Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið við þessari spurningu er einfaldlega nei. Hér á landi hefur ekki verið lagt bann við því að klæðast búrkum, híjab eða sambærilegum klæðnaði. Þó hefur bann við búrkum verið rætt nokkuð, bæði á Alþingi og í samfélaginu almennt. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort slíkt bann stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar og kröfur alþjóðlegra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.
Árið 2010 beindi þingmaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrirspurn til þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra, Ögmundar Jónassonar, um búrkubann. Hún spurði ráðherrann hvort hann teldi rétt að banna búrkur og í kjölfarið fóru fram umræður um fyrirspurnina á þingi. Ráðherrann svaraði fyrirspurninni á sama hátt og hér er gert, með orðinu nei.
Hann sagði meðal annars í svari við fyrirspurn þingmannsins að hann teldi að mjög sterk rök þyrftu að búa að baki því að ríkisvaldið færi að skipta sér af því með lagasetningu hverju fólk klæddist. Hann sagði einnig að andstæðingar banns við þessum ákveðna klæðaburði bentu á að í fyrsta lagi væru ástæður kvenna fyrir því að klæðast búrku, níkab eða slæðu mjög mismunandi, og að í öðru lagi leysti bann ekki málið í þeim tilfellum þar sem um kúgun kvenna gæti verið að ræða. Þvert á móti geti bann leitt til meiri einangrunar.
Hér á landi hefur ekki verið lagt bann við því að klæðast búrkum, hijab eða sambærilegum klæðnaði. Stelpurnar á myndinni klæðast hijab.
Fyrirspurn Þorgerðar Katrínar hafði ekki frekari afleiðingar, aðrar en þær að um málið skapaðist umræða í samfélaginu. Hún lifir enn og ljóst er að skiptar skoðanir eru um bann við þeim klæðaburði sem hér um ræðir.
Sama ár og rætt var um búrkubann hérlendis tók gildi í Frakklandi bann við búrkum, og annars konar klæðnaði sem hylur andlit. Bannið var alls ekki óumdeilt og á það reyndi í máli fyrir Mannréttindadómstól Evrópu árið 2014. Frönsk 24 ára kona af pakistönskum uppruna höfðaði málið, því hún vildi njóta frelsis til að klæðast búrku og svokölluðu níkab, sem myndi hylja höfuð hennar og líkama þannig að aðeins sæist í augu hennar á almannafæri. Hún taldi að í banninu fælist brot gegn nokkrum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, til dæmis ákvæðum sem varða friðhelgi einkalífs, trúfrelsi, tjáningarfrelsi og bann við mismunun.
Rök franska ríkisins fyrir því að bannið stæðist ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu byggðust annars vegar á því að lögin væru nauðsynleg til stuðla að jafnrétti kynjanna, því búrkan og sambærilegur klæðnaður væru afrakstur kúgunar karla gegn konum. Hins vegar taldi franska ríkið að það væri mikilvægt að einstaklingar hyldu ekki andlit sín á almannafæri, þar sem samskipti fólks væru mikilvægur hluti af því að lifa saman í samfélagi.
Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli hennar var að bannið stæðist ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Dómstóllinn féllst ekki á rök franska ríkisins þess efnis að lögin væru nauðsynleg til að stuðla að jafnrétti kynjanna, þar sem ríkið gæti ekki borið fyrir sig að lögunum væri ætlað að vernda réttindi kvenna ef þær vildu sjálfar klæðast búrkum.
Búrkur, og annars konar klæðnaður sem hylur andlit, hafa verið bannaðar í Frakklandi frá 2010. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið á um að bannið standist ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Konan á myndinni klæðist níkab.
Aftur á móti taldi dómstóllinn að bannið stæðist að því marki sem um væri að ræða vernd réttinda og frelsis annarra. Réttur fólks til að sjá andlit þeirra sem það á í samskiptum við er verndaður í mannréttindasáttmála Evrópu. Sá réttur fólks til að eiga í samskiptum við samborgara sína (fr. la vivre ensemble) gæti samkvæmt sáttmálanum í ákveðnum tilvikum réttlætt það að réttindi einstaklinga væru takmörkuð. Dómstóllinn taldi að í þessu tilviki skyldi sá réttur vera rétthærri en réttur konunnar til að klæðast búrku og níkab á almannafæri.
Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, hefur haldið því fram að í ljósi þessa dóms sé líklegt að bann við búrkum og sambærilegum klæðnaði hér á landi myndi standast ákvæði innlendra laga og mannréttindasáttmála Evrópu.
Eftir stendur þó spurningin um það hvort við teljum æskilegt að láta reyna á slíkt bann hérlendis. Sú spurning er í grunninn pólitísk, og hún felur í sér hvort við viljum setja skorður við til dæmis trú- og tjáningarfrelsi samborgara okkar. Þeirri spurningu er ekki hægt að svara með einu orði.
Heimildir:
Iðunn Garðarsdóttir. „Er bannað að klæðast búrkum á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 8. mars 2017, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70962.
Iðunn Garðarsdóttir. (2017, 8. mars). Er bannað að klæðast búrkum á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70962
Iðunn Garðarsdóttir. „Er bannað að klæðast búrkum á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 8. mar. 2017. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70962>.