Hitt er hugsanlegt, þó að ekki sé það líklegt, að geimverur frá öðrum hnöttum eigi eftir að koma til jarðarinnar. Þær gætu þá alveg eins lent í Evrópu og annars staðar en þó þarf að hafa í huga að Evrópa er ekki stór að flatarmáli miðað við aðrar heimsálfur eins og til dæmis Asíu eða Norður- eða Suður-Ameríku. Líkurnar á að fyrstu gestirnir frá öðrum hnöttum mundu lenda í Evrópu eru því ekki sérlega miklar. Sem dæmi um þetta má nefna að lönd Evrópusambandsins munu vera um 4,4 milljónir ferkílómetra að stærð en Bandaríkin ein eru um 10 milljónir. Í þriðja lagi má hugsa sér að spyrjendur eigi við tunglið Evrópu (e. Europa) sem er á braut um reikistjörnuna Júpíter. Yfirborð þessa tungls er þakið ísi en líklegt er að vatn sé undir honum og þar gætu því verið skilyrði til lífs. Tunglið Evrópa hefur verið kannað úr nágrenninu í ómönnuðum geimferðum og uppi eru hugmyndir um að senda geimkanna (e. probe) til Evrópu til að rannsaka tunglið nánar.
Glöggur lesandi benti okkur á að spurningin kynni að eiga við það að geimverur í bandarískum kvikmyndum komi yfirleitt til Bandaríkjanna og séu þar síðan áfram. Sé það rétt þurfa Evrópumenn kannski að vera duglegri að búa til kvikmyndir með geimverum. En samkvæmt því sem áður var sagt um flatarmál er raunar talsvert líklegra að raunverulegar geimverur mundu lenda í Bandaríkjunum en í Evrópu! Frekara lesefni á Vísindavefnum: Myndir:
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.