Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ýmsir byltingarherir hafa haft mikil áhrif á framvindu sögunnar. Slíkir herir einkennast meðal annars af því að þeir berjast með ákveðna hugmyndafræði að leiðarljósi. Sú hugmyndafræði getur verið þjóðfélagslega framsækin miðað við hugmyndir síns tíma, boðað hugmyndir um afnám einveldis (til dæmis guðlegs konungsvalds hins upplýsta einveldis í Evrópu á 17. og 18. öld) eða kapítalisma, kúgunar og arðráns. Meðal herja af þessu tagi eru New Model Army, sem hafði mikil áhrif í ensku byltingunni um miðja 17. öld, franski byltingarherinn sem myndaður var í frönsku byltingunni 1789 og Rauði herinn í Rússlandi.
Byltingar eins og þær sem urðu í Frakklandi 1789, Rússlandi 1917 og Kína 1949 gjörbreyttu þessum samfélögum í grundvallaratriðum, þar á meðal stéttagerð og ráðandi hugmyndafræði. En ekki nóg með það heldur höfðu byltingarnar áhrif á heimsvísu, því að öll þessi ríki urðu í framhaldinu stórveldi. Þau urðu ekki bara venjuleg stórveldi, heldur tákn og dæmi um hvað hægt væri að gera til að bæta og efla ríkisvald og samfélag í þágu almennings með byltingaraðgerðum. Byltingin í Englandi varð nokkuð annars eðlis, því þótt landið yrði stórveldi eftir hana, var lítið gert af því að flagga róttækri byltingarhugmyndafræði er lægi að baki veldinu. Engu að síður var öllum ljóst, eftir að konungurinn þar var tekinn af lífi 1649 og ríkisstjórnin falin þinginu í hendur, að þar var róttæk nýjung á ferðinni.
Slík staða byltingarríkis, sem verður stórveldi með stuðningi almennings og með þjóðfélagslega framsækna hugmyndafræði að leiðarljósi, er ótrúlega kröftug blanda og hefur haft víðtæk áhrif síðastliðin 400 ár eða svo.
Her Bolsévíka marserar á Rauða torginu í Moskvu.
Byltingarherirnir tengdust oft náið meira eða minna skipulegum stjórnmálasamtökum, sem töluðu fyrir hugmyndum eins og jafnrétti, lýðræði, afnámi arðráns, eins og Levellers á Bretlandi, Jakobínar í frönsku byltingunni, Bolsévíkaflokkurinn í Rússlandi og Kommúnistaflokkur Kína.
Oft er rætt um að til að bylting geti orðið árangursrík þurfi bæði félagslegir og pólitískir þættir að vera til staðar. Ný eða nýjar stéttir ná völdum, svo sem borgarastétt, smábændastétt og/eða verkalýðsstétt, og ný tegund stjórnvalds og stjórnmála kemur fram, þingbundin stjórn í borgaralegum byltingarríkjum, eða stjórn kommúnistaflokks, sem stjórnar í nafni og með virkri þátttöku og stuðningi almennings í kommúnistaríkjum. Slík samstaða um markmið og leiðir byltingarinnar er lykilatriði hennar, samstaða sem nær oft langt út fyrir landamæri viðkomandi ríkis. Sjaldnar er rætt um að hernaðarlegir þættir þurfa einnig að koma til, því andstæðingar byltinga eru oftast öflugir, valdamiklir og auðugir, og hafa yfirleitt ekki hikað við að beita hervaldi til að kveða þær niður.
