Í kennslubókum eru kyngingarörðugleikar skilgreindir sem óþægindi, verkur eða þrengslatilfinning í koki innan 15 sekúndna frá því að kynging hefst. Þessi skilgreining er gagnleg til að greina á milli kyngingarvanda af öðrum toga svo sem brjóstsviða, nábíts, „kökks“ í hálsi, eða þrengsla neðar í vélinda, en þá situr fæðan oftast föst eftir að við kyngjum. Einstaklingur sem á við kyngingarörðugleika að etja finnur þó ekki alltaf fyrir þessum óþægindum heldur getur fengið hóstakast strax eftir að fæðu eða drykkjar hefur verið neytt. Kyngingarörðugleikar geta orðið vegna slappleika í tungunni sem veldur því að erfitt er að byrja eðlilegt kyngingarviðbragð með snöggri hreyfingu aftur á við. Lélegar gervitennur og slæmt ástand tanna getur haft áhrif og einnig getur slappleiki eða lömun í koki valdið því að barkakýlið lyftist lítið, of seint eða alls ekki. Ef kyngingarörðugleikar eru til staðar og einstaklingur heldur áfram að borða, er hætta á að matur fari ofan í barka og okkur svelgist á. Kynging getur brugðist skyndilega eins og við heilaáfall. Skiptir þá litlu máli hvort heilaáfallið hafi orðið í mænukylfu eða í öðru hvoru heilahveli. Algengt er að minnkuð munnvatnsframleiðsla valdi erfiðleikum við kyngingu. Munnvatnskirtlarnir breytast með aldri en það á ekki að draga úr magni munnvatnsins. Hins vegar er algengt að lyf dragi úr framleiðslu þess og valdi munnþurrki. Nokkrir sjúkdómar geta valdið því sama og einnig má nefna að kvíðakast getur dregið úr framleiðslu munnvatns, einkum hjá ungu fólki. Aðrir sjúkdómar, eins og Parkinsonsjúkdómur, valda kyngingarörðugleikum og munnvatn getur þá safnast fyrir í munni og valdið vanda. Hjá fólki með taugasjúkdóma getur greiningin á kyngingarörðleikum verið flókin. Hreyfimyndatækni með skuggaefni er þá notuð til að mynda hreyfingu koksins og þverfaglegt teymi (taugalæknir, háls- nef- og eyrnalæknir, talmeinafræðingur) þarf að koma að greiningu vandans og ákveða meðferð. Viðeigandi meðferð er valin eftir greiningu á kyngingarörðugleikum. Oft getur verið nóg að breyta áferð fæðunnar, svo sem að hakka eða mauka fæðu og þykkja drykki. Ef litlar hreyfingar eða engar eru í koki við kyngingu er stundum ákveðið að gefa næringu í gegnum slöngu. Þar sem kyngingarörðugleikar ganga stundum til baka, hvort sem er að hluta eða að öllu leyti, er kyngingarmat endurmetið eftir þörfum. Ítarefni:
- M.A. Crary og M.E. Groher. 2003. Adult Swallowing Disorders. Butterworth Heinemann.
- Jeri A. Logemann. 1998. Evaluation and Treatment of Swallowing Disorders. 2. útg. Proed.
- William F. Ganong. 1993. Review of Medical Physiology. 16. útg. Prentice-Hall International Inc.
- J.Grimley Evans, T. Franklin Williams, B. Lynn Beattie, J-P. Michel og G.K. Wilcock (ritstj.). 2000. Oxford Textbook of Geriatric Medicine. 2. útg. Oxford University Press.
- Derek Doyle, Geoffrey W.C. Hanks og Neil MacDonald (ritstj). 1997. Oxford Textbook of Palliative Medicine. Oxford University Press.
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Get ég fengið upplýsingar um kyngingarörðugleika hjá öldruðum?