnarrit um landbúnað, lögbækur, ævisögur og tímarit, en ekki bara fornsögur og rímur. Íbúar í Dalasýslu hafa því verið talsvert áfjáðari í slíkt lestrarefni en íbúar í öðrum sýslum, þar sem guðsorðabækur voru einráðar. Sú var að minnsta kosti staðan í Rangárvallasýslu á þessum árum og í Þingeyjarsýslu bregður fornriti fyrir á stöku stað, til að mynda Skálholtsútgáfu Landnámabókar frá 1688 í dánarbúi Árna Jónssonar á Grímsstöðum á Fjöllum, sem lést árið 1785 og átti hvorki fleiri né færri en 28 guðsorðabækur að auki ásamt kverum um sauðfjárhirðingu og iktsýki (liðagigt).
Mynd af íslenskum bóndabæ úr ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.
Samantekt Sólrúnar sýnir líka að í eigu presta og sýslumanna voru 1336 veraldlegar bækur, en dánarbúin voru aðeins 136 þannig að nærri því tíu slíkar voru á hverju heimili. Af 218 handritum sem getið er í öllum þessum dánarbúum voru 117 í eigu embættismanna. Ekki geta þau talist mörg og fullyrðing Hallgríms Hallgrímssonar frá 1925 fær varla staðist, þegar hann segir: „Í sveitunum var til ógrynni af handritum“. Þá er vandséð hvað Eggert og Bjarni áttu við þegar þeir mærðu útlán á handritum á milli bæja og líklegt að í báðum tilvikum sé á ferðinni nokkur óskhyggja um meiri áhuga á fornum sögum og kveðskap en raunin var meðal fólksins í landinu. Hafi áhuginn verið fyrir hendi komu aðstæður í veg fyrir að hann hægt væri að svala honum, því textar þessir voru ekki til á prenti en handrit af skornum skammti og í höndum embættismanna.
Ýmislegt bendir svo til þess að áhuginn hafi glæðst á fyrstu áratugum 19. aldar og enn frekar á síðari helmingi aldarinnar, þegar farið var að prenta fornritin í ódýrum útgáfum og bókmenntir miðalda urðu að menningarlegu viðmiði í opinberri umræðu, jafnvel einkalífi. Sem dæmi um þetta er að eitt þúsund Íslendingar gerðust áskrifendur að nýrri ritröð fornrita sem hóf göngu sína í Kaupmannahöfn árið 1825, helmingurinn bændur og 200 vinnumenn.
Heimildir:
Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi 1752–1757. Tvö bindi. Þýðandi Steindór Steindórsson. Önnur útgáfa. Reykjavík 1974.
Hallgrímur Hallgrímsson, Íslensk alþýðumentun á 18. öld. Reykjavík 1925.
Sólrún Jensdóttir, „Books owned by ordinary people in Iceland 1750–1830“, Saga-Book 19 (1974–1977), bls. 264–292.
Sterbúsins fémunir framtöldust þessir. Eftirlátnar eigur 96 Íslendinga sem létust á tímabilinu 1722–1820. Útgefandi Már Jónsson. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 18. Reykjavík 2015.
Már Jónsson. „Lásu 18. aldar Íslendingar engin fornrit?“ Vísindavefurinn, 8. desember 2015, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71239.
Már Jónsson. (2015, 8. desember). Lásu 18. aldar Íslendingar engin fornrit? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71239
Már Jónsson. „Lásu 18. aldar Íslendingar engin fornrit?“ Vísindavefurinn. 8. des. 2015. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71239>.