Hér verður nánar beint sjónum að Rauða hernum í Rússlandi, sem hét Krasnaia armia á rússnesku. Hið afar fornlega og afturhaldssama rússneska keisaradæmi hafði um þriggja ára skeið háð styrjöld við Þýskaland, 1914-1917, sem var hluti af fyrri heimsstyrjöldinni, og tók æ meiri toll af rússnesku samfélagi og varð því æ þungbærari. Þýskaland var mun öflugra og þróaðra land á flestum sviðum en Rússland og hafði yfirhöndina í styrjöldinni. Loks varð ástandið óþolandi og bylting braust út í mars 1917. Dúman, þingið sem keisarinn hafði skipað 1906 til að svara kröfum um aukið lýðræði, tók völdin en jafnframt urðu til sovét eða ráð verkamanna, sem höfðu mikil völd. Þessi sovét höfðu á að skipa vopnuðum sveitum verkamanna, sem voru upphaflegur kjarni Rauða hersins. Bráðabirgðastjórnin og sovétin börðust um völdin í flóknu valdatafli nær allt árið 1917, eða þar til Bolsévíkar, róttækur flokkur sósíalista, tóku völdin af bráðabirgðastjórninni 7. nóvember 1917 í bandalagi við sovétin.
Vopnuð sveit verkamanna í Vulkan-verksmiðjunni í Petrograd (St. Pétursborg). Mynd frá október 1917.
Eitt fyrsta verk Bolsévíka eftir að þeir náðu völdum var að stofna Rauða herinn. Hann var stofnaður upp úr hinum vopnuðu sveitum verkamanna sem höfðu myndast undir stjórn sovétanna. Næsta skrefið var að svara kröfunni sem þá var háværust meðal almennings, um að semja frið við Þjóðverja. Áður en það tókst háði Rauði herinn nokkrar orrustur við Þjóðverja og vann þær, en hann hafði þá hvorki mannafla, vopn né vistir til að fylgja þeim sigrum eftir og halda stríðinu áfram, enda krafan eins og áður segir að semja frið eftir langvarandi þjáningar stríðsins. Stofndagur hersins er miðaður við þennan sigur Rauða hersins og er 23. febrúar 1918, dagur sem enn er haldinn hátíðlegur í Rússlandi sem dagur verjenda Móður Rússlands.
Tveimur vikum síðar var undirritað friðarsamkomulag milli Rússa og Þjóðverja. Ekki leið á löngu þar til styrjöld braust út á ný, nú milli Rauða hersins og svokallaðra hvítliða. Það voru leifar keisarahersins sem snérust gegn stjórn Bolsévíka og höfðu til þess stuðning Breta, Bandaríkjamanna og fjölda annarra ríkisstjórna, sem óttuðust mjög fordæmi og árangur sósíalískrar byltingar í Rússlandi (og höfðu til þess fulla ástæðu). Þessar stjórnir studdu hvítliða með ráðum og dáð, vopnum, vistum og sendu hersveitir á vettvang þeim til aðstoðar.
Rússneskir hermenn gefast upp fyrir Þjóðverjum í Tannenberg í Austur-Prússlandi í ágúst 1914. Fyrri heimsstyrjöldin reyndist Rússum mjög erfið og eitt af fyrstu verkum Bolsévíka var að svara kröfu almennings um friðarsamning við Þjóðverja.
Rauði herinn var skipulagður til að mæta þessari ógn. Hann skyldi skipaður vel upplýstum, byltingarsinnuðum verkalýð og alþýðufólki, 18 ára og eldri. Börn kaupmanna, presta og aðalsmanna máttu ekki vera í hernum. Í keisarahernum höfðu aðeins Rússar mátt þjóna, og hinir fjölmörgu minnihlutahópar í Rússaveldi ekki, en í Rauða hernum máttu allar þjóðir vera.
Hlutverk hersins var að verja vald sovétanna, og að auki að undirbúa stuðning við komandi sósíalískar byltingar annars staðar í Evrópu. Þótt herinn væri að nafninu til verkalýðsher og margir róttækir verkamenn gengju í herinn, var verkalýðurinn tiltölulega fámennur í Rússlandi, svo herinn var að þremur fjórðu skipaður bændum og bændasonum. Í lok borgarastyrjaldarinnar voru sex milljónir hermanna í Rauða hernum. Fjöldi þeirra sem vildi berjast með hernum var meiri en þörf var á, bæði menn og konur. Þeir sem ekki komust í herinn fengu önnur verkefni, svo sem að safna brotajárni og útbúa hjálpargögn.
Rauði herinn var nú skipaður fyrrnefndum varðsveitum verkamanna og bænda auk hersveita úr keisarahernum sem gengið höfðu til liðs við hann. Rauði herinn var umkringdur her hvítliða. Í suðri voru sveitir Kósakka, í austri Kolchak, sem hafði verið hershöfðingi í keisarahernum og hersveitir hans auk tékknesks herliðs sem barðist gegn kommúnistum, og í norðri sóttu fram breskar og bandarískar hersveitir. Allir þessir herir unnu í fyrstu sigra gegn Rauða hernum.
Rauði herinn var skipaður verkamönnum og bændum auk hersveita úr keisarahernum sem gengið höfðu til liðs við hann.
Til að bregðast við ósigrunum var brugðið á það ráð að taka inn í herinn foringja úr gamla keisarahernum, alls um 50.000 herforingja, sem kunnu vel til verka í hernaði, en voru líka oft úr þeirri hástétt sem byltingin hafði verið gerð gegn. Ýmsum brögðum var beitt til að tryggja fylgispekt þeirra við Sovétríkin, meðal annars voru fjölskyldur sumra foringjanna teknar í gíslingu, og til frekara öryggis voru skipaðir pólitískir kommisarar úr Bolsévíkaflokknum. Þeir skyldu sjá um að herforingjarnir úr keisarahernum fylgdu réttri stefnu, þeirri stefnu sem Bolsévíkaflokkurinn og sovétin ákváðu. Mikil áhersla var lögð á góða hegðun hermanna Rauða hersins gagnvart almenningi.
Með þessum ráðum og öflugum stuðningi lágstéttanna við herinn tókst að snúa við gangi stríðsins. Hvítliðar og bandamenn þeirra biðu nokkuð óvæntan ósigur og í lok árs 1919 réði Rauði herinn yfir nánast öllum Evrópuhluta Rússlands. Hvítliðar höfðu þó enn völd í Síberíu en Rauði herinn sigraði þá í herferð sem lauk árið 1922. Rauði herinn réðist einnig inn í Pólland árið 1920 vegna deilna um yfirráð yfir Úkraínu, en beið ósigur fyrir pólska hernum í orrustunni um Varsjá. Ósigurinn í Póllandi varð afdrifaríkur, því ein hugmyndin með því að hertaka Pólland var að Rauði herinn ætti þá möguleika á að styðja sósíalískar hreyfingar vestar í Evrópu eins og áður er minnst á, í Þýskalandi, Frakklandi og annars staðar. Það tókst ekki. Í stað þess einangraðist byltingin í Rússlandi og sósíalísk ríki urðu ekki fleiri fyrr en 25 árum síðar, eftir síðari heimsstyrjöld.
Oft er rætt um að hin upphaflega, byltingarsinnaða verkalýðsstétt hafi að mestu þurrkast út í borgarastyrjöldinni. Stór hluti þeirrar verkalýðsstéttar sem gerði byltinguna féll í styrjöld við að verja hana, fórnaði lífi sínu fyrir hugsjónina um verkalýðsvöld og sósíalisma. Ný verkalýðsstétt varð til á tímabilinu 1921-1940 við að bændur fluttu í þéttbýlið og fengu vinnu í verksmiðjum. Sú stétt varð síðan ráðandi í Sovétríkjunum um skeið, mannaði ekki bara verksmiðjur heldur var einnig séð til þess að verkalýður hefði forgang að stöðum í ríkiskerfinu, námi í háskólum og foringjastöðum í hernum.
Ýmislegt er líkt með ástandinu eftir frönsku byltinguna 1789 og þá rússnesku 1917. Eftir frönsku byltinguna tók við langvarandi hernaður milli Frakklands og annarra ríkja Evrópu. Alls stóð byltingin og stríðin eftir hana í 25 ár. Í Rússlandi vofði alltaf yfir innrásarógn úr vestri, því Sovétríkin boðuðu alheimsbyltingu lágstétta og ríkisstjórnir og ráðandi stéttir landa eins og Þýskalands, Bretlands og Bandaríkjanna voru lítt hrifnar af þeirri hugmynd. Segja má að samfellt stríðs- eða átakaástand hafi ríkt þess vegna í Evrópu frá 1918-1989 eða í yfir 70 ár, þótt mikinn hluta þess tíma hafi verið kalt stríð og ekki bein vopnuð átök á vígvelli. Þjóðverjar gerðu innrás í Sovétríkin 1941 en biðu mikinn ósigur eftir fjögurra ára stríð. Rauði herinn hernam hluta Þýskalands og Sovétríkin héldu þar yfirráðum allt til 1989.
Rauði herinn í Berlín vorið 1945.
Á þeim tíma sem Sovétríkin stóðu urðu gríðarlega hörð hugmyndafræðileg átök milli andstæðra fylkinga. Sovétríkin boðuðu valdatöku verkalýðs og bænda og afnám valds kapítalista og landeigenda. Komið var á fót öflugu mennta- og heilbrigðiskerfi, atvinnuleysi útrýmt og samfélagið var endurskipulagt frá grunni með það að markmiði að nútímavæða það á öllum sviðum og leggja þá miklu fátækt, sem áður hafði ríkt, að baki. Það tókst.
Þetta hafði mikil áhrif á Vesturlöndum. Valdastéttir Vesturlanda sáu sér þann kost vænstan að taka upp nýjungar í þjóðfélagsmálum, meðal annars undir áhrifum frá Sovétríkjunum, svokallað velferðarkerfi. Fjölmiðlar og hugmyndafræðingar á vegum valdhafa á Vesturlöndum háðu mikið áróðursstríð gegn sósíalísku ríkjunum og töldu að þar ríkti ófrelsi, mannréttindi væru einskis virt og gegndarlaus kúgun viðgengist. Nóg hráefni var í slíkt stríð, því byltingin og eftirmál hennar, eins og samyrkjuvæðing sveita, fólu í sér hrikaleg samfélagsátök. Foringjar Bolsévíka voru útmálaðir sem einræðisherrar og djöflar í mannsmynd. Þýskir nasistar töldu að gyðingar stæðu að baki sósíalismanum í Sovétríkjunum. Hvort tveggja var eitur í beinum þeirra og þeir reyndu af öllu afli að rústa byltingarríkinu. Talið er að 75-80% alls herafla Þjóðverja hafi verið beitt í þessu skyni á austurvígstöðvunum 1941-1945, en Rauði herinn snéri eins og áður segir vörn í sókn eftir mikla ósigra og varði byltinguna enn á ný.
Heimildir
David Bullock: The Russian Civil War 1918-22. Oxford, Osprey Publishing, 2008.
Sheila Fitzgerald: The Russian Revolution. Oxford, Oxford University Press, 2008.
Mark Hagen: Soldiers in the Proletarian Dictatorship: The Red Army and the Soviet Socialist State, 1917-1930. Ithaca, Cornell Universtity Press, 1993.
Roger R. Reese: Red Commanders: A Social History of the Soviet Army Officer Corps, 1918-1991. Lawrence, Kansas, University Press of Kansas, 2005.
Theda Skocpol: States and Social Revolutions. A comparative analysis of France, Russia, and China. Cambridge, Cambridge University Press, 1979.
Árni Daníel Júlíusson. „Hvað er Rauði herinn og hverjir börðust í honum?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2015, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70978.
Árni Daníel Júlíusson. (2015, 30. nóvember). Hvað er Rauði herinn og hverjir börðust í honum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70978
Árni Daníel Júlíusson. „Hvað er Rauði herinn og hverjir börðust í honum?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2015. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70978>.